Ég hef tekið eftir því að fólk virðist mjög hrifið af því að nota tilvitnanir á samfélagsmiðlum til að segja eitthvað um sjálft sig.
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum – klassík, Gandhi, mikið tekið. Oft með mynd af viðkomandi uppi á fjalli, hendurnar í einhvers konar V merki. Það kemur hins vegar aldrei fram hver sú breyting er. Hvað ef viðkomandi vill að hvíti kynstofninn fái endanlegt umboð til að þurrka út aðra kynþætti?
Gerðu einn hlut sem hræðir þig á hverjum degi – hér er fólk komið enn lengra upp á fjall, oft með hjálm og jafnvel ísexi líka. En ég á erfiðara með að skilja þetta. Hljómar í raun eins og mjög slæm hugmynd.
Megir þú lifa alla daga lífs þíns – viðkomandi er á jafnsléttu með barn eða börn í fanginu, brosið nær til augnanna. Maður hugsar – já, þessi kann að LIFA, ólíkt mér sem borðaði morgunkorn í kvöldmatinn og er enn að skrolla eftir miðnætti.
En er þetta leti? Að nota orð annarra? Er maður í raun að segja að maður sé hugmyndasnauður? Búi ekki yfir eigin visku og þurfi að stela annarra? Við þessa gagnrýnendur segi ég: Væri ekki verra að vitna í sjálfan sig? (Bergþóra Snæbjörnsdóttir).
„En er þetta leti? Að nota orð annarra?
Nú er víst komið að okkur að fara og kjósa þá breytingu sem við viljum sjá í landinu. Ef maður vill ekki sjá neina breytingu fer maður og kýs þá flokka sem hafa farið nær sleitulaust með völdin undanfarin ár og áratugi. Þetta er fyrir þá sem eru ægilega glaðir með stöðuna í heilbrigðiskerfinu, húsnæðismálum, vextina, framkomu við flóttafólk og þjónustu við börn og eldri borgara. Ef maður er ekki ánægður verður að kjósa eitthvað annað til að fá aðra niðurstöðu. Þú færð ekki brennuvarginn til að slökkva eldinn. Það er heilbrigð skynsemi. En þegar beðið er eftir niðurstöðum er samt gott að minna sig á orð Georg Bernard Shaw:
Lýðræði er tól sem tryggir að okkur verði ekki stjórnað betur en við eigum skilið.
Athugasemdir