Neskaupstað, 21. ágúst 2024
Grannvaxinn og skeggjaður maður á fimmtugsaldri situr við lítið borð inni á bensínstöð Olís í Neskaupstað klukkan korter yfir sex að kvöldi miðvikudags 21. ágúst 2024. Hann er klæddur í jakka og innan undir honum er hann í dökku vesti. Á vinstra auga er hann með gamalt glóðarauga.
Maðurinn, sem hefur setið inni á bensínstöðinni í dágóða stund við kaffidrykkju, hugar að einhverju í hægri vasa sínum. Hann gengur að afgreiðsluborðinu, fer rólega um og virðist ekki vera að flýta sér.
Stuttu síðar stendur maðurinn, Alfreð Erling Þórðarson, fyrir utan bensínstöðina og reykir sígarettu. Hann röltir fram og til baka. Á eftirlitsmyndavél má sjá planið þar fyrir utan og það glittir í nokkur hús í bænum aðeins fjær.
Hann fleygir sígarettunni frá sér og gengur ákveðið í burtu frá bensínstöðinni. Klukkan er gengin tuttugu og tvær mínútur í sjö.
Alfreð Erling gengur í vesturátt eftir Strandgötunni, sem liggur meðfram sjónum. Hann gengur fram hjá húsi númer 30. Þar sér hann mág sinn sem er ásamt föður sínum að vinna við húsið og nikkar til hans. Hann gengur lengra vestur.
Neskaupstaður er ílangur bær og þessi hluti Strandgötunnar er um 800 metrum frá bensínstöð Olís. Klukkan 18:35 festir eftirlitsmyndavél, sem staðsett er við útidyr Strandgötu 34, Alfreð Erling á filmu þar sem hann gengur úr austri eftir stéttinni. Húsið er tvíbýli og á vestari hliðinni er heimili hjónanna Björgvins Ólafs Sveinssonar, 74 ára, og Rósu G. Benediktsdóttur, 73 ára.
Athugasemdir