„Hann sótti mjög í mig,“ sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir fráfarandi barnamálaráðherra, í viðtali við Vísi. Hún tilkynnti um afsögn sína sem ráðherra í kvöld vegna sambands við ólögráða dreng þegar hún var á þrítugsaldri. Hún var þá leiðbeinandi hans í trúfélagi sem hann leitaði til vegna erfiðra aðstæðna. RÚV greindi fyrst frá málinu í dag, en þar kom fram að hún hefði eignast barn með drengnum þegar hann var sextán ára gamall og hún 23 ára. Hann saki hana um tálmun.
Vísir náði tali af Ásthildi Lóu þegar hún var að yfirgefa RÚV, þar sem hún verður til viðtals í kvöld. Þar sagðist hún hafa sagt af sér sem ráðherra fyrst það væri verið að draga þetta mál fram núna, til að skyggja ekki á störf ríkisstjórnarinnar.
„Þá var ég 22 ára gömul og var í sambandi við mann sem var yngri en ég, sextán ára,“ sagði hún og sagði að hann hefði sótt mjög í hana. „Hann var ofboðslega hrifinn af mér. Hann var mjög aðgangsharður, svo ekki sé meira sagt. Og fyrir rest – ég bara réði ekki við ástandið eins og það var.“
Ýmsar ástæður væri að baki sambandinu, sem hún gæti kannski ekki farið nánar út í svo stuttu viðtali.
Hún hafnaði hins vegar ásökunum um tálmun. „Ég tálmaði ekki.“
Þá var hún gráti næst þegar hún sagði það erfiðasta sem hún hefði gert væri að láta af störfum sem ráðherra. „Við vitum það hvernig fréttir eru í dag. Við vitum að svona mál, ef ég væri áfram ráðherra þá væri það dregið upp aftur og aftur og aftur. Það yrði aldrei neinn vinnufriður fyrir ríkisstjórnina og ekki heldur í málefnunum sem ég brenn fyrir.“
Aðspurð hvort henni þætti þetta ósanngjarnt svaraði hún: „Já, ég verð að segja að mér finnst það.“
Að lokum bað hún fólk um að hafa í huga að hún væri ekki sama manneskjan í dag og þegar hún var 22 ára. „Það eru 36 ár síðan. Það breytist ýmislegt á þeim tíma.“
Hún hafi ekki haft hæfni og þroska til að takast á við þetta mál þá, með þeim hætti sem hún myndi gera í dag.
Athugasemdir (1)