Það er í fullkomnu lagi að ljúga um eigin getu og þekkingu á ferilskrá, allavega samkvæmt vini mínum sem ráðlagði mér að segjast vera sérfræðingur í öllu sem atvinnuveitendur óska eftir. „Það gera það allir og svo lærir maður þetta bara ef maður fær vinnuna.“ Ég velti fyrir mér hvort væri líklegra, að vinur minn væri siðblindur eða að ég væri fáviti að hafa ekki fattað þetta fyrr.
Við nánari íhugun rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði ósjaldan þóst kunna eitthvað á meðan ég googlaði það, ýkt um excel-kunnáttu og gefið sannleikanum svolítið svigrúm. Þegar ég var ráðin sem landvörður í Þjórsárdal sagðist ég til dæmis gjörþekkja svæðið, þegar raunin var að ég hafði kannski farið þangað þrisvar.
Vanþekking mín var fljót að segja til sín, en líkt og siðblindi vinur minn spáði var ég fljót að læra. Á fyrsta vinnudeginum mínum komst ég að því að um er að ræða mjög stórt svæði og einnig að fleiri friðuð svæði eru í nágrenninu. Þeirra á meðal er eyjan Viðey sem stendur í miðri Þjórsá. Á þessari litlu eyju stendur ósnortinn birkiskógur sem minnisvarði um gróðurfar fyrr á öldum þar sem straumþung áin hefur verndað eyna frá ágangi manna. Það stendur þó til að breyta því, að reisa stíflu fyrir ofan eyna, og svo gott sem þurrka upp ána í kringum hana. Það var annað sem ég komst að á fyrsta vinnudegi mínum, væntanleg áhrif Hvammsvirkjunar á náttúruna.
„Líkt og siðblindi vinur minn spáði var ég fljót að læra
Fram hjá Viðey ofar á Þjórsárdalsvegi má glöggt sjá skilti sem á stendur „áætluð lónshæð“. Skiltið er, líkt og gefur að skilja, í áætlaðri lónshæð. Ég man eftir að hafa litið upp á skiltið til vinstri og svo niður á ána til hægri, gapandi yfir að ekki aðeins yrði lónshæðin langt fyrir ofan veginn heldur yrði allri náttúrunni sem fyrir bar steypt í kaf.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra virðist æstur í að keyra virkjunina í gegn, þvert á vilja dómstóla, náttúruverndarsamtaka og lífríkis Þjórsár, sem fær mann til að velta fyrir sér; laug hann í starfsviðtalinu um að vera umhugað um náttúruvernd?
Athugasemdir