Heildartekjur í ferðaþjónustu jukust um 21 prósent á milli áranna 2022 og 2023, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni. Mikill vöxtur var í flestum undirgreinum sem Hagstofan fjallar um en mest áberandi var aukning tekna í farþegaflugi, sem nam 27 prósentum á milli ára, rekstri gististaða, sem nam 26 prósentum og hjá ferðaksrifstofum, sem nam 17 prósentum. 20 prósent tekjuvöxtur var líka í rekstri bílaleiga.
44 milljarðar
Heildartekjur ferðaþjónustunnar nam 930 milljörðum og nálgast óðfluga tekjuhæstu atvinnugreinina sem er heildsala. Heildartekjur fyrirtækja í heildverslun námu 1.043 milljörðum króna og óx um fjögur prósent á milli ára.
Samhliða miklum tekjuvexti í ferðaþjónustu hefur hagnaður greinarinnar nær tvöfaldast. Samkvæmt samantekt Hagstofunnar nam hagnaður í ferðaþjónustu 44 milljörðum króna, samanborið við 23,5 milljarða árið 2022. Hagnaður af rekstri gististaða nær fjórfaldaðist og hagnaður af ferðaskrifstofum óx um 80 prósent á milli ára. Það var aftur á móti 4,1 milljarð króna tap af farþegaflutningum með flugi.
Byggingargeirinn vex líka
Af öðrum greinum sem uxu á milli ára má nefna byggingariðnað og tækni- og hugverkaiðnað. Heildartekjur í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð jókst um samtals 15 prósent og voru heildartekjur í greininni 685 milljarðar króna. Það er aðeins meira en fyrirtæki sem stunda smásöluverslun, sem höfðu heildartekjur upp á 643 milljónir.
64 milljarðar
Sætaskipti urðu á þessum tveimur atvinnugreinum á milli ára. Á meðan byggingariðnaður óx um áðurnefnd 15 prósent hækkuðu heildartekjur í smáverslun aðeins um 1 prósent.
Hagnaður í byggingargeiranum var hins vegar ekki mikið meiri árið 2023 en hann var árið áður. Þannig var afkoma greinarinnar talinn 64 milljarðar það ár, samanborið við 63 milljarða árið 202.
Hugverkabransinn, sem Hagstofan nefnir tækni- og hugverkaiðnað, hafði heildartekjur upp á 678 milljarða króna, sem var 9 prósent aukning á milli ára. Það var hins vegar taprekstur í tækni- og hugverkaiðnaði vegna neikvæðrar afkomu í lyfjaframleiðslu og breytinga á fjármagnsliðum, að því er segir í greiningu Hagstofunnar.
Þessar tölur birtast í samantekt Hagstofunnar á heildartekjum í viðskiptahagkerfinu, án fjármála- og vátryggingastarfsemi. Í heild jukust tekjur innan þessarar skilgreiningar um 426 milljarða króna á milli áranna 2023 og 2022. Þetta nemur 6,7 prósenta hækkun sem er töluvert minni vöxtur en á milli áranna 2022 og 2021, þegar tekjuvöxturinn var sérstaklega mikill í kjölfar samdráttar á covid-tímanum.
Samantekt Hagstofunnar er unnin upp úr skattframtölum 37.000 ólíkra rekstraraðila árið 2023. Gögnin innihalda eingöngu þá sem hafa skilað skattframtali.
Athugasemdir