Á mánudag fer innsetningarathöfn Donalds Trump fram í Washington DC. Kór bandaríska heraflans mun syngja undir með kántrísöngkonunni Carrie Underwood sem flytur America the Beautiful áður en forseti hæstaréttar setur Trump í embætti. Síðan fara trúarleiðtogar með bænir, þjóðsöngurinn verður fluttur og þar með er athöfninni lokið. Nýr veruleiki tekur við. Valdamesti maður heims verður táknmynd andstöðu við málfrelsi, réttarríkið og lýðræðið.
Óvinir fólksins
Fjölmiðlar eru óvinir fólksins, sagði hann í fyrri forsetatíð sinni og gróf markvisst undan trausti til fjölmiðla og trúverðugleika fréttamanna. Í fyrri forsetatíð sinni gerði hann lítið úr fréttamönnum sem spurðu gagnrýninna spurninga, uppnefndi þá, sakaði þá um óheiðarleika og slæleg vinnubrögð, neitaði að svara spurningum þeirra, svipti þá aðgengi að fjölmiðlafundum Hvíta hússins eða rak þá þaðan út. Heilu fjölmiðlana stimplaði hann sem falsfréttamiðla. Á árunum 2017 til 2021 notaði hann hugtakið falsfréttir yfir 2.000 sinnum.
Markmiðið var að skapa óreiðu, þannig að óvíst yrði hverju væri hægt að treysta og hverju ekki. Aðferðin virkar. Frá því að Donald Trump var settur forseti árið 2016 hefur traust Repúblikana til fjölmiðla minnkað jafnt og þétt. Árið 2024 báru aðeins 40% Repúblikana traust til upplýsinga sem komu frá fréttastofum. Sama hlutfall treysti upplýsingum á samfélagsmiðlum betur, þrátt fyrir vitneskju um dreifingu rangra upplýsinga á slíkum miðlum.
Skortur á trausti á fjölmiðlum, vaxandi óöryggi blaðamanna og andúð stjórnmálamanna gerðu það að verkum að Bandaríkin féllu niður í 55. sæti á lista World Press Freedom Index í aðdraganda kosninga árið 2024.
Beindi stuðningsfólki gegn fjölmiðlum
Sami tónn var sleginn í kosningabaráttunni í vetur. Á tveggja mánaða tímabili talaði Donald Trump að minnsta kosti 108 sinnum með meiðandi hætti um fjölmiðla og fjölmiðlafólk. Talningin tók ekki til tjáningar hans á samfélagsmiðlum.
Strax í september var Trump farinn að egna fólki gegn fjölmiðlum. Á kosningafundi í Uniondale, New York, talaði hann um „fake news“, benti á fjölmiðlafólkið sem þar var statt og stuðningsmenn hans bauluðu. Upp frá því urðu slíkar uppákomur nánast fastur liður á kosningafundum hans. Varaforsetaefnið JD Vance bauð upp á svipaða aðferð, þar sem salurinn baulaði á fréttamenn sem spurðu spurninga.
Viljandi var kynt undir andrúmslofti sem er fjandsamlegt óháðum fréttaflutningi. Enda greindu fréttamenn frá vaxandi ógn á kosningafundum Trumps. Óttast er að ofbeldisfull orðræða auki hættu á ofbeldisfullum athöfnum. Árið 2020 voru 600 árásir á fréttamenn í Bandaríkjunum.
Ítrekað lýsti Donald Trump því yfir að ef hann næði kjöri myndi hann hefna fyrir umfjöllun sem reitir hann til reiði. Hét hann því að henda blaðamönnum í fangelsi. Á opnum fundi í Texas gantaðist hann með það að möguleikinn á nauðgun þar inni myndi slaka á vörnum fréttamanna gagnvart heimildarmönnum sínum.
Þá hótaði hann ítrekað að svipta sjónvarpsveitur útsendingarleyfi og koma óháðum eftirlitsstofnunum undir forsetavald.
Yfirlýsingar ýta undir vaxandi áhyggjur af andlýðræðislegum tilburðum Trumps.
Fagnaði sigri með málsókn
Málsóknir á hendur fjölmiðlum eru annað vopn í höndum hans. Mál eru keyrð áfram, jafnvel þótt ólíklegt sé að dómur falli honum í vil. Markmiðið er að skaða fyrirtækin fjárhagslega og fæla þau frá frekari umfjöllun. Þótt fjölmiðlafyrirtæki fari með sigur af hólmi getur reynt á að standa í krefjandi málaferlum, sem kosta mikla fjármuni og taka toll af öllum þeim sem þar eru undir.
Í júlí 2023 vísaði dómari frá meiðyrðamáli sem Trump höfðaði gegn CNN vegna umfjöllunar um „stóru lygina“, rangar fullyrðingar hans um að hann hafi unnið kosningarnar árið 2020. Í janúar 2024 var honum gert að greiða lögfræðikostnað vegna máls sem hann höfðaði á hendur New York Times vegna umfjöllunar um skattamál hans. Umfjöllunin vann til Pulitzer-verðlauna og hann sótti á nefndina. NBC átti að rannsaka fyrir landráð vegna umfjöllunar um sakamál á hendur honum. Í október stefndi hann CBS vegna viðtals við Kamölu Harris sem birtist í fréttaskýringaþættinum 60 Minutes, með ásökunum um að viðtalið væri til þess fallið að blekkja áhorfendur og hjálpa henni. Ítrekað hefur hann látið hafa eftir sér að svipta ætti CBS útsendingarleyfi vegna viðtalsins.
Í desember tókst honum að knýja fram 15 milljóna dollara sátt við ABC News vegna meiðyrðamáls. Í krafti þess var hann tvíefldur, þegar hann beindi sjónum sínum að dagblaðinu Des-Moines Register. Niðurstöður skoðanakönnunar bentu til þess að hann myndi tapa ríkinu með þriggja stiga mun. Það reyndist rangt. Hann vann með 13 stigum og fagnaði með málsókn.
Talsmaður Trumps boðaði áframhald á sömu stefnu. Trump myndi halda ábyrgð að fjölmiðlafólki, sem flytur „rangar og óheiðarlegar fréttir“, „sem þjóna engum almannahagsmunum og leitast aðeins við að hafa afskipti af kosningum“.
Fram undan eru málaferli gegn blaðamönnum sem voru á vettvangi fjöldamótmæla þegar Trump var settur í embætti árið 2017, níu voru handteknir og nokkrir ákærðir fyrir óeirðir. Árið 2020 voru 145 blaðamenn handteknir á vettvangi mótmæla í Bandaríkjunum. Langflestir voru handteknir þegar þeir voru að fjalla um mótmælin vegna lögreglumorðsins á George Floyd. Á einni viku voru fleiri blaðamenn handteknir í Bandaríkjunum en síðustu þrjú árin samanlagt.
Sérfræðingar vara við hættunni sem felst í því að kæfa gagnrýnisraddir.
Nýr veruleiki
Fram undan er nýtt kjörtímabil. Varað er við því að aðgangur frjálsra fjölmiðla að Vesturálmunni verði takmarkaður – jafnvel lokaður. Trump hafi fyrirætlanir um að snúa dómsmálaráðuneytinu og eftirlitsaðilum, sem getur haft í för með sér rannsóknir á lekum til fjölmiðla, ákæru á hendur blaðamönnum fyrir njósnir, málaferli vegna samkeppnislaga og pólitískar veitingar útvarpsleyfa. Mögulegt er að hann leiti leiða til þess að styrkja meiðyrðalöggjöfina og gera andóf refsivert.
Trump er sá sem hefur valdið og beitir því. Hann er sá sem segir söguna – með sínum orðum, á sínum vettvangi, gagnrýnislaust. Á samfélagsmiðlum hefur hann allt vald yfir skilaboðunum sem hann sendir frá sér og þarf ekki að undirgangast ritstjórnarreglur hefðbundinna fjölmiðla sem hafa það hlutverk að veita almenningi áreiðanlegar upplýsingar. Þegar hann talar við fjölmiðla velur hann þá sem hann telur hliðholla sér og hikar ekki við að afvegaleiða umræðuna með því að snúa út úr staðreyndum, veita rangar eða villandi upplýsingar, jafnvel ljúga.
„Bandaríkjamenn grafast undan flóði rangfærslna og villandi upplýsinga sem auðvelda misnotkun valds. Frjáls fjölmiðlun er að hverfa. Ritstjórar hverfa. Samfélagsmiðlar gefast upp á staðreyndaskoðun. Sannleikurinn er kæfður af lygum sem sagðar eru í þágu valds og gróða,“ sagði í kveðjuræðu Joe Biden.
Fráfarandi forseti varaði við hættunni á samþjöppun valds í höndum auðugra einstaklinga og hættulegum afleiðingum þess ef misnotkun á valdi þeirra verður ekki stöðvuð. „Í dag er auðræði að myndast í Bandaríkjunum, byggt á gríðarlegum auði, valdi og áhrifum, sem bókstaflega ógnar öllu lýðræði okkar, grundvallarréttindum, frelsi og jöfnum tækifærum.“
Ógnin leynist víða
Hættan var undirstrikuð á síðustu dögum Trumps í embætti forseta, þegar hann og stuðningsmenn hans hófu áróðursherferð þar sem því var ranglega haldið fram að kosningasvindl hefði átt sér stað og hann sviptur öðru kjörtímabili í embætti með ólögmætum hætti. Í áróðursstríðinu hafði það enga þýðingu að opinberir aðilar gætu hvergi fundið þessum ásökunum stað.
Sama dag og til stóð að þingið staðfesti úrslit kosninganna bauð Trump stuðningsmenn sína velkomna til Washington og ávarpaði þá með frösum á borð við að það gæti ekkert stöðvað þá, með veiklyndi myndu þeir aldrei endurheimta stjórn á landinu og ítrekaði enn á ný að fjölmiðlar væru óvinir fólksins. Í kjölfarið yfirtóku mótmælendur þingið með alvarlegum afleiðingum.
Fyrri valdatíð Trumps varpaði ljósi á ógnina sem lýðræði stafar af upplýsingaóreiðu. Ógnin er ekki aðeins bundin við þennan stað, þennan tíma. Ógnin er viðvarandi og hún leynist víða. Leiðtogar víða um heim nota nú sömu aðferðir og Trump, að stimpla fjölmiðla sem falsfréttamiðla í tilraun til að koma höggi á þá.
Með tilkomu nýrra miðla hefur aldrei verið jafnauðvelt að dreifa villandi upplýsingum í þágu sérhagsmunaaðila. Hér á landi var auglýsingum hulduaðila dreift á samfélagsmiðlum í aðdraganda alþingiskosninga árin 2016 og 2017 þar sem spjótum var beint að ákveðnum stjórnmálaflokkum og fjölmiðlum.
Fjölmiðlafrelsi telst bágborið í tveimur þriðju ríkja heims og samtökin Blaðamenn án landamæra lýsa þungum áhyggjum yfir þverrandi stuðningi við fjölmiðla og minnkandi virðingu fyrir sjálfstæði þeirra.
Vaxandi áhrif valdamikilla afla, pólitísk ítök og þverrandi geta fjölmiðla til að ástunda vandaða blaðamennsku með það að marki að upplýsa almenning varð til þess að samtökin Blaðamenn án landamæra, sem mæla fjölmiðlafrelsi í heiminum, vara við að rétti almennings til upplýsinga sé ógnað og árétta að í því felist brot á rétti til skoðanafrelsis.
Aðgengi að viðeigandi og áreiðanlegum upplýsingum hefur aldrei verið mikilvægara.
Veruleiki íslenskra fjölmiðla
Á sama tíma er rekstrarlíkan fjölmiðla í uppnámi og dreifileiðir upplýsinga hafa færst til samfélagsmiðla með þeim afleiðingum að varað er við áhrifum á lýðræðið.
Á Íslandi varar Samkeppniseftirlitið við því að hagsmunaaðilar fjármagni hallarekstur fjölmiðla í þeim tilgangi að ná fram sérhagsmunum sínum. Áður hafði Rannsóknarskýrsla Alþingis fjallað um vanda íslenskra fjölmiðla í aðdraganda efnahagshrunsins, með þeim orðum að þeir hafi ekki staðið undir lýðræðislegu hlutverki sínu í samfélaginu, sem felst í því að veita almenningi upplýsingar, vera vettvangur þjóðfélagsumræðu og veita þeim aðhald sem vinna gegn almannahag. Ástæðuna megi meðal annars rekja til þess að flestir fjölmiðlar hafi verið í eigu sömu aðila og áttu helstu fjármálafyrirtækin. Lítill markaður og takmörkuð atvinnutækifæri hafi ýtt undir sjálfsritskoðun starfsmanna á ritstjórnum, sem skorti sjálfstæði, árvekni og gagnrýna umfjöllun. Viðskiptafréttamenn hafi jafnvel vingast við viðfangsefni sín, upplýsingafulltrúar afvegaleitt fréttamenn og sérfræðingar verið ófúsir til að miðla þekkingu sinni.
Rannsóknarnefnd Alþingis benti á mikilvægi þess að sjálfstæði ritstjórna yrði eflt, eignarhald einkaaðila yrðu sett mörk og fjárhagsleg skilyrði fyrir fjölmiðlarekstri hér á landi yrðu styrkt. Þrátt fyrir það hefur viðvarandi óvissa verið um framhald ríkisstyrkja til einkarekinna fjölmiðla, sem nýlega voru framlengdir um eitt ár.
Tekjur íslenskra fjölmiðla lækka á milli ára, sem rakið er til samdráttar á auglýsingatekjum. Árið 2012 tóku erlendir miðlar til sín fjögur prósent auglýsingatekna á íslenskum markaði. Tuttugu árum síðar var hlutfallið komið upp í 45 prósent. Og 49 prósent árið 2023. Tekjur dag- og vikublaða lækkuðu um fjórðung á milli áranna 2022 og 2023, samkvæmt Hagstofunni, reiknað á föstu verði.
Óttast er um atgervisflótta úr blaðamannastétt samhliða tilfærslu starfa frá fréttamiðlum yfir í kynningarstörf fyrir stofnanir og fyrirtæki.
Sakborningar fyrir að segja fréttir
Alþjóðleg samtök blaðamanna vara við því að hér á landi geti pólitískir og efnahagslegir hagsmunir ógnað frelsi fjölmiðla, ekki síst af hálfu sjávarútvegsfyrirtækja, sem jafnvel eigi og reki fjölmiðlafyrirtæki. Bent er á að fjölmiðlafólk sem rannsakað hafi spillingarmál í Namibíu, kennd við Samherjaskjölin, hafi þurft að sæta lögreglurannsókn.
Tveimur árum eftir að blaðamenn voru gerðir að sakborningum vegna starfa sinna bíða þeir enn eftir ákvörðun ríkissaksóknara um hvort endurvekja eigi lögreglurannsóknina. Niðurfelling málsins var kærð í október og ákvörðun ríkissaksóknara liggur ekki fyrir.
Það er ekki að ástæðulausu sem fjölmiðlafrelsi mælist mun minna á Íslandi en í samanburðarríkjum og hefur hrunið á undanförnum árum, niður í 18. sæti á lista yfir ríki sem mælast með mest fjölmiðlafrelsi.
Ástæðurnar sem hafa verið raktar fyrir því eru meðal annars vaxandi óþol stjórnmálamanna gagnvart fjölmiðlum, sem á sér ýmsar birtingarmyndir, eins og komið hefur í ljós á síðustu árum. Fleiri ástæður eru nefndar í rökstuðningi matsaðila, svo sem lagaumhverfi þar sem blaðamenn eiga stöðugt á hættu að vera dregnir fyrir dóm vegna starfa sinna. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ítrekað dæmt íslenska ríkið fyrir að brjóta á tjáningarfrelsi blaðamanna. Þá er bent á að fjölmiðlafyrirtæki hafi farið illa út úr hruninu og rekstrarumhverfið veiki getu þeirra til að standast þrýsting hagsmunaaðila. Fjölmiðlar hafi verið yfirteknir af hagsmunaaðilum, samskipti stjórnmálamanna við fjölmiðla hafi versnað og stórfyrirtæki hafi staðið fyrir ófrægingarherferð á hendur fréttamönnum.
Aðstæður á Íslandi eru betri en í Bandaríkjunum. Ástandið þar er hins vegar áminning um mikilvægi frjálsra fjölmiðla og gagnrýninnar umræðu, jafnvel þótt hún sé óþægileg á köflum og jafnvel óþolandi.
Markmiðið með stofnun Stundarinnar var að veita skjól til að hægt væri að stunda rannsóknarblaðamennsku. Til að skapa það skjól var leitað eftir stuðningi almennings. Nú í janúar eru tíu ár liðin frá stofnun Stundarinnar og tvö ár frá stofnun Heimildarinnar. Enn í dag hefur almenningur framtíð miðilsins í höndum sér. Því fleiri sem gerast áskrifendur, því sterkari stendur miðillinn. Áskrift hefur áhrif.
Athugasemdir