Þann 2. desember 1961 ók leigubíll frá Bifreiðastöð Steindórs niður Vesturgötuna í Reykjavík og stoppaði fyrir utan Tjarnarbíó. Farþeginn var ekki manneskja heldur rafmagnsofn. Í leikhúsinu átti að fara fram sýning leikflokksins Grímu á Læstum dyrum eftir Jean-Paul Sartre í þýðingu Vigdísar Finnbogadóttur og Þuríðar Kvaran. Líklegast var kalt í borginni, bilun í kyndingu leikhússins eða jafnvel hvort tveggja. Þá voru góð ráð dýr en listafólk finnur yfirleitt leiðir til að leysa hlutina, sérstaklega þegar mikið liggur við.
„Núverandi efnahagsástand er vissulega notað sem afsökun fyrir niðurskurðunum en undir yfirborðinu kraumar hægri slagsíða
Menning í nafni þjóðernishyggju
Frá meginlandi Evrópu berast nú reglulega fréttir af gífurlegum niðurskurðum í menningarmálum. Þar má telja Finnland, Þýskaland og Holland, þjóðir sem hafa sögulega stutt dyggilega við menningarmál og ekki síst sviðslistir enda er sviðslistafólk þessara landa heimsþekkt. Núverandi efnahagsástand er vissulega notað sem afsökun fyrir niðurskurðunum en undir yfirborðinu kraumar hægri slagsíða sem flaggar menningu í nafni þjóðernishyggju, þó einungis í nafni málefna og málfrelsis sem hentar málstaðnum. Nýlega brutust út gífurleg mótmæli í Búlgaríu yfir frumsýningu þjóðleikhússins á leikriti eftir George Bernard Shaw í leikstjórn John Malkovich. Búlgarskir þjóðernissinnar túlkuðu sýninguna sem óvægna gagnrýni á land og þjóð, sem ekki var fótur fyrir enda sendu samtök evrópskra leikhúsa (European Theatre Convention) út yfirlýsingu til stuðnings leikhússins. Listafólk er uggandi, listunnendur ættu að vera það líka.
Menning þarf alvöru pláss í stjórnarsáttmála
Í aðdraganda kosninga lofuðu frambjóðendur ýmsu fögru í tengslum við menningarmál. Samkvæmt yfirliti Bandalags íslenskra listamanna yfir svör talsmanna stjórnmálaflokka, sem mættu á kosningafund um menningarmál, eru allir flokkar sem nú standa í stjórnarmyndun sammála um mikilvægi sérstaks menningarráðuneytis og sviðslistastefnunnar sem er tilbúin en náði ekki inn í samráðsgáttina áður en þingi var slitið. Nú er að standa við stóru orðin og löngu kominn tími til að festa menningarmálaráðuneyti í sessi til framtíðar sem og sviðslistastefnu. Fólk sem stendur í stjórnarmyndunarstappi er eindregið hvatt til að gefa menningu ekki einungis gaum heldur alvöru pláss í umræðunni og stjórnmálasáttmála.
Vinsælar eldri sýningar hala inn
Hálfgerð ládeyða er yfir stóru leikhúsum höfuðborgarsvæðisins sem virðast reiða sig á vinsældir eldri sýninga til að hala inn í kassann sem er að einhverju leyti skiljanlegt miðað við árferðið. Eftirspurnin ræður einnig för og sá stórmerkilegi atburður átti sér stað í desemberbyrjun að glymskrattasöngleikurinn um Elly Vilhjálms var sýndur í 250. sinn. Í vikunni barst fréttatilkynning frá Borgarleikhúsinu að sýningarréttur fyrir Moulin Rouge! væri tryggður, til stendur að frumsýna haustið 2025. Þjóðleikhúsið veðjar á glænýjan íslenskan söngleik og unga listakonu en Stormur eftir Unu Torfadóttur og Unni Ösp Stefánsdóttur verður frumsýndur í febrúar.
Nýir listrænir stjórnendur Leikfélags Akureyrar og Tjarnarbíós, Bergur Þór Ingólfsson og Snæbjörn Brynjarsson, misstu ekki úr takti sleginn af Mörtu Nordal og Söru Martí Guðmundsdóttur og slagkrafti beggja leikhúsa virðist vaxa ásmegin. Svo ekki sé nú minnst á sprengikraftinn í Reykjavík Dance Festival undir stjórn Brogan Davison og Péturs Ármannssonar. Á erlendri grund sló When the Bleeding Stops eftir Lovísu Ósk Gunnarsdóttur rækilega í gegn. Velgengnin sannar mikilvægi þess að styðja og fjármagna grasrótina. Þar hlýtur Sviðslistamiðstöð undir stjórn Friðriks Friðrikssonar að skipta lykilmáli, enda er markmið hennar að kynna íslenskar sviðslistir erlendis.
„Þess má geta að löngu látnir karlmenn að nafninu Jean fá fleiri leikritaútgáfur á Íslandi heldur en öll kvenkyns og kynsegin leikskáld á þessu ári
Vonandi styttist í bjartari tíma í íslenskum sviðslistum
Jólabókaflóðinu fylgdi óvænt uppskeruhátíð þegar kemur að útgáfu á sviðlistatengdu efni. Ingibjörg Björnsdóttir er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir stórvirki sitt, Listdans á Íslandi, Ólafur Haukur Símonarson gaf út mikið rit af átján leikverkum sínum og fljótlega kemur út kverið Frönsk framúrstefna sem inniheldur þrjár leikritaþýðingar Vigdísar Finnbogadóttur á leikverkum Jean Genet, Jean-Paul Sartre og Jean Tardieu sem aldrei hafa komið út á bók. Þess má geta að löngu látnir karlmenn að nafninu Jean fá fleiri leikritaútgáfur á Íslandi heldur en öll kvenkyns og kynsegin leikskáld á þessu ári. Taki það til sín hver sem vill.
Rafmagnsofninn komst aftur til síns heima með leigubílaþjónustu Hreyfils þennan kalda desemberdag árið 1961. Gríma gat sýnt Læstar dyr þrátt fyrir mótlæti og átti eftir að starfa næsta áratuginn, lengur heldur en flestir sjálfstæðir leikhópar á Íslandi.
Nú styttist í hækkandi sól og vonandi bjartari tíma í íslenskum sviðslistum.
Athugasemdir