Shou Chew, forstjóra TikTok, hefur verið boðið að vera viðstaddur embættistöku Donalds Trump sem Bandaríkjaforseta og sitja á meðal fyrrverandi forseta landsins. Þetta markar óvænta stefnubreytingu Trumps gagnvart TikTok, sem hann reyndi að banna árið 2020.
Eftir að hann var kjörinn forseti í lok síðasta árs sagðist hann á blaðamannafundi vera orðinn hrifinn af TikTok, og að hann telji samfélagsmiðilinn eiga þátt í því hversu vel hann náði til yngstu kjósendanna í kosningabaráttunni.
Bandaríkjaþing samþykkti lög á síðasta ári sem kröfðust þess að kínverska móðurfélagið ByteDance selji TikTok til fyrirtækis utan Kína fyrir 19. janúar, annars verði appið bannað í Bandaríkjunum. Þetta leiddi til þess að TikTok varð óvirkt fyrir bandaríska notendur tímabundið. Trump hefur lofað að bjarga forritinu í Bandaríkjunum eftir að hann tekur við embætti, sem er á morgun þann 20. janúar. Hann hefur íhugað að veita 90 daga frest til að semja um sölu eða aðra lausn sem myndi leyfa TikTok að starfa áfram í Bandaríkjunum.
Trump hefur einnig lýst því yfir að hann telji mikilvægt að TikTok haldi áfram að starfa í Bandaríkjunum til að tryggja samkeppni við aðra samfélagsmiðla. Hann hefur sérstaklega nefnt að án TikTok myndi Facebook njóta of mikilla yfirburða. Þrátt fyrir þessa afstöðu hefur Trump áður lýst yfir áhyggjum af öryggisógnum tengdum TikTok, en virðist nú frekar hlynntur því að finna lausn sem leyfir áframhaldandi starfsemi forritsins í Bandaríkjunum
Hann hefur sagst ætla að gefa út forsetaúrskurð, þegar hann hefur tekið við embætti, um að fresta banninu og veita ByteDance tíma til að finna kaupanda sem er Bandaríkjunum hliðhollur. Þá hefur hann einnig lagt til að bandaríska ríkið færi með helmings eignarhlut í fyrirtækinu til að halda því gangandi.
Eftir að TikTok lokaði í Bandaríkjunum í dag, og var óaðgengilegt Bandaríkjamönnum í gegn um Apple Store og Google Play í um tólf klukkutíma, er það komið þar upp aftur. Í tilkynningu sagði TikTok að það væri komið aftur þökk sé viðleitni Trump til að bjarga því.
Trump skrifaði á Truth Social, samfélagsmiðil sinn, að samningur um að bjarga TikTok með því að koma því í „góðar hendur” geti tryggt að það starfi áfram í Bandaríkjunum. Þá skrifaði hann einnig að án samþykkis Bandaríkjanna gæti fyrirtækið þurft að hætta rekstri, en með samþykki Bandaríkjanna gæti virði þess aukist gríðarlega. Trump undirstrikaði þetta með orðunum: „SAVE TIKTOK“ eða Björgum TikTok.
Í aðdraganda TikTok-bannsins var hins vegar gríðarlegur fjöldi Bandaríkjamanna sem færði sig yfir á annan kínverskan samfélagsmiðil, Xiaohongshu. Nafnið merkir Lítil rauð bók, en á ensku er forritið gjarnan kallað einfaldlega RedNote.
RedNote var stofnað 2013 og er með yfir 300 milljón notendur, en því var á tímabili lýst sem svari Kína við Instagram. Það hefur hins vegar notið afar takmarkaðra vinsælda utan Kína, þar til nú.
Athugasemdir