Halla Gunnarsdóttir er orðin formaður VR. Hún er varaformaður félagsins en Ragnar Þór Ingólfsson hefur látið af formennsku. Hann náði inn á þing með Flokki fólksins sem á nú í meirihlutaviðræðum við Viðreisn og Samfylkinguna.
Ragnar Þór varð formaður VR árið 2017 og hefur einbeitt sér að réttindum launþega og lífeyrismálum síðan eftir hrun. Hann var fyrst kosinn í stjórn VR árið 2009.
Halla mun gegna formennsku fram að næsta aðalfundi félagsins sem haldinn verður í mars á næsta ári.
Ragnar Þór hefur leitt VR í gegnum þrenna kjarasamninga og ýmsar mikilvægar breytingar á þjónustu og starfsemi félagsins. Þar á meðal má nefna stofnun Blævar – íbúðafélags sem mun afhenda sínar fyrstu íbúðir í upphafi nýs árs.
Í tilkynningu á vef VR þakkar Ragnar Þór sínum gömlu félögum fyrir samstarfið.
„Ég kveð VR með bæði stolti og söknuði. Ég hef starfað með einstökum hópi bæði kjörinna fulltrúa og starfsfólks. Skrifstofa VR er afar öflug og sem formaður hef ég notið góðs af þeirri fagmennsku sem einkennir öll hennar störf. Ég ber fullt traust til sitjandi stjórnar félagsins og nýs formanns og óska þeim velfarnaðar í sínum störfum,“ sagði Ragnar Þór.
Athugasemdir