Nan Goldin, listakona sem síðustu áratugi hefur verið heimsþekkt fyrir að fanga það allra mannlegasta með ljósmyndum sínum, opnaði yfirlitssýningu í Neue Nationalgalerie-safninu í Berlín í október. Við opnun sýningarinnar hélt Goldin harðorða ræðu, þar sem hún gagnrýndi ritskoðun á röddum listafólks í Þýskalandi:
„Af hverju er ég að tala við ykkur, Þýskaland?
Því tungur hafa verið bundnar, kyrktar af ríkisstjórninni, lögreglunni og menningarlegum ofsóknum. [Berlín] er borg sem við [listamenn] litum eitt sinn á sem athvarf. En síðan 7. október hefur meira en 180 listamönnum, rithöfundum og kennurum verið slaufað, sumum þeirra fyrir eitthvað jafn hversdagslegt og læk á Instagram. Mörg þeirra eru palestínsk, 20% þeirra eru gyðingar. Af hverju er ég að tala hér? Ég ákvað að nota þessa sýningu sem vettvang fyrir siðferðisreiði mína yfir þjóðarmorðinu í Gaza og Líbanon. Ég lít á sýninguna mína hér sem prófstein: Ef listakona í minni stöðu fær að tjá pólitískar skoðanir sínar án þess að það sé þaggað niður, vona ég að það ryðji brautina fyrir aðra listamenn til að tjá sig án ritskoðunar. Ég vona að það verði útkoman. Af hverju fæ ég ekki að tala, Þýskaland?“
Hvað er að gerast í Þýskalandi?
En hvaðan koma ásakanir ljósmyndarans heimsþekkta og hvað er eiginlega að gerast í Þýskalandi? Þau sem eru í menningar- og listageiranum þekkja hvernig listastofnanir keppast við að sanna samfélagslegt gildi sitt með því að sýningar þeirra taki fyrir nýlendustefnu, rasisma, kynjahlutverk og svo framvegis. Það þykir því mörgum listamönnum skjóta skökku við að listastofnanir ritskoði listafólk sem styður frelsisbaráttu Palestínu berum orðum, eða með lækum á Instagram, eins og Goldin orðaði það. En síðan þýska þingið samþykkti ályktun um að nota skyldi skilgreiningu IHRA-samtakanna (e. Alþjóðlegu samtökin um minningu helfararinnar) þegar úrskurðað væri um hvað teldist til gyðingahaturs var öll gagnrýni á Ísraelsríki sett undir þann hatt. Til að gefa dæmi um hversu víð skilgreining samtakanna IHRA á gyðingahatri er má nefna að samtökin telja skýrslu stærstu mannúðarsamtaka heims, Amnesty International, um að Ísrael sé aðskilnaðarríki[1] til gyðingahaturs.
Áhrif á fjölmarga listamenn og akademíkera
Meðal þess fyrsta sem ályktun þýska þingsins gaf af sér var brottrekstur Þjóðverja af kongólskum uppruna úr starfi sem umsjónarmaður barnasjónvarpsþáttar, fyrir þátttöku hans í umhverfisvænni hátíð til styrktar börnum á Vesturbakkanum í Palestínu. Síðan þá hefur ályktunin haft áhrif á fjölmarga listamenn og akademíkera: Listakonan og goðsögnin Laurie Anderson missti prófessorsstöðu sína við Folkwang-listaháskólann í Essen fyrir að skrifa undir opið bréf listafólks gegn aðskilnaðarstefnu Ísraels, palestínska skáldið Adania Shibli var svipt verðlaunaafhendingu vegna bókar sinnar á Bókahátíðinni í Frankfurt, að því er virðist vegna þjóðernis hennar. Listamiðstöðin Oyoun neyddist til að loka dyrum sínum eftir að þau misstu allar styrkveitingar í kjölfar þess að þau héldu viðburð undir nafninu „Raddir gyðinga fyrir réttlátum friði í Mið-Austurlöndum“. Þetta eru allt dæmi frá síðastliðnu ári, en þýska þingið staðfesti nú í nóvember ályktun sína um að ríkið myndi ekki styrkja samtök eða verkefni sem kalla eftir sniðgöngu á Ísrael eða styðja sniðgönguhreyfinguna, eða ógna tilverurétti Ísraelsríkis.
Svo virðist því sem aflýsingar á listasýningum, tónleikum og leiksýningum, boðum til listamanna, veitingar á bókaverðlaunum, verði enn undir smásjá víðrar skilgreiningar á hvað geti flokkast sem hatur.
Meint „innflutt“ gyðingahatur
Nan Goldin benti einnig á í ræðu sinni það sem margir aðrir gagnrýnendur stefnu þýskra stjórnvalda hafa gagnrýnt varðandi ályktanir þingsins, sem er að skilgreining Þýskalands á gyðingahatri skekki baráttuna gegn raunverulegu gyðingahatri, færi fókusinn frá hatursglæpum nýnasista yfir á mótmæli gegn því sem þau kalla „innflutt“ gyðingahatur. Þýskaland telur sumsé gyðingahatrið innflutt en ómögulega geta verið lengur að finna í þeirra eigin borgurum, jafnvel þó rannsóknir sýni að 80% hatursglæpa gegn gyðingum séu framdir af öfga-hægri hópum sem aðhyllast hvíta yfirburðahyggju.
Meðal gagnrýnenda ritskoðunar Þjóðverja er Candace Breitz, suður-afrísk listakona af gyðingaættum, sem varð fyrir því að hætt var við myndlistarsýningu hennar vegna þess að hún hefði ekki samþykkt að leggja árás Hamas 7. október 2023 að jöfnu við helförina. Breitz benti í viðtali í kjölfarið á fáránleika þess að Þýskaland segi nú gyðingum hvað séu rétt og röng viðbrögð við slátrun á þeim sjálfum. Á mótmælum gyðinga fyrir Palestínu þann 10. nóvember 2023 sagði listakonan jafnframt: „Á sama tíma halda nýnasistar og þjóðernissinnar áfram að ganga um götur Þýskalands með vernd lögreglu, og stuðningur við [hægri] flokkinn AfD heldur áfram að vaxa [...] Hvernig er það mögulegt, vinir, að röddum okkar sem menningarfólks, listamanna, rithöfunda, tónlistarmanna, ljóðskálda, leikhúsfólks, fræðimanna, hugvitsmanna – hvernig er það mögulegt að rödd okkar sé talin hættulegri fyrir þetta samfélag en rödd hvítra þjóðernissinna og hægri öfgahreyfinga?“
Hægrið er að taka baráttuna um tjáningarfrelsið upp á sína arma á meðan listamenn, sem eru yfirleitt á vinstri vængnum, virðast ekki vilja taka ekki upp hanskann fyrir listafólk.
Listamenn þurfa að hugsa sig tvisvar um
Þýsk vinkona undirritaðrar sótti um styrk fyrir skólagjöldum fyrir meistaranámi í sviðslistum. Henni þótti nokkuð öruggt að fá styrkinn, ekki síst þar sem hún er listakona með nokkuð „pottþétta“ ferilskrá í listheiminum: hún hefur unnið óslitið frá því hún kláraði grunnnám, vinnur samfélagsleg verkefni með innflytjendum, unglingum og öðrum hópum sem ekki hafa rödd í samfélaginu, ofan á það að vinna sleitulaust í ólíkum opinberum menningarstofnunum og vinna einnig að grasrótarstarfi. En styrkinn fékk hún ekki. Það er auðvitað alltaf sjokk að fá ekki styrk, og fyrir því geta verið ólíkar ástæður – þýska námsstyrkjastofnunin gaf vinkonu minni ekki upp ástæðu, en vinkona mín velti fyrir sér hvort hún hafi gert mistök: Einn meðmælandi hennar er nefnilega listakona sem hefur haft hátt um yfirstandandi árásir Ísraels á Palestínu og Líbanon. „Ég bara hugsaði þetta, það er ekki endilega það – en gæti það verið að mér hafi verið hafnað vegna þess?“ Það er auðvelt að afskrifa áhyggjur vinkonu minnar sem hreina paranoju, en raunin er að flestir listamenn í Þýskalandi þurfa nú að hugsa sig tvisvar um áður en þeir tengja sig eða list sína á nokkurn hátt við málstað Palestínu.
„Hinn nýi McCarthy-ismi“
Á meðan vopnasendingar Þýskalands til Ísraels hafa tífaldast á einu ári, hefur stefna landsins í menningarmálum þróast út í að vera einn armur utanríkisstefnu landsins. Vegferð Þýskalands hefur verið kölluð „hinn nýi McCarthy-ismi“.
Í listaumhverfi Þýskalands, þar sem allar listastofnanir eru að einhverju leyti ríkisstyrktar, skiptir miklu máli að stjórnvöld standi vörð um tjáningarfrelsi listamanna. Listafólk í þýskalandi er því margt hrætt við að skrifa undir opin bréf eða deila efni um Palestínu á samfélagsmiðlum, því það gæti þýtt að þeir missi lífsviðurværið.
Fjölmargar kenningar hafa komið fram um af hverju Þjóðverjar, þessi þjóð sem virtist hafa gengist við gerendastimplinum með auðmýkt eftir seinni heimsstyrjöld, þjóðin sem tók minningu helfararinnar og dýfði sér í hana í sektarkennd sem virtist næstum einkennast af stolti, keppist nú við að þagga niður í listamönnum sem segja það sem þeim finnst óþægilegt. Er Þjóðverjum kannski svo mikið í mun að vera réttir að þeir fara hringinn og verða það sem þeir óttast mest sjálfir?
Titill yfirlitssýningar Nan Goldin í Neue Nationalgalerie eru varnaðarorð sem hefðu vel átt heima í kraftmikilli ræðu hennar: „This will not end well“, eða „Þetta mun ekki enda vel“. Við látum liggja á milli hluta hvort orð hennar reynist hafa spádómsmátt.
Athugasemdir (1)