Hvers vegna er eitt stærsta málefni ársins ósýnilegt í kosningaumræðunni?
Saga átaka Palestínu og Ísraels hefur löngum verið talin flókin, jafnvel of flókin til að auðvelt sé að öðlast heildstæðan og óhlutdrægan skilning á henni. Flækjustigið skapar að sjálfsögðu vandamál þegar umræðan um Palestínu og Ísrael er í brennidepli, eins og verið hefur á Íslandi og reyndar um allan heim síðan 7. október 2023.
Sagan er þó auðvitað alls ekki of flókin til að hægt sé að mynda sér skoðun á málefninu, sérstaklega þegar maður áttar sig á fyrirbærinu nýlendustefnu og afleiðingum hennar. Umræða og hvernig hún er mótuð skiptir ætíð máli þegar taka þarf afstöðu til mikilvægra mála og því vil ég byrja þessa grein á nokkrum staðreyndum hvað varðar Palestínu og Ísrael.
„Hamfarirnar“ 1948
Breska heimsveldið, sem þá átti ótal nýlendur um allan heim, lagði grunninn að stofnun Ísraelsríkis með Balfour-yfirlýsingunni árið 1917. Þar var í raun kveðið á um „rétt“ Gyðinga til að eignast ríki í Palestínu. Þann 15. maí 1948 var Ísraelsríki síðan stofnað mjög í óþökk palestínskra íbúa á svæðinu sem þegar urðu fyrir miklu misrétti af hálfu hins nýja ríkis.
Aðdragandi stofnunar Ísraelsríkis er sem sagt nokkuð langur, en 15. maí hófst brottvísun hundraða þúsunda Palestínumanna frá heimalandi sínu af hálfu Ísraels með tilheyrandi eyðileggingu, fjöldamorðum og ofbeldi. Atburðurinn lifir í minni Palestínumanna sem „Hamfarirnar“ eða „Nakba“.
Síðan hafa þeir Palestínumenn, sem enn búa í landi sínu, mátt sæta stöðugu hervaldi Ísraelsríkis, þurft að þola ofbeldi í formi óteljandi hernaðarárása, niðurrifs húsa, gereyðileggingar innviða, markvissra morða og fjöldamorða, sprenginga, linnulauss áreitis, æ minni úthlutun lands og aðskilnaðarstefnu, svo að eitthvað sé nú talið upp.
Hvenær hófst stríðið?
Mikilvægt er að muna að nýlendustefnan er í eðli sínu ofbeldisfull, hún viðheldur sér með ofbeldi. Nú segja margir að stríðið á Gaza (og nú síðast í Líbanon) hafi hafist 7. otóber 2023. En er það svo? Giti Chandra, rannsóknarsérfræðingur við Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum í Reykjavík, bendir í ræðu frá 8. mars 2024, sem finna má í nýjasta tölublaði samtakanna „Ísland-Palestína“, á eftirfarandi:
„Í ljósi nýlendustefnunnar, þá hófst ekkert 7. október. Þetta er bara enn ein dagsetning sem bætist í hóp hundraða síðustu 75 ára af ólögmætu hernámi og valdníðslu.“
Giti minnir okkur einnig á, að engin nýlenda hefur öðlast sjálfstæði vegna góðvildar nýlenduherrans og flestar þjóðir hafa þurft að berjast fyrir sjálfstæði sínu með baráttu og fórnum. Þegar við lesum fyrirsagnir um „hryðjuverkaárásir Hamas“ þá getur verið auðvelt að týna sér í „birtingarmynd illskunnar“, því að okkur hefur lengi verið kennt að það sé einmitt það sem hryðjuverkamenn eru.
Alltaf og ætíð illir.
Augljós brot
Með því að efast um þá framsetningu held ég því ekki fram að hryðjuverk séu réttlætanleg, ég er einfaldlega að benda á að í samhengi nýlendustefnunnar er það nýlenduherrann sem ákveður hvað eru hryðjuverk og hvað ekki.
Árásir Hamas á óbreytta borgara eru vissulega hryðjuverk.
En fjöldamorð, gereyðileggingar, loftárásir, skriðdrekahernaður, sprengingar, og þjóðarmorðið sem Ísraelsríki fremur fyrir augum allra, eru líka hryðjuverk.
Það sem er að eiga sér stað í Palestínu núna eru ekki einungis „hörmungar“ eða „nýtt Nakba“. Hér eiga sér stað augljós brot á mannréttindum og alþjóðalögum (meira að segja líka þeim sem lúta að hernaði), og þess vegna varðar þetta okkur öll, sérstaklega herlausa þjóð eins og Ísland sem á allt sitt undir að alþjóðalög séu virt.
Íhugum aðeins hvenær ofbeldi er álitið hryðjuverk og hvenær ekki, en skilgreiningin á orðinu hryðjuverk er ofbeldi sem framið er gegn almennum borgurum fyrir pólitískan málstað og á að skapa skelfingu.
Ríkishryðjuverk
Það er alveg ljóst að samkvæmt öllum raunverulegum skilgreiningum er ofbeldið sem Ísrael beitir Palestínu nú ein mynd af ríkishryðjuverki (e. state terrorism). Ísrael og stuðningsmenn Ísraels þvertaka hins vegar fyrir að nota þetta orð. Þetta sýnir okkur að hugmyndin um hryðjuverk getur verið pólitískt og siðferðislegt vopn í höndum þeirra sem eru við völd.
Auk þess getur hugmyndin nýst til sjálfsvarnar eða réttlætingar þegar verið er að fremja þjóðarmorð, þjóðernishreinsanir og fjöldamorð, eins og við höfum séð Ísrael gera síðastliðið ár, þar sem heilli þjóð, hinni palestínsku, er refsað fyrir verk vígamanna og/eða hryðjuverkamanna Hamas.
Ég vil einnig benda á mikilvægi þess að að skilgreina gjörðir Ísraelsríkis sem þjóðarmorð, frekar en hörmungar, hópmorð eða eitthvað annað. Skilgreining þjóðarmorðs er ásettur vilji þess að drepa fjölda manns sem tilheyra tiltekinni þjóð eða þjóðarbroti með það að markmiði að gereyðileggja þjóðina og íbúa hennar.
Má drepa saklaust fólk til að „verja sig“?
Ísraelsríki hefur ótvírætt beitt sér að því að bæla niður og eyðileggja sögu Palestínu, en röksemdarfærsla þess á „rétti Ísraels til að vera til“ eða „rétti Ísraelsmanna til að verja sig“ byggir á því að afneita tilvist, sögu og réttindum Palestínu.
Palestínumenn hafa stundum verið skilgreindir sem þjóðarlaust fólk, og í því felst að án ríkisfangs, eða þjóðar til að gæta réttinda sinna, verða menn berskjaldaðir fyrir undirokun og ofbeldi. Ég spyr því, hvers vegna byggir söguþráðurinn um rétt til þess að vera til á því að viðkomandi hafi rétt til að drepa saklausa borgara annarra?
Auk þess þykir mér einkennilegt að tala um rétt til þess að verja sig þegar Ísraelsríki er langöflugasti aðilinn á þessu svæði. Það er bara ekkert eðlilegt við það að horfa upp á Ísraelsríki fremja linnulausa glæpi, og sérstaklega í ljósi þess að alþjóðadómstóll Sameinuðu þjóðanna er í þessum skrifuðu orðum að rannsaka hvort verið sé að fremja þjóðarmorð.
Í brennidepli, en til hvers?
Já, Palestína hefur vissulega verið í brennidepli þetta árið, og því þykir mér forvitnilegt hversu lítið er fjallað um málið í kosningabaráttunni. Sérstaklega þegar almenningur hefur mikið verið að mótmæla ástandinu á Gaza, og það virðist ljóst að greinilegur meirihluti almennings myndi styðja að Ísland tæki betur af skarið í málinu. En það virðist ekki duga til að málið sé ofarlega á lista hugðarefna í yfirstandandi kosningabaráttu. Spurning hvað það segir um samband stjórnmálastéttar við almenning og raunverulegt lýðræðissamband hennar.
Ég hef þess vegna sett mig í samband við nokkra frambjóðendur til þess að heyra hvað þeim finnst um þetta mál. Ég spurði hvar þeir standa þegar kemur að málefnum Palestínu, og hvernig þeir líta á sig sem fulltrúa þjóðarinnar í samhengi þeirra miklu mótmæla sem hafa átt sér stað hérlendis.
Tekið skal fram að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náði ég ekki sambandi við neinn málsmetandi fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Dagbjört Hákonardóttir, Samfylkingu
Dagbjört Hákonardóttir, þingkona Samfylkingarinnar, segir mér að hún hafi sjálf tekið þátt í mótmælum gegn Ísrael og sé mjög skýr í stuðningi sínum fyrir tilvistarrétti Palestínu, en að Ísland hafi ekki haft verðuga fulltrúa til þess að tala fyrir málefninu á alþjóðavettvangi. Það hafi skemmt mikið fyrir orðspori þjóðarinnar hvernig þáverandi utanríkisráðherra, Bjarni Benediktsson, talaði um ástandið á vettvangi Norðurlandaráðs, þar sem hann dró í efa að gerð hafi verið „árás“ á flóttamannabúðir.
Það hefði veikt rödd okkar í þessu máli. Dagbjörtu finnst að Samfylkingin ætti að kalla eftir sameiginlegri röddu Norðurlandaþjóða í beitingu viðskiptaþvingana gegn Ísrael.
Lenya Rún, Pírötum
Eins fullyrti Lenya Rún, varaþingmaður Pírata, að hún standi að sjálfsögðu með Palestínu og íbúum þar „sem eru að verða fyrir linnulausum árásum af hendi Ísraels, sem byrjaði ekki 7. október í fyrra heldur hefur þetta staðið yfir í áratugi. Það er áhyggjuefni að alþjóðasamfélagið bregst ekki við af meiri hörku þegar það er þjóðarmorð að eiga sér stað í beinni útsendingu fyrir allra augum og stendur það skýrt í stefnu Pírata: Ísland á aldrei að sitja hjá þegar þjóðarmorð eiga sér stað, eins og nú stendur yfir í Palestínu.“
Sindri Geir, VG
Sindri Geir, prestur og frambjóðandi Vinstri grænna, vekur athygli á ofsafengnum viðbrögðum Ísraels, og segir að hann sé að upplifa það í fyrsta skipti á ævinni að horfa upp á hreina og beina tilraun til þjóðarmorðs: „Ég einhvern veginn upplifi að þetta hafi aldrei verið svona grímulaust.“
Hann vekur einnig athygli á þögguninni sem er að eiga sér stað, sérstaklega á samfélagsmiðlum, og mætti hagsmunaaflanna sem vinna markvisst að því að halda upplýsingum frá fólki um það sem raunverulega á sér stað.
Ásmundur Einar, Framsókn
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, segir að Framsókn hafi lengi stutt tveggja ríkja lausn, og lýst yfir því að þau fordæmi „aðgerðir Ísraels á Gaza“.
Þegar ég spurðist fyrir um hvort viðskiptaþvinganir gegn Ísrael væru á stefnuskrá flokksins þá segir hann að mögulega myndi flokkurinn styðja slíkt, en að Framsókn hafi ekki ályktað um það „sem stjórnmálaflokkur“, þó að hans skoðun sé mjög skýr, að það eigi að fordæma alls staðar „þau dráp sem eiga sér þarna stað bæði á konum og sérstaklega börnum“ og að „við eigum að gera allt sem við getum til þess að stöðva það og þar á meðal viðskiptaþvinganir, þannig að það er mín persónulega skoðun“.
Hann nefnir einnig Barnasáttmálann og að við séum með sáttmála gegn ofbeldi svo að það sé augljóslega „einhver feill í alþjóðakerfinu“ að svona framferði sé látið líðast.
Jakob Frímann, Miðflokknum
Ég ræddi einnig við Jakob Frímann, frambjóðanda Miðflokksins, en hann styður „tveggja ríkja lausnina“ og benti mér aðeins á að „harmleikurinn þarna suður frá flokkist ekki undir kosningamál á Íslandi“ en að stutta svarið sé friður með öllum sem einum.
Sigmar Guðmundsson
Sigmar Guðmundsson, frambjóðandi Viðreisnar, er einnig á því máli að utanríkismál séu sjaldan í umræðunni í kosningum og að honum þyki oft leiðinlegt hversu fá mál komist að í kosningabaráttunni, sérstaklega mál sem gerast utan landsteinanna. Viðreisn hafi beitt sér í tvígang innan Alþingis til þess að fordæma dráp á saklausum borgurum, og hvetja til rannsóknar á stríðsglæpum, „og einnig að krefjast þess að allir gíslar yrðu látnir lausir“, en að þvingunaraðgerðir ættu alltaf að vera eitthvað sem þjóðir ættu að gera saman.
Sósíalistaflokkurinn
Sósíalistaflokkur Íslands er skýr í afstöðu sinni en á heimasíðu flokksins má lesa tilkynningu sem segir meðal annars:
„Í augsýn alls heimsins er framið þjóðarmorð sem verður að stöðva“ og enn fremur að íslensk stjórnvöld séu samsek þjóðarmorði Ísraels:
„Sósíalistaflokkur Íslands fordæmir aðgerða- og sinnuleysi íslenskra stjórnvalda á meðan Ísraelsríki fremur skipulagt þjóðarmorð í Palestínu og fremur fjöldamorð í Líbanon með fulltingi Bandaríkjanna.“
Inga Sæland, Flokki fólksins
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segist eingöngu vilja frið:
„Við finnum fyrir miklum vanmætti, ef ég á að segja þér alveg eins og er. En við fordæmum þetta, af öllu hjarta. Fórnarlömbin eru blásaklaust fólk, börn, konur, gamalmenni. Blásaklaust fólk, sem er notað sem hlífðarskildir fyrir hryðjuverkapakk sem er alveg sama um fólkið sem er verið að slátra. En við fordæmum þetta. Og við viljum frið.
Og ég vildi óska þess að ég ætti þennan töfrasprota, til að sveifla honum. Þannig að það væru ekki geisandi 36 stríð á jörðinni núna. Þar á meðal eitt sem er okkur ansi mikið nær, og er kannski eitt það voveiflegasta sem við höfum þurft að horfast í augu við frá seinni heimsstyrjöldinni. Og það er stríð Rússa í Úkraínu ... Í stað þess að reyna að finna sökudólga og efla ófriðarbál og allir séu að rífast og allt þetta, þá eigum við að reyna að tala við þessa aðila á þeim vettvangi sem það er mögulegt til að hvetja, og til þess að tala saman. Koma á friði.“
Eins og sést eru allir sammála um að fordæma eigi það sem er að eiga sér stað. Það er gott og blessað en þótt það hafi heyrst frá fjölmörgum íslenskum stjórnmálamönnum allt síðasta ár hefur ekki verið farið í nokkurs konar aðgerðir til þess að sýna fram á að Ísland styðji ekki Ísrael.
Ekki bara „harmleikur þar suður frá“
Ég held að það sé ágætt að nefna að Palestínumenn þurfi hvorki töfrasprota né einhvers konar almennt ákall um „frið á jörð“. Svoleiðis innihaldslaus orð án aðgerða er einmitt ástæða þess að þjóðarmorðinu hefur verið leyft að viðgangast. Þetta er ekki bara „harmleikur þarna suður frá“.
Almenningur á Íslandi heldur áfram að reyna að fá stjórnmálamenn til þess að hlusta á áköll sín, eins og aðrar þjóðir eru smátt og smátt byrjaðar að gera, en því miður hefur stjórnmálastétt Íslands lítið gert til þess að hindra framferði morðóðs ríkis sem felur sig á bak við hugmyndina um „stríð gegn hryðjuverkum“, nýtir sér vestræna fordóma gagnvart útlendingum, og leikur þannig lausum hala á alþjóðasviðinu.
Þær yfirlýsingar sem ég fékk frá hinum ofannefndu stjórnmálamönnum bendir til að þeim sé flestum persónulega nóg boðið. Vonandi dugar það til að ný ríkisstjórn taki dýpra í árinni um þetta mál en stjórnvöld hafa gert hingað til.
Athugasemdir