Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, hefur boðað Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar til fundar við sig á Bessastöðum í dag, þriðjudaginn 3. desember, kl. 10:00.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsetaembættinu.
Í gær fundaði Halla með formönnum þeirra flokka sem náðu mönnum inn á þing. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, lögðu það bæði til við forsetann að Kristrún fengi umboð til stjórnarmyndunar. Samfylkingin er nú stærsti flokkurinn á alþingi, með 15 þingmenn og 20,8 prósent atkvæða.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, mælti einnig með því að Kristrún fengi umboðið en hún sagði að samband þeirra tveggja væri mjög gott. „Við ætlum að reyna vonandi að mynda sterka og samhenta ríkisstjórn,“ sagði Þorgerður Katrín eftir fund sinn með forsetanum í gær.
Með hliðsjón af þessum ummælum Þorgerðar Katrínar mætti leiða að því líkur að fyrst verði reynt að mynda ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. En Kristrún hefur áður svo gott sem útilokað samstarf með Sjálfstæðisflokki og Miðflokki, sem annars gætu komið í stað Flokks fólksins í mögulegri ríkisstjórnarmyndun.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í samtali við fjölmiðla á Bessastöðum að hann væri ekki á leiðinni í ríkisstjórn. Ákallið væri um stjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins.
Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi ráðherra og stofnandi Viðreisnar, spáði í spilin um mögulegar meirihlutastjórnir á Facebook í gær. Þar sagði hann að mjög ólíklegt sé að Samfylkingin eða Viðreisn muni vilja starfa með Miðflokknum.
Athugasemdir