Það er bæði hræðilega sorglegt og rangt að finna særðan eða dauðan haförn í vindorkuveri, segir kona sem barðist lengi gegn því að vindtúrbínur yrðu reistar á fjallinu ofan við bernskuheimilið en segist hafa orðið að breyta hugarfari sínu eftir að framkvæmdin varð að veruleika. Annars hefði hún ekki getað haldið áfram að búa þar.
Um 140 hafernir hafa drepist í vindorkuverinu á Smøla en það er þó langt í frá eina verið sem byggt hefur verið í eða við þekkt búsvæði hafarna í Noregi. Nokkur þeirra vera sem tilheyra Fosen-vindorkukeðjunni, röð 6 vindorkuvera sem byggð voru á árunum 2019–2020, af félagi sem er í meirihlutaeigu ríkisfyrirtækisins Statkraft, gera það líka.
Meðal annars það sem reist var á Harbaks-fjallinu í Þrændalögum.
„Við eigum eina af þeim fjórum jörðum sem fjallið stendur á,“ segir blaðamaðurinn Line Harbak við Heimildina, spurð hvort það sé tilviljun að eftirnafn hennar sé hið sama og nafn fjallsins. Hún ólst þar upp, á fjárbúi, og býr þar í dag en starfar í þéttbýlinu skammt frá. Bærinn hennar stendur á milli hafs og fjallsins og í þessu smáa þorpi býla búa um þrjátíu manns.
Það eru álíka margar manneskjur og vindmyllurnar sem reistar hafa verið á fjallinu. Þær gína yfir fólkinu á bæjunum fjórum, fólkinu sem samþykkti vissulega að þær yrðu byggðar en töldu sig þá sumt ekki eiga annarra kosta völ. Að annars hefði landið verið tekið eignarnámi. Svo það var skárri kostur að semja.
Lítið gert úr áhrifunum
„Faðir minn heyrði fyrst af hugmyndum um að byggja vindorkuver á fjallinu árið 1997,“ segir Line. Þá var óskað eftir því að fá að setja þar upp vindmælitæki. Line var unglingur á þeim tíma og minnist þess ekki að hafa heyrt nokkuð um þetta rætt. En mörgum árum síðar, líklega í kringum árið 2014, var athygli hennar vakin á áformunum sem þá voru orðin meira en óljós hugmynd á blaði. Virkjunaraðilinn hóf samningaviðræður um greiðslur við eigendur jarðanna sem Harbaks-fjall stendur á, meðal annars við foreldra Line. Fyrsta tilboð árið 1997 var smánarlegt. Örfáir þúsundkallar á ári. Að lokum náðust svo samningar. „En við höfðum ekki gert okkur grein fyrir umfanginu,“ útskýrir hún, „og hversu miklu þyrfti að raska til að koma vindtúrbínunum þarna upp.“
Eftir á að hyggja finnst Line að lítið hafi verið gert úr áhrifunum fyrir fram. Íbúunum var sagt að þeir myndu varla verða varir við vindorkuverið, það yrði ekki mjög sýnilegt og þar fram eftir götunum. Og sumum finnst eins og blekkingum hafi verið beitt.
Það var ýmislegt við áformin sem sló Line illa frá upphafi. Hversu stór mannvirkin yrðu var eitt. Hversu mikið rask yrði að eiga sér stað á fjallinu var annað. Hún velti einnig vöngum yfir því hvort ekki væri verið að ganga freklega á réttindi Sama, frumbyggja svæðisins, sem hafa lögum samkvæmt rétt til að fara með hreindýrahjarðir sínar um þennan hluta Noregs. Þar reyndist hún sannspá því mikil málaferli urðu nýverið einmitt vegna þessa í tengslum við önnur ver sem reist voru í Fosen-vindorkukeðjunni. Málaferla sem enn sér ekki fyrir endann á.
En það voru líka aðrar og persónulegri ástæður fyrir því að Line lagðist frá upphafi gegn byggingu orkuversins. „Þetta fjall hefur alla tíð verið svæði þar sem ég hef upplifað mig frjálsa og geta tengst náttúrunni.“ Þær tilfinningar sem hún ber til fjallsins og náttúrunnar allrar eru enginn tilbúningur. Heldur raunverulegar.
Um nokkurra ára skeið bjó Line annars staðar í Noregi, meðal annars í höfuðborginni Osló og í Þrándheimi. Er hún sneri aftur heim var bygging virkjunarinnar á fjallinu komin með grænt ljós og þá upphófst fyrir alvöru barátta hennar gegn henni. Hún fór í viðtöl við fjölmiðla og lýsti áhyggjum sínum. Til að gera langa sögu stutta þá bar sú barátta ekki þann árangur sem hún vonaðist eftir. Vindorkuverið var byggt og spaðarnir tóku að snúast árið 2020.
„Eftir það þurfti ég að breyta hugarfari mínu,“ segir Line. „Því ef ég gerði það ekki gæti ég einfaldlega ekki búið hérna. Þá hefði þetta eyðilagt líf mitt.“
Rusl og olía
Það hafði tekið verulega á hana að fylgjast með byggingu versins. Sjá þegar klettarnir sem hún þekkti vel voru sprengdir. Þegar breiðir vegir voru lagðir. Vindtúrbínunum komið fyrir. „Allt þetta mál hefur breytt miklu í lífi mínu. Ég sagði að ég myndi aldrei fara aftur upp á fjallið. En ég geri það. Ég hleyp þar stundum. Mér finnst þó alltaf að eitthvað rangt hafi átt sér stað. Það vaknar alltaf sorg í brjósti mér þegar ég er þarna upp frá. Ég þekki varla þetta svæði. Ég hef meira að segja villst þar, á þessu svæði sem ég hef mörg þúsund sinnum farið um í gegnum árin. Landslagið er gjörbreytt.“
Ekki bara vegna vindtúrbínanna heldur líka vegna veganna sem liggja þarna um. Vegir sem áttu að vera fimm metrar á breidd urðu á sumum stöðum fimmtán metra breiðir. Vinnusvæðið hefur heldur enn ekki verði hreinsað að fullu. Þar má finna plast og búta af vírum, svo dæmi sé tekið.
Fyrir nokkrum misserum hóf olía að leka úr einni vindmyllunni. Um 800 lítrar af dísilolíu láku út í jarðveginn. Enginn hafi áttað sig á biluninni fyrr en nokkrum dögum síðar. Fyrirtækið sagðist hafa hreinsað olíuna upp en Line sá olíubrák lengi liggja yfir svæðinu. „Og maður fann olíulyktina.“ Þetta fór illa í bændurna enda er vatnsból þeirra í næsta nágrenni.
Enn heitur
En það er ekki síst dýralífið sem Line hafði áhyggjur af allt frá upphafi. „Við höfum alla tíð séð haferni hér nánast á hverjum degi,“ segir hún. Það sé því enginn vafi á því að allir hefðu mátt vita að háar vindtúrbínur, sem skaga tugi metra upp í loftið á fjallinu, sem fuglarnir eru vanir að fljúga yfir, yrðu þeim hættulegar.
„Þegar ég fer upp á fjallið að hlaupa þá sé ég þá oft, hafernina. Þeir sveima í kringum spaðana og ég fórna höndum og hrópa til þeirra að passa sig
Enda kom það á daginn. Hinn 1. maí árið 2021, um ári eftir að vindorkuverið á Harbaks-fjalli var tekið í notkun, hafði nágranni Line ekið virkjanavegina upp á fjallið ásamt barnabarni sínu. Þau stöðvuðu bílinn við eina vindmylluna og sáu þá fljótlega lífvana haförn á jörðinni. „Hann var enn heitur svo þetta hafði gerst aðeins stuttu áður,“ rifjar Line upp.
Nágranninn vissi ekki hvað hann átti að gera annað en að hringja í Line sem hljóp heiman frá sér og á vettvang. Henni var verulega brugðið. Þarna lá hann, þessi stóri fugl, og á hann vantaði annan vænginn. Spaðar vindmyllunnar höfðu hoggið hann af. Line kveikti á myndavélinni á símanum og lagði hann frá sér. Myndirnar, sem hafa farið víða síðan, sýna Line halda á dauðum haferninum í fanginu. Augljóslega mjög brugðið. „Svo setti ég hann í bakpokann minn og bar hann heim.“
Bróðir hennar fann annan dauðan haförn nokkru síðar. Og vitað er að fleiri hafa flogið í spaðana. Hins vegar er ekki haldið nákvæmt bókhald um dauða þeirra við þetta vindorkuver líkt og gert hefur verið á Smøla. Line bendir líka á að rándýr á borð við refi séu á fjallinu og þeir séu fljótir að éta fuglshræ. „Þegar ég fer upp á fjallið að hlaupa þá sé ég þá oft, hafernina. Þeir sveima í kringum spaðana og ég fórna höndum og hrópa til þeirra að passa sig.“
Sundrung samfélaga
Bygging vindorkuveranna í Fosen hefur valdið sundrungu í litlum samfélögum. Sumir geta enn ekki heyrt á þessi mál minnst. Gáfu allt sitt í baráttunni gegn þeim. Aðrir voru jákvæðir í garð veranna í byrjun og eru það ýmist enn eða hefur snúist hugur. Um það eru líka dæmi. Virkjanirnar hafi skilað fjármunum til sveitarfélaganna, oft lítilla sveitarfélaga sem hafa ekki mörg tækifæri til tekjuöflunar. Það hefur einnig spilað inn í afstöðu fólks.
„Sumir spyrja: Hvað er málið? Þetta er bara fjall,“ segir Line um það viðmót sem hún á það til að mæta. Sérstaklega áður fyrr. „Aðrir hafa sagt við mig: Það er hvort eð er enginn þarna! En í mínum huga er þetta ekki bara fjall. Og það eru vissulega einhverjir þarna, þótt það séu ekki menn. Þarna eru dýr, heilu vistkerfin. Náttúra sem við þurfum svo mikið á að halda. Því við stöndum ekki aðeins frammi fyrir loftslagshamförum heldur hamförum gegn náttúrunni.“
Enn aðrir hafa svo sagt að með virkjuninni hafi aðgengi fólks að Harbaks-fjalli aukist til muna. Vegir liggi um það allt og núna geti fleiri notið þess að fara þangað en áður. „En helming ársins er ekki hægt að fara þangað því það er hættulegt vegna ískasts frá spöðunum,“ segir Line sem hefur séð slíkt gerast. „Ég fer til dæmis mun sjaldnar þar upp eftir en ég gerði áður en verið var byggt.“
Blaðamaður Heimildarinnar hafði sent Line fyrirspurn um viðtal fyrir nokkru og var farinn að efast um að hún myndi vilja veita það. „Ég var hikandi við að tala við þig,“ játar Line. „Það tekur á mig andlega að ræða þetta. Ég hef þurft að ákveða að láta þetta ekki eyðileggja líf mitt. Ef ég ætla að búa hérna verð ég að lifa með þessu. Ég veit auðvitað að ekkert er svart-hvítt í þessum heimi og ég hef hlustað á þá sem eru fylgjandi vindorkuverinu. En ég vildi óska að það væri ekki þarna.“
Fjölskylda Line fær á hverju ári greitt fyrir afnot vindorkufyrirtækisins af Harbaks-fjalli. Henni finnst það snúið. Rangt jafnvel. Að vilja ekki verið en taka við peningum vegna þess á sama tíma. „Einhverjum finnst ég vera fölsk. Hræsnari. Og stundum finnst mér það sjálfri.“
Stærðin og raskið
Og þótt tugir vindorkuvera hafi risið í Noregi er Line á því að nærsamfélögin átti sig oft ekki fyrir fram á hversu umfangsmiklar þessar framkvæmdir eru. Hversu miklu þurfi að raska til að byggja þessar virkjanir. „Og stærðin á þessu,“ heldur hún áfram. „Þegar ég er þarna uppi þá er ég örsmá miðað við þessi mannvirki. Þetta er svo gríðarlega stórt.“
„Ég hef heyrt þessu lýst eins og hljóði frá flugvél sem taki aldrei á loft
Almenningsálitið hefur sveiflast nokkuð síðustu ár gagnvart vindorkunýtingu. Árið 2019 voru um 40 prósent Norðmanna fylgjandi vindorkunni en á árunum á eftir fækkaði þeim töluvert. Þeim fjölgaði hins vegar aftur árið 2022 er orkukrísa herjaði á Evrópu vegna stríðsins í Úkraínu og raforkuverð í sunnanverðum Noregi rauk upp, í þeim hluta landsins sem tengdur er orkukerfi álfunnar. En almennt telur Line færri styðja vindorkuver nú en áður en farið var að byggja þau.
Stöðugur hvinur
Fjallið verður aldrei eins aftur þótt vindmyllurnar verði einhvern tímann í framtíðinni teknar niður. Að vindorkuver séu afturkræfar framkvæmdir stenst ekki skoðun, að mati Line. Að minnsta kosti ekki þar sem gífurlegt rask þurfi til byggingarinnar.
Line getur ekki staðið fyrir utan húsið sitt án þess að sjá vindmyllurnar, vindtúrbínurnar eins og hún kallar þær, á Harbaks-fjalli. En henni finnst sjónrænu áhrifin ekki vera stærsta vandamálið þegar vindorkuver séu annars vegar. Þau gefi líka frá sér hljóð sem heyrist mismikið eftir því hver vindáttin sé. Þetta er stöðugt hljóð, hvinur, eins konar lágur titringur, sem fólk finnur og heyrir inni í húsunum fyrir neðan fjallið. Þetta truflar fólk mismikið. „Ég hef heyrt þessu lýst eins og hljóði frá flugvél sem taki aldrei á loft.“
Þá skapi stöðugur snúningur spaðanna skuggaflökt sem fari, líkt og hljóðið, misilla í fólk.
„Þetta er ekki bara fjallið mitt,“ segir Line þegar hún reynir að útskýra þau ósýnilegu áhrif sem hún telur rask vegna vindorkuversins valda. „Og þetta snýst heldur ekki bara um fjallið mitt. Náttúran er okkar allra og ekki síst alls þess sem í henni býr. Líka þess sem við vitum ekki að býr þar. Svo við vitum ekki hverju við höfum tapað. Hvaða áhrif það hefur á fólk að tapa náttúru. Því fylgir raunverulegur harmur. Mér fannst ég hafa tapað hluta af sjálfri mér.“
Athugasemdir (1)