Í nær tvo áratugi hefur skapast sú staða í Reykjavíkurborg að allur gangur getur verið á því hvort leikskólapláss sem barni er úthlutað sé nálægt heimili þess. Þá hefur ekki verið hægt að haga málum þannig að yngra systkini barns sem þegar er á leikskólanum fái forgang við úthlutun, sem í daglegu tali kallast systkinaforgangur.
„Fjölmargir þættir hafa áhrif á það hvernig fjölskyldupúsluspilið verður næstu mánuði og jafnvel misserin“
Í Reykjavíkurborg eru 66 borgarreknir leikskólar. Samkvæmt umfjöllun Heimildarinnar 7. mars sl. voru í upphafi þessa árs 874 börn á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík. Þar af biðu 457 barna flutnings í annan leikskóla, eða rúmlega helmingur. Þetta hlutfall leiðir líkur að því að of mikill fjöldi barna innritast í leikskóla sem einhverra hluta vegna hentar ekki þörfum þess og/eða fjölskyldunnar. Fjölmargir þættir hafa áhrif á það hvernig fjölskyldupúsluspilið verður næstu mánuði og jafnvel misserin.
Óbreytt staða felur í sér mismunun
Á höfuðborgarsvæðinu þekkist það víða að fjölskyldur þurfa að fara hverfa eða sveitarfélaga á milli til þess að koma börnum á leikskólaaldri á sinn leikskóla eða til dagforeldris. Þetta á því miður sérstaklega við um Reykjavíkurborg sem ber höfuð og herðar yfir nágrannasveitarfélögin í stærð og umfangi stjórnsýslu. Í upphafi þessarar aldar var sú venja viðhöfð þar við úthlutun plássa að yngri systkini gátu gert ráð fyrir því að fá inni á sama leikskóla og það eldra í krafti systkinaforgangsreglunnar. Hins vegar ríkti ekki full sátt á meðal foreldra um þessa reglu – eðli málsins samkvæmt getur sú regla leitt til þess að fólk sem á ekki eldra barn fyrir þarf að bíða lengur eftir sínu plássi. Af hálfu borgaryfirvalda var álit borgarlögmanns sem skilaði þeirri niðurstöðu árið 2008 að systkinaforgangurinn væri ólögmætur og gengi í berhögg við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Eini hlutlægi og eðlilegi mælikvarðinn við úthlutun væri aldur barns. Síðan þá hefur systkinaforgangurinn heyrt sögunni til í Reykjavík, þó svo önnur sveitarfélög hafi haft hann að leiðarljósi. Að fara gegn áliti borgarlögmanns að þessu leyti fæli í sér talsverða áhættu fyrir Reykjavíkurborg, kæmi til hugsanlegra málaferla.
Lögum þetta!
En það þýðir ekki að þessu sé ekki hægt að breyta. Um þetta gildir eins og svo margt annað að lagaheimild þarf til að taka af allan vafa um lögmæti systkina- og hverfisforgangs. Þess vegna hef ég lagt fram frumvarp að lögum sem myndi heimila sveitarfélögum sérstaklega að líta til þátta á borð við stöðu systkina og búsetu. Rétt er þó að geta þess að ekki hefur reynt á þetta síðarnefnda í framkvæmd. Það er líka rétt að leggja áherslu á að það væri alfarið undir sveitarfélögunum komið að beita slíkri heimild í framkvæmd.
Einföldum hversdagsamstrið
Verði þetta frumvarp að lögum, yrði það öruggt skref í þágu einfaldara lífs fyrir fjölskyldur sem eiga ung börn. Með þessu yrði áralangri lagaóvissu um lögmæti systkinaforgangsins eytt og biðlistar vegna milliflutninga barna myndu líklega styttast svo um munar. Foreldrum yrði jafnframt gert kleift að fara með systkini á sama stað, undir sama þaki stofnunar sem þjónustar fólk sem býr nær hvert öðru en nú er raunin. Það eru mikil verðmæti í hversdagsamstrinu.
Það er ekki víst hvort þessi breyting gæti leitt af sér fjölgun leikskólaplássa, og líklega ekki ein og sér. Mögulega þarf frumvarpið líka á frekari útfærslum að halda í samráði við ráðuneyti og hagsmunaaðila. Það er og verður hins vegar stóra verkefnið okkar stjórnvalda á næstu árum að gera íslenska leikskólakerfið aftur að því flaggskipi jafnréttis sem það eitt sinn var. Þar verða sveitarfélög og ríki að taka höndum saman um raunhæfar og uppbyggilegar lausnir sem þessar.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar
Athugasemdir