Fjórir forsetaframbjóðendur eru í framboði þessa stundina en allir flokkarnir sem þeir bjóða sig fram fyrir, utan einn, eru ýmist í fallhættu eða langt fyrir neðan kjörfylgi. Það hafa aldrei verið jafn margir forsetaframbjóðendur í kjöri til Alþingis áður.
Frambjóðendurnir eru Arnar Þór Jónsson, sem fer fyrir Lýðræðisfylkingunni sem vantar töluvert upp á að nái inn á þing. Þá er Viktor Traustason í þriðja sæti í Norðausturkjördæmi fyrir Pírata. Hann sóttist eftir að leiða lista Pírata en hafði ekki erindi sem erfiði. Píratar mælast ýmist rétt svo inni á þingi og utan og því óhætt að segja að þeir séu í raunverulegri fallhættu.
Halla Hrund skákar formanni
Líklega eru mestu viðbrigðin í Suðurkjördæmi þar sem Halla Hrund Logadóttir, fyrrverandi orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi, leiðir lista Framsóknarflokksins. Hún skákar sjálfum formanni flokksins, Sigurði Inga Jóhannessyni, sem gaf eftir oddvitasætið og fyrir vikið stefnir í að hann nái ekki á þing samkvæmt könnunum en flokkurinn er að mælast langt fyrir neðan kjörfylgi. Samkvæmt kosningaspám má ætla að flokkurinn haldist inni á þingi.
Halla Hrund var sigurlíkleg í forsetakosningunum síðasta vor og mældist með hæsta fylgið lengst af í baráttunni. Það tók að síga þegar á leið á baráttuna og má segja að hún hafi goldið fyrir taktíska kosningu kjósenda sem vildu ekki sjá Katrínu Jakobsdóttur sem forseta. Atkvæðin fóru því að lokum til nöfnu hennar Höllu Tómasdóttur, sem vann forsetakosningar með nokkrum yfirburðum.
Gekk sæmilega í forsetakosningum, en skarar nú fram úr
Aðeins einn forsetaframbjóðandi sker sig úr þessum hópi, sem er Jón Gnarr sem situr í öðru sæti í Reykjavík suðri. Hann er einnig ólíkur öðrum frambjóðendum að því leyti að hann sat sem borgarstjóri í Reykjavík í fjögur ár og er því ekki óvanur hinu pólitíska ati.
„Þetta dregur kannski helst fram hvað forsetakosningar eru sérkennilegar,“ segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur spurður hvers vegna forsetaframbjóðendum gangi ekki betur í kosningunum. Þegar litið er til forsetakosninganna þá fékk Halla Hrund um 15 prósent í forsetakosningunum, eða 33 þúsund atkvæði. Arnar Þór hefði náð inn á þing ef hann hefði náð sama árangri og í forsetakosningunum en hann náði rétt um fimm prósentum eða um tíu þúsund atkvæðum. Nú mælist hann í um einu prósenti sem leiðtogi Lýðræðisflokksins.
Viktori farnaðist þó ekki vel og endaði vel undir einu prósenti í forsetakosningunum, en aðeins 392 studdu hann. Jón Gnarr náði tíu prósentum atkvæða í kosningunum eða tíu þúsund atkvæðum og endaði fjórði efsti í forsetaframboðinu af tólf framboðum.
Allt önnur lögmál í gangi
„Það er ekki augljóst að forsetaframboð nýtist sem stökkpallur á Alþingi,“ segir Eiríkur. „Það eru bara allt önnur lögmál í gangi. Við leggjum allt of mikið upp úr umfjöllun um einstaka fólk og einstaka mál, en rannsóknir sýna að einstaka frambjóðendur skipta kjósendur litlu máli,“ bætir hann við.
„Fólk hefur sæmilegan skilning á því hvernig lífsskoðun þess fellur að stefnu stjórnmálaflokka, það ræður atkvæðinu, því rannsóknir sýna að kjósendur eru skynsamir,“ segir Eiríkur. Í stuttu máli; ef einhver teldi sig geta tekið stuðning í forsetakosningum með sér inn í alþingiskosningar væri það fjarri lagi. Þetta hefur helst áhrif á stöðu formanns Framsóknarflokksins sem eftirlét Höllu Hrund fyrsta sætið í Suðurkjördæmi. Síðustu kannanir sýna að hann nái ekki kjöri og það hefur verið haft á orði að Halla Hrund sé ekki áberandi í kosningabaráttunni, hvort sem það er rétt eða ekki.
„Ég held að þetta ráðist bara af því hvernig viðkomandi einstaklingur passi inn í flokkana sem ræður mati kjósenda,“ segir Eiríkur og bætir við að lokum, og dregur kannski saman í leiðinni ómöguleika þess að bera þessar tvær kosningar saman: „Það er bara himinn og haf á milli forsetakosninga og alþingiskosninga.“
Athugasemdir