Árið 1961 sendi kólumbíski rithöfundurinn Gabriel Garcia Márquez frá sér skáldsöguna „Liðsforingjanum berst aldrei bréf“. Þar er sagt frá liðsforingja sem í 15 ár hafði beðið eftir bréfi frá stjórninni vegna eftirlauna sem honum hafði verið heitið. Bréfið og eftirlaunin létu á sér standa en alltaf lifði liðsforinginn í voninni um að úr myndi rætast.
Þótt slíkar frásagnir séu ekki til af samskiptum danskra borgara og póstþjónustunnar hefur sögum af lakri þjónustu danska póstsins fjölgað mjög á síðustu árum. Fréttir af erfiðleikum í rekstri póstsins hafa um árabil birst af og til í dönskum fjölmiðlum, snemma árs 2017 var greint frá því að tap póstsins árið 2016 hefði numið 1,5 milljörðum danskra króna, það jafngildir um það bil 30 milljörðum íslenskum.
Kristján IV stofnaði póstinn
Á aðfangadag árið 1624 gaf sá mikli athafnakóngur Kristján IV út tilskipun um póstþjónustu. Kóngurinn skipaði jafnframt póstmeistara sem skyldi tvo tíma daglega vera til staðar í verslunar- og viðskiptahúsinu Børsen sem þá var nýbyggt á Hallarhólmanum í Kaupmannahöfn. Þjónusta þessi mæltist vel fyrir og starfsemin jókst jafnt og þétt, pósthúsum fjölgaði jafnframt. Um aldamótin 1700 var ákveðið að rautt og gult, litir Aldinborgaranna, gömlu konungsfjölskyldunnar, yrðu einkennislitir póstsins. Rauði liturinn ætíð kallaður póstkassarauður.
Frímerki, póstnúmer og húsnúmer
Frímerki komu ekki til sögunnar í Danmörku fyrr en árið 1851, fyrirmyndin var England, þar var farið að nota frímerki árið 1840. Áður en frímerkin komu til sögunnar varð sendandi að borga póstmanninum eða á pósthúsinu. Hann gat líka valið að móttakandi bréfsins skyldi borga.
Til er skondin saga af danskri stúlku sem fékk bréf frá kærstanum, og hún átti að borga póstinum burðargjaldið. Stúlkan neitaði að borga, „viltu ekki fá bréfið frá kærastanum?“ spurði póstmaðurinn. Stúlkan benti honum þá á litla krúsidúllu á bakhlið umslagsins og sagði: „Krúsidúllan þýðir að það er allt gott að frétta, ég þarf ekki að opna umslagið.“ Kærustuparið lék þannig á póstinn, en rétt er að taka fram að mjög dýrt var að senda bréf á þessum tíma.
Árið 1859 var ákveðið að öll hús í Kaupmannahöfn og stærri bæjum í Danmörku skyldu fá sérstakt húsnúmer. Þá þurfti ekki lengur að skrifa einhvers konar lýsingu á húsi viðtakanda t.d. gula húsið með ómáluðu útihurðinni. Götuheitin eru eldri.
Árið 1967 voru póstnúmerin innleidd. Þetta var mikið framfaraskref í landi þar sem margir staðir hver í sínum landshluta bera sama nafnið, t.d. Nykøbing, en að minnsta kosti 4 bæir í Danmörku bera það nafn.

Einkaréttur afnuminn og miklar breytingar
Frá upphafi hafði pósturinn einkarétt á dreifingu bréfa og böggla. Þessu fylgdu skyldur, allir landsmenn gætu fengið póstinn heim til sín, sömuleiðis var kveðið á um hve oft pósti skyldi dreift. Þessi einkaréttur var afnuminn árið 1995, þá gátu aðrir boðið upp á póstþjónustu.
Bréfasendingar Dana náðu hámarki á árunum 1990–2000, árið 1999 sendu Danir 1500 milljónir bréfa en bréfapóstur var undirstaða rekstrarins. En Adam var ekki lengi í paradís ef svo mætti segja. Upp úr aldamótum dró mjög úr bréfasendingum, tölvupósturinn tók yfir. Hrunið í bréfapóstinum varð meira en nokkurn grunaði og tekjur póstsins hrundu sömuleiðis.
Danska Postnord bréfadeildin lögð niður
Danska póstþjónustan var ekki sú eina sem lenti í vandræðum. Árið 2009 gengu danska og sænska póstþjónustan, sem báðar voru í ríkiseigu, í eina sæng, Postnord. Þetta var gert til að styrkja reksturinn í breyttum póstheimi, Svíar eiga 60 prósent og Danir 40 prósent. Sameiningin dugði ekki til og það gerðu margháttaðar breytingar ekki heldur. Verð á sendingum, bæði bréfum og bögglum, hækkaði, póstdreifingum á laugardögum var hætt, starfsfólki var fækkað og pósthúsum lokað. Allt kom fyrir ekki, tapið jókst.
Rekstur sænska hluta fyrirtækisins gekk mun betur en þess danska þar sem sífellt hefur sigið á ógæfuhliðina. Til að gera langa sögu stutta boðaði yfirstjórn danska Postnord til fundar með starfsfólki 6. mars sl. Þar var tilkynnt að frá og með næstu áramótum yrði móttöku og dreifingu á bréfapósti í Danmörku hætt. Við þessa breytingu missa um 15 hundruð manns vinnuna.
Postnord heldur hins vegar áfram móttöku og dreifingu böggla og reyndar er það svo að áfram verður hægt að senda bréf en þá gegn bögglagjaldi sem er margfalt hærra en burðargjald fyrir bréf.
Hvað tekur við?
Lengi hefur verið vitað hvert stefndi með danska póstinn. Árið 2023 samþykkti danska þingið, Folketinget, að samingurinn við Postnord yrði ekki endurnýjaður þegar hann rynni út, sem gerist í sumar. Jafnframt samþykkti þingið að móttaka og dreifing pósts frá útlöndum yrði boðin út. Í slíku útboði er kveðið á um að fyrirtæki sem samið yrði við skuldbindi sig til að dreifa pósti um allt land.
Fyrirtækið DAO (Dansk Avis Omdeling) hefur starfað frá árinu 2005 og var upphaflega dreifingarfyrirtæki margra danskra dagblaða en hefur síðan fært út kvíarnar og dreifir bréfum og bögglum víða um land. Þegar þessar línur eru settar á blað er óljóst hvort önnur fyrirtæki reyni fyrir sér á „bréfamarkaðnum“ og spurningunni hvað gerist ef enginn býður í landsþjónustuna er ósvarað.
Rauðu póstkassarnir og frímerkin hverfa
Í Danmörku eru nú um það bil 1.500 póstkassar, þessir rauðu sem margir kannast við. Þeir hverfa nú hægt og rólega og um næstu áramót verður engan slíkan að finna í konungsríkinu og jafnframt hverfa frímerkin. Þeir sem ætla sér að senda bréf, og böggla, verða að gera sér ferð í póstafgreiðslur (postbutikker) Postnord og DAO og hugsanlega fleiri slíkar til að póstleggja sendingar. Þangað verður jafnframt hægt að sækja pakka og bréf.
Margir Danir velta fyrir sér hvernig þetta muni nú allt ganga en stjórnvöld í landinu hafa reynt að fullvissa landsmenn um að þeir muni hér eftir sem hingað til geta sent og móttekið bréf og böggla.
Athugasemdir