Framkvæmdir við bústað forseta Íslands á Bessastöðum fóru 40 prósent fram úr fjárheimildum. Í heildina kostuðu framkvæmdirnar rúmar 120 milljónir króna en samþykkt hafði verið að verja 86 milljónum í verkið. Framkvæmdirnar snéru bæði að hefðbundnu viðhaldi, svo sem endurnýjun lagna, en líka aðlögun húsnæðisins að breyttu fjölskyldumynstri forseta þegar Halla Tómasdóttir tók við embætti af Guðna Th. Jóhannessyni á síðasta ári.
Hækkaði um 34,5 milljónir
Heimildin óskaði eftir upplýsingum um kostnað framkvæmdanna. Í svari frá forsætisráðuneytinu, sem borgar brúsann, kemur fram að tæpar 65 milljónir hafi farið í viðhald, svo sem á gólfi, vegna múrviðgerða, lagnahreinsunar- og viðgerða, málningarvinnu á veggjum, lofti og gluggum. Í yfirlitinu kemur líka fram kostnaður vegna endurnýjunar á tækjum og innréttingum var upp á tæpar 53 milljónir króna.
Stærsti einstaki kostnaðarliðurinn er merktur „innréttingar og uppsetning á þeim“ upp á samtals 45,5 milljónir króna. Þá kostnaði nýr ísskápur og frystir 782 þúsund krónur, gaseldavél með ofni 525 þúsund krónur og uppþvottavél kostaði 350 þúsund krónur.
Sjálfir flutningur búslóðar Höllu og fjölskyldu kostuðu 5,2 milljónir, samkvæmt yfirlitinu.
Öryggissjónarmið leiddu til hækkunar
Í svari ráðuneytisins segir að aukinn kostnaður skýrist meðal annars af því að viðgerðir og endurnýjun lagna hafi verið erfiðari og kostnaðarsamari en gert hafði verið ráð fyrir. Verktími hafi einnig verið skammur, meðal annars vegna öryggissjónarmiða Ríkislögreglustjóra um búsetu forseta. Það hafi haft áhrif til hækkunar.
„Við upphaf framkvæmda kom svo í ljós að neysluvatnslagnir voru mjög illa farnar og þurfti að ráðast í viðgerðir, hreinsun og útskiptingu lagna,“ segir í skriflegu svari forsætisráðuneytisins til Heimildarinnar.
„Þá var húsnæðið aðlagað vegna breyttra fjölskylduaðstæðna og ráðist í nauðsynlegar viðgerðir og viðhald innanhúss. Innréttingar voru komnar á tíma og var ákveðið að ráðast í allsherjar endurnýjun á þeim samhliða framkvæmdum, en eldhúsinnrétting var endurnýjuð ásamt innréttingum á salernum og baðherbergjum og fataskápar settir upp.“
Athugasemdir (1)