Það var ekki alltaf stuð í Sovétríkjum Brésnevs, en þó var ýmislegt reynt, svo sem þegar Intervision, sönglagakeppni austantjaldslanda, var komið á. Pútín hefur ef til vill dillað sér með sem unglingur og hefur hann nú ákveðið að endurvekja keppnina, fyrst þjóð hans fær ekki lengur að vera með í Eurovision.
Það gekk þó á ýmsu í Intervision. Tékkóslóvakía var nokkurs konar menningarstórveldi innan austurblokkarinnar og var ákveðið að halda keppnina þar í landi þegar hún var stofnsett árið 1965. Tékkóslóvakar unnu og fyrstu keppnina með söngvaranum Karol Gott, „Gullbarkanum frá Prag“, sem lengi naut vinsælda, hefur síðar verið kosinn besti karlsöngvari Tékka 42 sinnum og hefur selt um 100 milljón plötur, ekki síst í hinum þýskumælandi heimi. Búlgarar lentu í vinningssætinu árið á eftir en Tékkar unnu aftur bæði 1967 og 1968. Babb kom í bátinn þegar Sovétríkin gerðu innrás í Tékkóslóvakíu til að kveða niður lýðræðistilburði Tékka, sem sögðust vilja „kommúnisma með mannlegt andlit“. Slíkar hugmyndir, sem og söngvakeppnin, lögðust í kjölfarið af.
Intervision var hins vegar endurreist árið 1977 í strandbænum Sopot í Póllandi. Aftur unnu Tékkar en árið eftir unnu Sovétríkin loksins, þótt þeir hafi reyndar deilt fyrsta sætinu með Tékkum. Pólverjar sjálfir unnu árið 1979 þegar Niemen hreppti fyrsta sætið þrátt fyrir að vera í ónáðinni hjá stjórnvöldum fyrir að spila tónlist í sækadelískum anda. Árið 1980 voru svo heilir þrír sigurvegarar, Tékkóslóvakía eina ferðina enn, Sovétríkin og svo Finnar. Þetta hefur verið kærkomin tilbreyting hjá Finnum, sem einnig hafa tekið þátt í Eurovision síðan 1961 og lent í allt ellefu sinnum í síðasta sæti, en unnu loks langþráðan sigur árið 2006 með hljómsveitinni Lordi.
NATO-þjóðirnar Belgía, Holland og Portúgal tóku stundum þátt bæði í Eurovision og Intervision. Það gerðu einnig Júgóslavía, Sviss og Spánn, en síðarnefnda ríkið var þá enn ekki gengið í NATO. Meðal þjóða utan Evrópu sem tóku þátt má nefna, Kúbu, Kanada og Marokkó, en aðeins þeir fyrstnefndu voru hallir undir Sovétríkin í kalda stríðinu.
Einvígi á sviðinu
Intervision hefði ef til vill getað haldið áfram að vaxa, nema hvað að árið 1981 voru herlög sett á í Póllandi sökum mannréttindabrölts verkalýðshreyfingarinnar Samstöðu. Söngvakeppnin lagðist aftur af og var ekki endurvakin fyrr en 2008. Þá voru sum upprunalegra þátttökuríkja, svo sem Sovétríkin, Júgóslavía, Austur-Þýskaland og Tékkóslóvakía, ekki lengur til. Í staðinn höfðu ýmis bæst við, var keppnin opin öllum ríkjum fyrrverandi Sovétríkjanna og fór Tadsíkistan með sigur af hólmi. Hvorki Kína, Indland né Pakistan tóku þátt þrátt fyrir að vera boðið og keppnin lognaðist aftur út af.
Og nú á sum sé að endurvekja hana á ný. Ástæðan er augljós, Rússlandi hefur verið meinað að taka þátt í Eurovision síðan allsherjarinnrás þeirra í Úkraínu hófst árið 2022. Rússar höfðu átt góðu gengi að fagna í söngvakeppninni fyrsta áratug aldarinnar. Þeir voru iðulega í þrem efstu sætunum, meðal annars með hljómsveitinni TaTu, og unnu árið 2008 með Dima Bilan og laginu „Believe“. Mikið var um dýrðir þegar hátíðin var haldin í Moskvu árið eftir og er það dýrasta keppni sem hefur verið haldin hingað til.
Pútin hefur gaman af að bjóða heim, líkt og sjá mátti þegar hann hélt HM í fótbolta árið 2018. Fjórum árum fyrr hafði hann haldið vetrarólympíuleika í Sotsjí, en varla var búið að slíta hátíðarhöldum þegar hann fyrirskipaði innrás á Krímskaga í Úkraínu. Árið 2016 var svo nokkurs konar einvígi háð á milli úkraínska þátttakandans Jamölu sem flutti lagið „1944“ um brottflutning Krímtatara í nauðungarflutningum Stalíns samnefnt ár, og hins rússneska. Rússar tefldu fram poppstjörnunni Sergei Lazarev og var mikið lagt í sjóið, en allt kom fyrir ekki, Úkraínumenn unnu en Rússar lentu í þriðja sæti. Úkraínumenn unnu svo aftur árið 2022, en þá hafði Rússum verið meinað að taka þátt.
Allt annar andi en í Eurovision
Um tuttugu þjóðir hafa boðað þátttöku í væntanlegri Intervision-keppni, þar á meðal Kína, Indland, Brasilía og Kúba. Sumir efast um að það takist að gera mikið úr söngvakeppni sem haldin er án þátttöku Vesturlanda og má nefna að þegar Sovétríkin héldu Ólympíuleika árið 1980 sátu Vesturlönd heima sökum innrásar ríkisins í Afganistan. Aftur eru innrásir Rússa að bitna á veisluhaldi þeirra en ýmsar hugmyndir eru á borðinu. Áform um að halda eigin íþróttahátíð voru blásnar af í fyrra en leikstjórinn Nikita Mikhalkov hefur hvatt til þess að stofnuð verði evrasísk Óskarsverðlaun.
Ef til vill eru þessar nýju hátíðir til marks um breytta heimsmynd. Í það minnsta má vera nokkuð ljóst að Intervision verður með nokkru öðru sniði en Eurovision. Síðarnefnda hátíðin hefur löngum verið þekkt fyrir frjálslyndi sitt og fór það fyrir brjóstið á mörgum Rússum þegar austurríska dragdrottningin Conchita Wurst vann árið 2014. Í staðinn verður hér lögð áhersla á „hefðbundin, algild, andleg og fjölskyldugildi“. Lög sem að „niðurlægja heiður og virðingu samfélagsins“ verða bönnuð, hverja merkingu sem svo sem má leggja í það.
Endurvakning Intervision er enn annað dæmið um að kalda stríðið sé endurvakið. Í þetta sinn er það ekki skipulag hagkerfis sem er miðlægt í hugmyndafræðinni, kapítalisminn hefur jú fyrir löngu unnið báðum megin. Í staðinn er kynferði fólks í deiglunni, enda hefur því lengi verið haldið fram í Rússlandi að Evrópusambandið þvingi fólk til samkynhneigðar. Því beri að efla íhaldssöm gildi, og þeir eru til á Vesturlöndum sem eru sammála. Hver sigrar í þessu nýja kalda stríði ætti að skipta talsvert meira máli en hver vinnur í næsta Intervision.
óþarfi að gera sér rellu útaf þessum litla stríðsrekstri kappans,
enda erum erum við meir en tilbúnir að syngja og tralla með þjóðarmorðingjunum í Ísrael.