Jólaljós blöktu í kaldri golu þegar undirrituð var á leið í vinnuna. Á Skólavörðustígnum rakst hún á þrjá karla fyrir utan Kaffifélagið sem stóðu saman í hnapp og voru að ræða rússneskar bókmenntir. Einhver nostalgía lúrði í samtalinu þegar rifjaðar voru upp afbragðs þýðingar Ingibjargar Haraldsdóttur á rússneskum bókmenntum fyrri tíma.
Þarna röbbuðu karlarnir af ástríðu um Glæp og refsingu – jú og fleiri bækur skáldsins. En þá mundi undirrituð eftir að hafa eitt sinn hitt einhvern sem varð skotinn í einhverjum af því að viðkomandi hafði líkt sér við Raskolnikov, aðalsögupersónu áðurnefnds verks.
„Við erum öll sek,“ varð undirritaðri að orði og fann skyndilega svörun í þessari heitu umræðu úti í kuldanum. Þess má geta að meistaraverk Fjodors Dostojevskís, Glæpur og refsing, hefur verið talin ein besta skáldsaga sem skrifuð hefur verið. Hún gerist í Rússlandi fyrir byltingu og lýsir eymd, ömurð og grimmum tilfinningum í sálarlífi og umhverfi. …
Athugasemdir