Í liðinni viku kynnti hljóðbókarisinn Storytel til sögunnar fyrsta gervigreindarhöfund fyrirtækisins: Rosy Lett. „Þvílíkar gleðifréttir,“ sagði Helena Gustafsson, „Content Officer“ hjá Storytel. Fyrirtækið hefur drottnað yfir íslenskum hljóðbókamarkaði í krafti hlaðborðsviðskiptamódels sem grundvallast á smánarlega lágum greiðslum til höfunda: krónur og tíkallar fyrir hverja hlustun. Í nóvember skoraði Rithöfundasambandið á félagsmenn að setja bækur sínar ekki inn á Storytel fyrr en hagstæðari samningar nást.
Þeir munu auðvitað aldrei nást. Höfundar hafa þó að mestu staðið saman því inn á streymisveituna hafa afar fáar skáldsögur ratað undanfarna tvo mánuði, þær nýjustu eru flestar erlendar þýðingar á bókum sem eru „framleiddar“ af Storytel. Nokkrum vikum eftir tilkynningu Rithöfundasambandsins birtist þó ansi forvitnileg skáldsaga á veitunni: „Heimur tölvuþrjótsins Shadow Weaver“ eftir Leon Winter. Bókin fjallar um vörubílstjórann Leon sem „þróar með sér ástríðu fyrir reiðhesti, fyrst af forvitni, síðar af þörf fyrir að efast um kerfið“. Bókin er lesin upp af Gunnari Guðmundssyni (gervigreind), þýdd af gervigreind og eflaust líka skrifuð af gervigreind.
Á heimasíðu Storytel kemur fram að markmið fyrirtækisins sé að „gera heiminn að umhyggjusömum og skapandi stað“ og nú er fyrirtækið einu skrefi nær því að losa þann umhyggjusama stað undan þungum bagga mennskra rithöfunda.
„Bókin er lesin upp af Gunnari Guðmundssyni (gervigreind), þýdd af gervigreind og eflaust líka skrifuð af gervigreind
Það er morgunljóst að heimurinn hefur fengið heilablóðfall. Óheyrilega leiðinlegt, hugmyndasnautt og smekklaust fólk veður uppi með óteljandi peninga, þungvopnað hugbúnaði sem stökkbreytist á meðan við hin förum út með ruslið, finnum til í bakinu, sjáum eftir einhverju sem við sögðum í síðasta jólaboði, dáumst að því hvernig fótspor okkar í snjónum mynda eins konar bros og einhverjum okkar gæti í okkar brothættu mennsku orðið á að setja upp heyrnartólin og hlusta óvart á nýjustu gerviskáldsöguna á Storytel, og þá hugsum um það sem Hegel hugsaði svo eftirminnilega í Englum alheimsins: „Vesalings raunveruleikinn, mikið hlýtur hann að eiga bágt.“
Athugasemdir (1)