Sigurjón Ólafsson, fyrrverandi verslunarstjóri á sextugsaldri, hélt því fram fyrir dómi að þroskaskert kona, sem hann hefur verið dæmdur fyrir að brjóta á kynferðislega, hafi haft frumkvæði að kynferðislegum samskiptum þeirra, þvert á það sem konan segir sjálf. Hann sagði „frá því að hún hefði verið einföld en annars góð og yndisleg manneskja, hress og skemmtileg. … Frekar spurður um merkinguna einföld kvaðst ákærði ekki geta útskýrt það nánar eða hann ekki spáð nánar út í það.“
Sigurjón neitaði því að hafa vitað að konan væri þroskaskert en hann yfirmaður hennar þegar hann byrjaði að brjóta gegn henni. Hann sagðist ekki upplifað neitt valdaójafnvægi á milli þeirra heldur hefðu samskiptin verið á jafningjagrundvelli, en þegar þau kynntust var hann í stjórnunarstöðu hjá fyrirtækinu með um fjögur hundruð undirmenn.
Hann var dæmdur fyrir að brjóta gegn henni nokkrum sinnum í mánuði yfir fjögurra ára tímabil, á árunum 2016 til 2020. Yfirleitt hafi hann komið heim til hennar á morgnana en stundum að loknum vinnudegi. Þá greindi hún einnig frá því að þau hefðu haft samfarir í nokkur skipti á vinnustaðnum.
Starfsmannastjóri fyrirtækisins bar fyrir dómi að hann hefði gengið út frá því að konan væri í atvinnu með stuðningi, þó gögn staðfestu það ekki. Starfsmannastjórinn sagði ennfremur að konan væri „mjög sérstök í viðkynningu og greinilega með takmarkanir … líklega greindarskert.“
Braut gegn ungmennum með þroskaskerðingu
Sigurjón var einnig dæmdur fyrir kynferðisbrot og brot á barnaverndarlögum gegn syni konunnar, sem var undir 18 ára aldri, og kærustunni hans en þau glíma bæði við þroskaskerðingu. Sigurjón fór inn í herbergi, þeim að óvörum, þar sem þau voru í kynferðislegum athöfnum og viðhafði „kynferðislegar leiðbeiningar“ fyrir piltinn með því að færa hönd nálægt kynfærum stúlkunnar. Rannsókn lögreglu í málinu í heild hófst fyrst eftir þetta atvik, sem stúlkan sagði foreldrum sínum frá, og var það í framhaldi af því sem lögreglan komst að brotum Sigurjóns gegn konunni.
Pilturinn bar einnig vitni um endurtekið kynferðislegt tal Sigurjóns við hann. Þá lét Sigurjón piltinn horfa á móður hans veita sér munnmök undir því yfirskyni að um „kynferðislegar leiðbeiningar“ væri að ræða. Um aðdraganda þessa brots gegn henni sagðist konan hafa verið „hrædd við ákærða og ekki þorað öðru en að þóknast honum.“
Um refsinguna segir í dómnum: „Um var að ræða alvarleg brot sem beindust gegn kynfrelsi þriggja brotaþola sem voru minni máttar, allt eins og áður greinir. Þá voru brotin framin í aðstæðum þar sem brotaþolarnir áttu að vera öruggir. Grófleiki brota gagnvart [konunni] var í meira mæli, þar á meðal þar sem þau voru margendurtekin á löngu tímabili og að hluta til með þátttöku annarra manna að tilhlutan ákærða. Ljóst er af málsatvikum að ásetningsstig ákærða við framningu brotanna var hátt.“ Samkvæmt dómnum er það metið Sigurjóni til málsbóta að hann hefur ekki áður gerst brotlegur við refsilög. Auk þess segir að langur tími sé liðinn frá brotunum og óútskýrðar tafir hafi orðið á lögreglurannsókn sem leiði til mildunar refsingar. Vegna alvarleika brotanna sé þó ekki unnt að skilorðsbinda dóminn.
Undarlegt og dapurlegt
Fatlað fólk er líklegra en aðrir til að verða fyrir ofbeldi, og þar eru fatlaðar konur útsettari fyrir því að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi en aðrar konur.
„Þetta mál allt er auðvitað alveg hræðilegt,“ segir Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri þroskahjálpar, segir mikilvægt að sakfelling hafi náðst í málinu en mun fátíðara er að það sé raunin þegar brotaþolar eru fatlaðir. „Sér í lagi þegar kemur að kynferðisbrotum gegn fötluðum konum,“ segir hún. Það veki hins vegar furðu að enginn af hinum mönnumun sem liggur fyrir að brutu á konunni hafi verið ákærðir en samkvæmt saksóknara voru þeir hlutar málsins ekki taldir líklegir til sakfellingar, og því hafi ekki verið gefin út ákæra gegn neinum af þeim. „Það finnst okkur mjög undarlegt, og dapurlegt auðvitað líka,“ segir hún.
Anna Lára leggur áherslu á að réttarkerfið komi til móts við þarfir fatlaðs fólks, en sérstaklega sé kveðið á um aðgang að réttlátri málsmeðferð í Samningi sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks Hún tekur fram að ákveðin vitundarvakning hafi átt sér stað hjá lögreglu, þar með talinni kynferðisbrotadeildinni, en gera megi enn betur.
Anna Lára segir kynferðisbrot gegn fötluðu fólki „mjög algeng“ og þekkir hún til fjölmargra mála sem aldrei rötuðu til dómstóla. „Þetta eru allt of mörg mál,“ segir hún. „Það er líka líklegra að fatlað fólk segi ekki frá því það heldur að því verði ekki trúað. Þarna birtist svo skýrt valdleysið sem við sem samfélag höfum sætt okkur við að fatlað fólk búið við,“ segir Anna Lára. Hún bendir einnig á að kynfræðslu til fatlaðs fólks sé verulega ábótavant en slík fræðsla felur til að mynda í sér að kenna fólki að það má setja mörk, rétt eins og gert er í kynfræðslu til annarra hópa.
Fékk lykil að íbúðinni
Fyrir dómnum kom fram að í öllum heimsóknum Sigurjóns heim til konunnar hafi þau haft kynferðismök, þau hefðu líka talað saman en ekki mikið. Að öðru leyti hefðu þau ekki gert neitt saman, svo sem borða saman eða fara út. Nokkrum sinnum hefði hann gefið henni kynæsandi undirfatnað. Konan bar að Sigurjón hefði tekið ákvarðanir um hvenær hann kæmi í heimsókn og hann ekki alltaf beðið um leyfi. Konan segist aldrei hafa hringt í hann að fyrra bragði og beðið hann að koma. Hún hefði ekki alltaf viljað að hann kæmi og sagt það við hann en hann samt komið á staðinn. Hún hefði síðan hleypt honum inn þar sem hún hefði ekki þorað öðru. Síðar fékk Sigurjón húslykil hjá henni þannig að hann gæti hleypt sér sjálfur inn í íbúðina.
Konan segir að Sigurjón hafi farið að bjóða öðrum karlmönnum að taka þátt í kynlífi þeirra en hún ekki viljað það. Hún „greindi frá mikilli vanlíðan og sjálfsásökunum eftir á, kvíða, sjálfsvígshugsunum og vantrausti í garð karlmanna.“ Fyrir dómi sagðist Sigurjón kannast við að aðrir karlmenn hefðu komið á heimil konunnar og stundað með þeim kynlíf, og sagði konuna hafa átt hugmyndina að því að fá aðra karlmenn til að vera með þeim. Mennina hafi hann síðan fundið í gegn um stefnumótasíðu á netinu.
Konan bar fyrir dómi að henni hefði fundist að Sigurjón ætti hana en hann hefði sagt það við hana í eitt skipti í byrjun samskiptanna í samtali þeirra á skrifstofunni hans. Þá hefði Sigurjón nokkrum sinnum sagt að hann réði og það komið fram í símtölum og í tengslum við kynferðisleg samskipti þeirra með þátttöku annarra manna. Hún hefði ekki mátt segja nei við hann en hefði þó sagt það nokkrum sinnum í þessu samhengi. Konan hefði á öllu tímabilinu verið mjög kvíðin og líkaminn sagt henni einhvern veginn að þetta væri ekki í lagi af því að hann væri í hjúskap með annarri konu
Sigurjón sagðist fyrir dómi ekki kannast við að hafa nokkru sinni sagt við konuna að hann ætti hana og að hann réði yfir henni og að hún hefði ekki mátt segja nei við hann. Þá neitaði hann því sem konan hélt fram, að hann hefði viljað að hún færi alltaf í sturtu þegar þau hittust, áður en hún veitti honum munnmök og þau síðan haft samfarir. Hún sagði að Sigurjón hefði aldrei veitt henni munnmök og aldrei spurt hvað henni þætti gott í kynlífi.
Spurðu aldrei um samþykki hennar
Við skýrslutöku hjá lögreglu sagði konan að „karlmenn hefðu endurtekið verið að koma á heimili hennar fyrir tilstilli ákærða til þess að hafa við hana kynferðismök og án þess að hún fengi nokkru um það ráðið. Í aðalatriðum greindi hún frá því að hún hefði í nokkur skipti haft kynferðismök við ákærða og aðra menn á sama tíma. Í einhverjum tilvikum hefði verið um að ræða sömu menn. ... Hún hefði ekki mátt setja sig upp á móti ákærða og hann verið mjög ráðandi í samskiptunum. Hann hefði sagst eiga hana og gert henni ljóst að hann réði. Hún hefði jafnan í þessu samhengi verið kvíðin og henni liðið illa … Mennirnir sem komu á staðinn hefðu ekki spurt hana um viljaafstöðu og hún ekkert tjáð sig um það út af því sem áður greinir.“
Í matsgerð sálfræðings, dómkvadds matsmanns, segir að konan hafi glímt við þunglyndi og kvíða, hún glími við vitsmunalegar takmarkanir og sé mikið undir meðallagi í þroska.
„Allir félagslegur skilningur er verulega skertur sem hefur leitt til þess að hún hefur ekki getað valdið vináttusamböndum. Öll flókin samskipti reynast henni erfið og skilningur hennar á ástarsamböndum er takmarkaður.“ Í æsku hafi strax komið fram að hún sé leiðtöm og þurft mikið eftirlit. Þá segir sálfræðingur í matsgerðinni að í samtölum við konuna hafi komið fram að „hún hafði einfaldan og nánast barnalegan skilning á sambandi sínu við sakborning. Hún taldi þau vera kærustupar og hafði drauma um framtíðarsamband þeirra sem par. Á sama tíma kemur fram að meira og minna öll þeirra samskipti snerust um kynlíf.“ Þá virðist hún lítinn skilning hafa á því valdaójafnvægi sem var í sambandi þeirra þar sem hann var hennar yfirmaður. Þeir sem sálfræðingurinn ræddi við vegna matsins sögðu hana misskilja hluti og sé illa fær um að standa með sjálfri sér. Mat sálfræðingsins er því að „skilningur hennar á sambandi við sakborning hafi verið verulega takmarkaður vegna hennar þroskafrávika.“ Tekið er fram í dómnum að rannsóknir sýni að einstaklingar með þroskavanda, sérstaklega konur, eru í aukinni hættu fyrir misnotkun, og að það eigi einnig við um konuna. Hún hafi verið einangruð, einmana en hafi haft eðlilega þörf fyrir félagsskap, þar með talið kynferðislegt samband.
Við framburðarskýrslu sagðist Sigurjón ekki kannast við að konan eða sonur hennar hefðu staðið höllum fæti vegna þroska eða fötlunar, eða að hann hefði vitað að slíkt gæti átt við.
Hvað kynferðisathafnir með öðrum mönnum þá sagði Sigurjón að konan hefði að fyrra bragði talað um að hún vildi prófa kynlíf með honum og öðrum manni á sama tíma, og þess vegna hefði hann átt samskipti við menn á vefsíðunni. Þá fullyrti hann að öll kynferðisleg samskipti hans og konunnar hefðu verið með fullu samþykki hennar, hann kannaðist ekki við að vera ráðandi í samskiptum, að hann hefði notfært sér hana á nokkurn hátt, og hann hafi ekki orðið var við að henni liði illa af hans völdum. Sálfræðingurinn sagði að einstaklingur með eðlilega greind og í betri stöðu en konan ætti auðvelt með að nýta sér yfirburðastöðu og aðstöðumun til þess að koma framkynferðislegum vilja gagnvart henni án þess að hún skildi þýðingu verknaðarins.
Sögðu ekkert hafa verið athugavert
Fyrir liggur að Sigurjón ræddi við minnst fimm menn til að koma heim til konunnar í því skyni að hafa kynmök við hana að honum viðstöddu. Þrír þeirra staðfestu þetta fyrir dómi, einn þeirra neitaði að hafa látið verða af því að mæta, og ekki var hægt að finna þann fimmta.
Einn þessara manna, kallaður E í dómnum, staðfesti að hafa komist í samskipti við Sigurjón á stefnumótasíðu og hafa farið „í tvö eða þrjú skipti í téðar heimsóknir, að hver þeirra hefði mögulega tekið um 15-30 mínútur,“ að því er segir í dómnum. Hann sagðist ekki hafa séð neitt athugavert þegar hann kom á staðinn og talið að konan væri samþykkt því sem fór fram. Spurður hvernig hún hefði sýnt samþykki sitt sagðist hann ekki muna það vel. Útfærslan á kynferðislegum samskiptum hefði „frekar verið undir stjórn eða að frumkvæði ákærða en ekki konunnar. Þá hefðu smokkar ekki verið notaðir.“ Honum ekki verið kunnugt um né hann gert sér grein fyrir því að hún væri þroskahömluð.
Annar, kallaður F, segist hafa verið boðið af Sigurjóni að hafa kynferðismök við konuna á ákveðnum tíma og fengið heimilisfangið. Maðurinn sagði hins vegar fyrir dómi að hann hefði verið í mikilli kannabisneyslu, ekki muna vel eftir samskiptunum en þó viss um að hann hafi ekki farið á staðinn.
Maður sem kallaður er G í dómnum staðfesti að hann hafi verið í samskipti við notanda á vefsíðunni sem var skráður sem par, það er karl og kona. Spurður frekar um samskiptin út frá efnislegri merkingu þess sem var skrifaði sagðist hann „á þeim tíma hafa sett það í samhengi við sub og dom kynlíf, þ.e. stjórnsamur og undirgefinn þar sem samþykki væri fyrir hendi og að ekki væri farið yfir mörk.“ Hann hafi mætt í íbúðina að morgni dags þar sem nakinn karlmaður, Sigurjón, hefði hleypt honum inn; konan hafi einnig verið nakin og þau virðast hafa verið byrjuð að hafa kynferðismök. Sigurjón hafi síðan sagt við konuna eitthvað á þá leið: „Viltu ekki veita honum smá athygli“ og hún þá veitt honum munnmök. Maðurinn sagðist síðan hafa orðið afhuga því að taka þátt í kynferðismökum og ekki reynst vera að fá kynferðislega örvun. Til skýringar sagðist hann hafa sagt að hann væri ekki „morgunmanneskja.“ Hann hafi síðan byrjað að klæða sig en Sigurjón á meðan haft samræði við konuna. Maðurinn staðfesti að engin umræða hafi átt sér stað um hvað konan vildi í kynlífi en honum hafi virst þau bæði vera samþykk því sem væri að gerast. Á leið út úr íbúðinni hafi honum þó fundist andrúmsloftið vera skrýtið.
Maður sem kallast H í dómnum sagðist hafa farið þrisvar sinnum að hitta þau í kynferðislegum tilgangi. Í fyrsta skiptið hafi verið búið að taka úr lás og þau verið að hafa samfarir þegar hann kom inn. Annað skiptið hafi verið svipað en þá hafi hann „viljað vera á undan [Sigurjóni] út af hreinlæti.“ Samskipti hafi verið mjög takmörkuð en hann bar að engin höfnun hefði verið merkjanleg hjá konunni. Hann sagðist þó ekki vita hvort hún hefði notið kynlífsins eða hvað hún hafi viljað fá út úr því. Hjá lögreglu sagði hann ekkert hafa gefið til kynna að hún vildi ekki taka þátt í kynlífinu.
Rannsóknarlögreglumaður staðfesti að lögreglan hefði aflað gríðarlegs magns af samskiptagögnum. Úrvinnsla gagna hafi miðast við að þrengja sig niður þann hóp manna sem virtust samkvæmt skilaboðum hitt Sigurjón og konuna í kynferðislegum tilgangi. Ekki hafi hins vegar hægt að finna út hverjir allir þeirra voru.
Sonur konunnar greindi frá því í framburðarskýrslu að Sigurjón hafi endurtekið yfir langt tímabil komið á heimilið til að hafa kynferðismök við móður hans. Honum hafi verið ljóst að Sigurjón „var í hjúskap með annarri konu og ákæri verið leynivinur móður hans. [Piltinum] hefði fundist að móðir sín ætti betra skilið, þ.e. að ákærði hefði ekki komið vel fram við hana og að í rauninni hefði ekki verið fyrir hendi traust vinátta af hendi ákærða. Samskipti [Sigurjóns] og [konunnar] hefðu fyrst og fremst verið kynferðisleg og þau ekki gert neitt saman. [Pilturinn] hefði að einhverju marki litið á ákærða sem fósturföður sinn en þeir hefðu þó ekki gert neitt saman. Ákærði hefði gefið sig að honum með því að veita honum tilsögn af kynferðislegum toga.“
Einnig greindi hann frá því að Sigurjón hafi fengið hann til að horfa á kynferðismök ákærða og móður hans, og í það skipti hafi hún „virst vera því mótfallin eða henni ekki liðið vel með það.“
Þá sagði hann frá því að móðir sín hafi ekki verið glöð þegar Sigurjón kom í heimsóknir og að hún hafi beðið sig um að vera inn í herbergi á meðan. Sigurjón hafi endurtekið rætt við hann um kynlíf, spurt hvernig það gengi hjá honum, aðferðir og hvort hann gæti verið til aðstoðar. Pilturinn sagði að sér hefði liðið undarlega og óþægilega með þetta.
Í ágúst 2022 fékk lögreglan upplýsingar frá réttargæslumanni konunnar um að mögulega væru fleiri brot Sigurjóns sem hún hefði ekki greint frá við fyrri skýrslutöku, en lögreglan var þá að rannsaka brotið gegn syni hennar og kærustu hans. Í seinni skýrslutöku, 13 dögum síðar greindi hún frá því að Sigurjón „hefði endurtekið boðið öðrum karlmönnum að taka þátt í kynlífi þeirra og að það hefði jafnan verið án þess að láta hana vita áður og án þess að hún í raun vildi það.“
Á síðari stigum rannsóknarinnar var tekin skýrsla af barnsföður konunnar, meðal annars um líðan hennar eftir meint brot. Einnig var haft samband við eiginkonu Sigurjóns en hún skoraðist undan að gefa skýrslu vegna makatengsla.
Dominique Pelicot og Bjarki Már
Málið hefur vakið mikla athygli hér á landi en því hefur verið líkt við mál hinnar frönsku Gisèle Pelicot en eiginmaður hennar byrlaði henni og bauð tugum karlmanna, sem hann kynntist á spjallsíðu á netinu, að koma heim til þeirra og hafa samfarir við eiginkonu sína. Í framburði þeirra manna kom sömuleiðis fram að Dominique Pelicot, eiginmaðurinn, hafi sagt að konan væri samþykk því að þeir hefðu samfarir við hana sofandi lyfjasvefni, að þetta væri blæti hjá þeim hjónum. Í því máli voru mennirnir hins vegar ákærðir og hlutu dóm. Þar liggur einnig fyrir að lögreglunni tókst ekki að bera kennsl á alla mennina sem talið er að hafi gerst sekir um brot gegn konunni. Gisèle hefur greint frá því að hún þurfti að komast yfir sjálfsásakanir áður en hún gat meðtekið að hún hafði ekki gert neitt rangt en um tíma upplifði hún að mennirnir sem nauðguðu henni væru hennar þolendur.
Árið 2009 var íslenskur maður, Bjarki Már Magnússon, dæmdur í átta ára fangelsi fyrir að neyða þáverandi sambýliskonu sína til samræðis og annarra kynferðismaka með ellefu öðrum mönnum. Í dómnum yfir Bjarka sagði að „brot ákærða eiga sér enga hliðstæðu í réttarframkvæmd hér á landi. Braut ákærði markvisst niður mótstöðuafl sambýliskonu sinnar og gerði hana sér undirgefna. Af ótta við barsmíðar tók hún þátt í kynlífsathöfnum með fjölmörgum mönnum sem hún ekki þekkti.“ Bjarki fann mennina bæði á netinu og á skemmtistöðum. Hann tók á móti þeim fyrir utan heimili þeirra og fylgdi þeim út á eftir. Stærsti hluti brotanna átti sér stað í Skandinavíu. Þá var einnig gagnrýnt að hinir mennirnir hefðu ekki verið dæmdir. Tveir þessara ellefu manna fengu stöðu sakbornings í málinu en þeir voru síðan aðeins leiddir fyrir dóm sem vitni þar sem saksóknari taldi ekki mögulegt að sýna fram á að þeir hefðu vitað að kynlífsathafnirnar væru gegn vilja konunnar, en hún sagðist hafa reynt að láta á engu bera. Í dómnum er nefnt dæmi þar sem fram kemur að eftir að konan neitaði því að tveir menn sem þau hittu á skemmtistað kæmu heim með þeim þá um kvöldið hafi Bjarki barið hana.
„Ég er ekki kynferðisbrotamaður og ég er ekki þetta skrímsli sem verið er að lýsa," sagði Bjarki í viðtali við DV eftir að Hæstiréttir staðfesti dóminn yfir honum.
Ekki liggur fyrir hvort héraðsdómnum yfir Sigurjóni verður áfrýjað.
Athugasemdir (1)