Ég man skýrt eftir augnablikinu þegar hugmynd mín um hið alvitra fullorðna fólk sem gerði allt rétt féll eins og spilaborg. Ég var líklega 11-12 ára og hafði spurt foreldra mína hvað það þýddi að „urða rusl“. Útskýringin fannst mér svo furðuleg að í fyrsta skipti upplifði ég þá tilfinningu að vantreysta fullorðnu fólki. Grafa rusl ofan í jörðina? Það gat ekki verið nokkurs konar lausn? Svolítið eins og að pissa í skóinn sinn.
Valdefling eða valdaleysi
Lítið hafði farið fyrir menntun til sjálfbærni eða annarri umhverfismennt á skólagöngu minni en undanfarið hef ég velt því fyrir mér hver atburðarásin hefði verið ef skólinn minn hefði tekið þátt í hinu alþjóðlega Grænfánaverkefni? Jú, ég hefði átt kost á að sitja í umhverfisnefnd í skólanum þar sem nemendur og kennarar sitja saman. Þar hefðum við getað stuðlað að því að valið væri þema sem tengdist urðun og öðrum úrgangsmálum. Við hefðum átt kost á fræðslu eða samtali frá Grænfánateyminu og í framhaldi hefðum við metið stöðuna í skólanum, gert aðgerðaáætlun og fylgt skrefum verkefnisins í átt að því að hljóta þá viðurkenningu sem felst í að flagga Grænfánanum.
Munurinn á því hvort börn og ungmenni alast upp við að finna fyrir valdeflingu eða valdaleysi er gífurlegur og í honum felast tækifæri
Munurinn á þessum atburðarásum er mikill. Annars vegar fæ ég tól í hendurnar og finn valdeflinguna sem felst í því að læra um vandamál, taka þátt í að gera eitthvað í því og fá tilfinningu um að hafa áorkað einhverju. Í hinni atburðarásinni er ég orðlaus yfir útskýringum foreldra minna. Við tekur daglegt líf og ekkert er breytt nema að ímynd mín af hinu alvitra fullorðna fólki hefur aðeins látið á sjá.
Munurinn á því hvort börn og ungmenni alast upp við að finna fyrir valdeflingu eða valdaleysi er gífurlegur og í honum felast tækifæri. Ekki einungis fyrir börnin sjálf sem einstaklinga heldur líka fyrir samfélagið allt.
Skortur á grænni færni og þekkingu
Í nýrri skýrslu Alþjóðabankans kemur fram að alvarlegur skortur er á þeirri ‘grænu færni’ sem þarf til að takast á við loftslagsbreytingar. Menntastofnanir spila stórt hlutverk í að efla þá færni og þá er mikilvægt að tvinna efni tengdu umhverfismálum í sem flest fög í skólum. Þetta er grundvallaratriði í Grænfánaverkefninu sem er byggt á aðferðafræðinni menntun til sjálfbærni. Þar er þekking og hæfni nemenda styrkt þverfaglega í átt að sjálfbærri þróun. Sem dæmi þá gæti lestrarkennsla innihaldið texta um lífbreytileika og stærðfræðidæmi tölur sem tengjast loftslagsbreytingum.
Einhverjir skólar hérlendis eru vakandi og nýta nú þegar þessa þverfaglegu nálgun en samkvæmt skýrslunni telja margir kennarar sig ekki hafa nægilega þekkingu til þess að kenna um umhverfismál. Grænfáninn getur tekið þátt í að efla þá þekkingu en stór hluti verkefnisins snýst um að þróa fjölbreytt námsefni fyrir kennara og annað starfsfólk. Mikið magn efnis er í opnum aðgangi á heimasíðu verkefnisins og einnig er þar að finna ítarlega handbók um menntun til sjálfbærni.
Áhrif umhverfismenntar á þróun loftslagsbreytinga
Þátttaka í Grænfánaverkefninu getur haft bein áhrif á vistspor fólks eins og rannsóknir sýna. Sameinuðu þjóðirnar hafa útnefnt það sem besta tólið til innleiðingar á menntun til sjálfbærni og það skiptir sköpum þegar kemur að meðvitund um loftslags- og umhverfismál. Áhersla er á valdeflingu og getu nemenda til aðgerða í uppbyggingu verkefnisins. Líkur aukast á að nemendur beri virðingu fyrir náttúrunni, taki upp umhverfisvæna hegðun og viðhaldi henni í framtíðinni.
Gáruáhrif geta skapast því börn sem fá umhverfismenntun verða oft talsmenn umhverfisvæns lífstíls inni á heimilum sínum
Slík menntun er vannýtt loftslagsaðgerð á heimsvísu en árið 2021 fóru um 1,5% fjármagns í loftslagsaðgerðum til fræðslu í umhverfismálum. Áðurnefnd skýrsla Alþjóðabankans segir umhverfismennt barna og ungmenna munu hafa mikil áhrif á þróun loftslagsbreytinga en hvert ár af menntun eykur meðvitund um loftslagsmál um tæp 9%.
Gáruáhrif geta skapast því börn sem fá umhverfismenntun verða oft talsmenn umhverfisvæns lífstíls inni á heimilum sínum. Menntunin eykur því ekki einungis meðvitund nemendanna heldur einnig foreldranna sem eru mun opnari fyrir slíkum skilaboðum ef þau koma frá börnum þeirra.
Af þessu leiðir að við eigum kost á upplýstara samfélagi sem tekur virkari þátt í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Það getur haft jákvæð áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda, magn úrgangs, hnignun lífbreytileika og svo framvegis. Upplýstara samfélag er svo líklegra til að hafa áhuga á grænum lausnum og í framhaldi að öðlast þá færni sem þarf í þær kerfisbreytingar sem nauðsynlegar eru á komandi árum.
Sú valdefling barna og ungmenna sem felst í þátttöku í Grænfánaverkefninu er eitt af þeim fjölmörgu tólum sem við þurfum að grípa til í baráttunni við loftslagsbreytingar. Grænfánaskólar eru um 40% af skólum á Íslandi og um 30% skóla á Höfuðborgarsvæðinu. Hér er á ferðinni loftslagsaðgerð sem við getum nýtt miklu betur og hefur mikinn ávinning til framtíðar.
Við vitum vel að það stendur ekki í unga fólkinu að sýna eldmóð í umhverfismálum en nú er það stjórnvalda að taka af skarið. Nú þarf fullorðna fólkið að hætta að pissa í skóinn sinn.
Heimildir og tenglar:
Sabarwal, S., Venegas Marin, S., Spivack, M. H., & Ambasz, D. (2024). Choosing Our Future-Education for Climate Action. https://openknowledge.worldbank.org/server/api/core/bitstreams/9d1c318a-bcd3-49fa-b1c6-cc03e18d4670/content
McKeown, R., & Hopkins, C. (2016). „Contributions of Education for Sustainable Development (ESD) to Quality Education: A Synthesis of Research“ https://journals.sagepub.com/doi/full/10.1177/0973408216661442
López-Real, J. (2017). „The Eco-School Programme and its Impact on Children's Environmental Awareness and Behavior.“ Environmental Education Research, 2017.
Georgiou, E., & Koutouzi, S. (2020). „The Role of Eco-Schools in Promoting Climate Change Awareness and Pro-environmental Behavior among Schoolchildren.“ Environmental Education Review, 2020.
Boeve-de Pauw, J., & Van Petegem, P. (2017). „Eco-school evaluation beyond labels: the impact of environmental policy, didactics and nature at school on student outcomes.“ Environmental Education Research, 24(9), https://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/13504622.2017.1307327
Chawla, L. (2015). „Benefits of Environmental Education for Children.“ Journal of Environmental Education.
Zhu, J., et al. (2021). „Pro-environmental Behaviors in Children: The Role of Environmental Education.“ Environmental Education Research.
Athugasemdir