Heimurinn er að breytast hratt og mikilvægt að vera meðvitaður um hætturnar, en ekki síður framfarirnar sem þessar breytingar munu hafa í för með sér. Á alþjóðlegu listmenntunarráðstefnunni WAAE í Aþenu fyrir mánuði síðan setti UNESCO fulltrúinn Ke Leng fram spurningu sem rædd var í umræðuhópum: Hvernig má nýta stafræna tækni og gervigreind á ábyrgan hátt?
Þar sem margir sérfræðingar á sviði leiklistar og menntunar voru viðstaddir ráðstefnuna, ásamt fulltrúum yngri kynslóðarinnar, skapaðist fjörug og innihaldsrík umræða um málefnið. Ritarar settu saman skýrslur um efni umræðanna og langar mig að vitna hér í eina skýrsluna sem samin var af Dimitrios Chatzitheodosiou, doktorsnema frá Grikklandi en hann fjallar um jákvæðu hliðarnar á því að nota gervigreind í leiklistarkennslu:
Gervigreind getur aukið sköpunarkraft í leiklist með því að skapa fjölbreyttar frásagnir, ýta undir persónulegra nám og stuðla að meiri þátttöku. Sem dæmi getur gervigreindarforrit aðlagað leiklistaræfingar að nemendum sem hafa mismunandi getu, lagað þær að einstökum hæfileikum og vitsmunalegum styrkleikum þeirra og þannig gert öllum nemendum kleift að taka þátt í skapandi tjáningu á þroskandi hátt. Sagnatól knúin af gervigreind geta einnig hjálpað leiklistarfólki að búa til blæbrigðaríkar frásagnir sem virða sjónarmið og hefðir ólíkra samfélaga. Við notkun gervigreindar er lykilatriði að virða hina mannlegu sköpunargáfu, og sjá til þess að gervigreindin þjóni sem samstarfsmaður en komi ekki í stað mannlegar sköpunar. Í leiklistarkennslu ætti gervigreindin að styðja kennara og leikstjóra í gagnvirku umhverfi með áherslu á mannleg samskipti, sem er kjarni leiklistarinnar. Markmiðið er að efla sköpunargáfu mannsins, samræður og skilning.
Leiklistarkennsla er öflug leið til að efla samkennd, samvinnu og samstöðu. Í gegnum lifandi samskipti, æfingar, kennslu og nám í leiklist lærast þessir grundvallareiginleikar manneskjunnar á umbreytandi og opinberandi hátt. Ferlið og ferðalagið eru ómissandi hluti af þróun og djúpstæðri breytingu. Mikilvægt er að kennarar, uppeldisfræðingar og rannsakendur fylgist náið með innleiðingu gervigreindar í leiklistarkennslu og standi vörð um lifandi þátttöku nemenda.
Í ljósi þeirrar ólgu sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag, höfum við ákveðið að helga IDEA daginn mikilvægri umræðu um frið og sátt í gegnum leiklistar- og leikhúsmenntun. Ég er fullviss um að leiklistar- og leikhúsmenntun getur stuðað að friðsælum og samhljóma heimi.
IDEA dagurinn minnir okkur á hve leiklistarkennsla í skólum er gagnleg, hún er á stundaskrá barna okkar, inni í Aðalnámskrá grunnskóla og þarf sitt pláss. Fögnum á degi leiklistar, hvetjum til breytinga og byggjum saman heim samkenndar, heilunar og friðar.
Athugasemdir