Einu sinni var maður. Maðurinn sá vél. Hún var reyndar ekki í laginu eins og vél heldur draumur. Vélin var risastór. Hún náði utan um allan heiminn. Samt var hún ókeypis. Maðurinn var forvitinn. Hann ákvað að skríða inn í vélina. Við honum blöstu draumkenndar vélmyndir og vélrænir draumar og inni í þeim voru litir og form og miskunnugleg andlit og allt orkaði þetta sterkt á manninn í vélinni. Allt var svo lifandi og svífandi og dreymandi og það voru engar martraðir inni í vélinni. Samt fór manninum í vélinni að líða undarlega. Þrátt fyrir endalausa víðáttuna fann hann fyrir innilokunarkennd. Þrátt fyrir að afl vélarinnar ykist með hverjum deginum var eins og allur kraftur væri úr manninum sjálfum, eins og hann hefði dreymt yfir sig. Þá spurði hann sig: Til hvers er þessi vél? Hún hafði jú í fyrstu verið svo heillandi í nýstárleika sínum, svo mikilfengleg í mikilfengleika sínum, en í hvert skipti sem vélin stækkaði og jók kraft sinn varð tilgangur hennar óljósari og óljósari þar til hann varð allt í einu algjörlega augljós: tilgangur vélarinnar var að framleiða vélrænu. Þetta þótti manninum í vélinni sorglegt því þótt hann ætti sífellt erfiðara með að rifja upp líf sitt fyrir utan vélina mundi hann samt eftir fíngerðum höndum sem struku hár hans, hann mundi eftir vindhviðu og hlátri þegar eitthvað fauk og himinninn alveg blár og það hafði ekki verið vélrænt heldur ljóðrænt og þá mundi hann það alveg skýrt: Það hafði einu sinni verið önnur manneskja, hún hafði snert hann í öðru lífi. Þá ákvað hann að fara út úr vélinni. Hann þyrfti bara að skríða út um sama gat og hann hafði smogið inn um. En það var nú undarlegt, sama hvað maðurinn í vélinni reyndi að snúa sér, reyndi að velta sér og bylta, þá sat hann alveg fastur inni í vélinni. Mikið var vélin fátækleg, hugsaði maðurinn í vélinni. Vélin var svo fátækleg að honum fannst hann geta grátið. En það gat hann ekki. Ekki lengur. Ekkert frekar en vélin.
Athugasemdir