Janúar er mánuður nýs upphafs. Bjarni Benediktsson tilkynnti í vikunni að hann hygðist hvorki gefa kost á sér í formannskjöri á komandi landsfundi Sjálfstæðisflokksins né taka sæti á nýju þingi síðar í mánuðinum.
Bjarni er ekki einn um að endurmeta líf sitt í byrjun árs. Löng hefð er fyrir því að í janúar tökum við í gegn lífsstílinn, heilsuna og starfsferilinn. En þegar kemur að fullkomnum lífsháttum reynist hinn heilagi kaleikur ósjaldan glópagull.
Hin týndu tíræðu
Síðustu ár hefur verið móðins hjá þeim sem stunda lífsstílsátök að lifa eins og fólk gerir á hinum svokölluðu „bláu svæðum“ heimsins. Hugtakið „bláu svæðin“ varð vinælt fyrir tilstilli bandaríska fyrirlesarans Dan Buettner. Er það notað yfir fimm staði í veröldinni þar sem langlífi er talið meira en gengur og gerist; ítölsku eyjuna Sardiníu, grísku eyjuna Íköru, japönsku eyjuna Okinawa, Nicoya-skagann í Kosta Ríka og borgina Loma Linda í Kaliforníu.
Buettner, sem skrásetti hugtakið sem vörumerki og fjallar um það í bókum, fyrirlestrum og frægri Netflix-seríu, fullyrðir að ástæða langlífis á bláu svæðunum sé hreint mataræði, hreyfing og félagsleg samskipti. Svo kann þó að vera að orsakarinnar sé að leita annars staðar.
Hin svokölluðu Ig Nóbelsverðlaun eru veitt fyrir vísindarannsóknir sem „fá fólk til að hlæja og svo hugsa“. Nýverið hlaut verðlaunin breski lýðfræðingurinn Saul Justin Newman fyrir rannsóknir á bláu svæðunum. Newman dregur í efa tilvist svæðanna sem hann segir tálsýn byggða á handónýtum rannsóknargögnum.
„Flest gífurlega gamalt fólk virðist búa á stöðum þar sem rangfærslur í opinberum gögnum eru algengar og mikið er um lífeyrisbótasvik,“ segir Newman. Hann nefnir Nicoya-skagann á Kosta Ríka sem dæmi. „Árið 2008 kom í ljós að 42 prósent fólks í Kosta Ríka, sem kvaðst eldra en hundrað ára, laug til um aldur. Þegar leiðrétt var fyrir þeim þætti féll Kosta Ríka næstum á botninn á lista yfir langlífi í heiminum.“
Sömu sögu var að segja um Grikkland. „Þar komst ég að því að 72 prósent tíræðra og eldri fundust ekki,“ sagði Newman. „Í ljós kom að þúsundir þeirra fengu greiddan lífeyri þótt þau væru látin. Það þarf engan snilling til að skilja hvað er hér um að vera.“
Hvar Davíð keypti ölið
Sjálfstæðisfólk lætur nú sem upp renni nýir tímar. En ný byrjun innan hins bláa veldis gæti reynst lífsstílsbreyting byggð á jafnbrengluðum forsendum og langlífi fólks á hinum bláu svæðum.
Hið nýja upphaf Sjálfstæðisflokksins á það sameiginlegt með her hinna hundrað ára á bláu svæðum heimsins að það bólar ekkert á þeim.
Nýr þingmaður mun taka sæti á Alþingi í stað Bjarna Benediktssonar. Hinn nýi þingmaður er þó enginn annar en Jón Gunnarsson sem setið hefur á þingi síðan 2007. Jón komst í fréttirnar í aðdraganda kosninga fyrir það sem átti að vera svanasöngur hans og pólitísk arfleifð er hann tryggði vini sínum, Kristjáni Loftssyni, hvalveiðileyfi sem sérlegur erindreki Bjarna í matvælaráðuneytinu. En í Sjálfstæðisflokknum eins og hringrásarhagkerfinu er gamalt nýtt og Jón er ekki aðeins upprisinn eins og Kristur heldur útilokar hann ekki formannsframboð.
Hið nýja upphaf Sjálfstæðisflokksins á það sameiginlegt með her hinna hundrað ára á bláu svæðum heimsins að það bólar ekkert á þeim. Því Sjálfstæðisflokkurinn er eins og tölvuleikurinn Tetris. Ferkantaður kubbur kemur í staðinn fyrir ferkantaðan kubb og fyllir upp í ferkantað skarð. Þótt kubbarnir raðist stundum saman með mismunandi hætti og komi í nokkrum litum eru þeir samt alltaf ferkantaðir kubbar.
Að sögn þeirra sem halda fram tilvist bláu svæðanna er ástæða meints langlífis fólks á japönsku eyjunni Okinawa mikil neysla á sætkartöflum. En þegar Saul Justin Newman skoðaða tölfræðina kom í ljós að hvergi í Japan eru sætkartöflur jafnlítið borðaðar og einmitt á Okinawa.
Fullyrt er að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur einkaframtaksins, athafnamannsins og íslensk-ameríska draumsins. En rétt eins og sætkaröflurnar er það bara blá blekking. Frá því að Davíð Oddsson sýndi vatnssölumanninum Jóni Ólafssyni hvar sá fyrrnefndi keypti ölið hefur blasað við að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki flokkur athafnamannsins heldur aðeins nokkurra útvalinna athafnamanna.
Sú hirð, sem á árum áður hópaðist um hina mörgu arma kolkrabbans, var nógu fjölmenn til að Sjálfstæðisflokkurinn gengi lengi að 40 prósentum atkvæða vísum. Meðreiðarsveinar kvótahafa og Kristjáns Loftssonar eru einfaldlega ekki nógu margir til að leika megi eftir það bragð. Hyggist flokkurinn tryggja framtíð sína með nýju upphafi þarf hann að finna sér breiðari skírskotun en stuðning helstu vina og ættingja.
Athugasemdir (1)