Ráðstefna Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsmál (COP) hefur nú verið haldin í olíuríki þrjú ár í röð, í Aserbaídjan í ár, í fyrra í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og árið 2022 í Egyptalandi.
Forsetar ráðstefnunnar í fyrra og í ár eiga það sameiginlegt að vera einnig vel innvinklaðir í ríkisolíufyrirtæki landsins, Sultan Al Jaber í Dubai og Mukhtav Babayev hér í Aserbaídjan. En viðmót þeirra eru mjög ólík. Eftir Sultan Al Jaber voru höfð þau orð að ekki þyrfti að fasa út jarðefnaeldsneyti, það væri of mikilvægt. Þetta hafði hann sagt einhverjum vikum áður en COP28 hófst. Ummælin voru hinsvegar dregin fram í dagsljósið á hápunkti ráðstefnunnar í Dubai.
Olíufurstinn brást þá við með því að afsaka sig, eða að minnsta kosti segja orðin tekin úr samhengi og sagði fulla ástæðu til þess að fasa út jarðefnaeldsneyti en að það þyrfti að gera hægt og passa upp á réttlát umskipti. Notaði réttlátu umskiptin sem ástæðu til þess að halda áfram að bora eftir olíu og selja hana en lofaði að hætta því. Seinna. Öfugsnúið og ef til vill allt saman leikrit, hvað veit maður svo sem en þetta varð allavega til þess að orðalag textans í hnattrænu stöðutökunni (Global Stocktake), sem var samþykkt á síðasta COP, nefnir útfösun jarðefnaeldsneytis. Það skapaðist meiri pressa. Á hverju COP verður til texti sem á að kjarna það hvernig ríkjunum gengur að ná markmiðum sínum. Og þegar það gengur illa, eins og núna, þarf að skerpa á leiðbeiningunum. Fasa út jarðefnaeldsneyti, auka hlutfall endurnýjanlegrar orku, binda jarðveg, minnka neyslu, o.s.frv.
„Tölurnar segja okkur hins vegar að Aserbaídjan fellur mjög vel að skilgreiningu okkar á olíuríki“
Ilham Aliyev, forseti Aserbaídjan, virðist hins vegar vera í fullkominni afneitun og málflutningurinn er eftir því. Segir Aserbaídjan alls ekki vera olíuríki og vænir þær þjóðir sem halda því fram, um falsfréttir/falskan áróður - „Fake News“. Þar að auki sagði hann olíuna vera guðsgjöf og það sé eðlilegasti hlutur í heimi að nýta hana áfram á meðan fólk þarf á olíunni að halda. Og í hans umboði starfar Babayev forseti COP29.
En tölurnar segja okkur hins vegar að Aserbaídjan fellur mjög vel að skilgreiningu okkar á olíuríki. 47,8% af landsframleiðslu Asera er til komin vegna olíu og 92,5% útflutningstekna. Efnahagur ríkisins myndi hrynja ef olíuframleiðslu yrði hætt á morgun en forseti ráðstefnunnar tönnlast á því að olíuframleiðsla ríkisins sé ekki nema 0,7% af olíuframleiðslu heimsins. Eins og það sé sáralítið. Og skýrsla IPCC – Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar segir mikilvægt að fasa út notkun á jarðefnaeldsneyti og alls ekki eigi að opna nýjar jarðefnaeldsneytisvinnslur eftir árið 2020 sem er auðvitað löngu liðið.
Mér varð bylt við að heyra þennan málflutning því hann gefur tóninn fyrir komandi samningaviðræður. Á þessum síðustu og (verstu) tímum þurfa textar alþjóðasamninga og sáttmála að vera kýrskýrir því þeir eiga einmitt að segja ríkjunum hvernig þau ætla að hjálpast að á heimsvísu við að halda hlýnun jarðar vel undir 2 gráðum og eins nálægt 1,5 gráðu og hægt er. Sem mörgum þykir orðið hæpið að náist, en verða samt einhvern veginn að nást. Á COP eiga ríkin að ræða það sem gengur vel og það sem gengur ekki vel. Olíuríkin þurfa að viðurkenna vanda sinn og horfast í augu við vandamálið. Hvernig þjóð getur markað þá stefnu að hætta þjóðhagslega mikilvægum atvinnurekstri, á borð við olíuvinnslu, vegna þess að ástandið í loftslagsmálum krefst þess einfaldlega? Ég veit ekki svarið og það er einmitt eitthvað sem þarf að ræða hér.
En það er alveg verið að ræða hluti og vonast er til þess að samkomulag náist um fjárveitingar til þróunarríkja, kolefnismarkaði, samdrátt og aðlögun í þessari viku.
„Óneitanlega finnur maður til pirrings yfir því að þau sem stýra fundinum séu með það hugarfar að olían sé guðsgjöf“
Því það eru fjölmörg lönd hér sem beita sér fyrir sterkum textum og aðgerðum. En óneitanlega finnur maður til pirrings yfir því að þau sem stýra fundinum séu með það hugarfar að olían sé guðsgjöf . Og það verður að segjast að mannréttindi, jafnrétti kynjanna, félagslegt réttlæti og fleiri mál sem óneitanlega tengjast loftslagsmálum beint,eru ekki mál þar sem Aserar geta sett sig á háan hest.
Þá er ekki einusinni hægt að notfæra sér það þegar kannski er til staða blanda af einlægum vilja og tilgerð hjá þeim sem stýra ráðstefnunni, þannig að samningstextinn verði metnaðarfyllri. Sultan Al Jaber, olíufursti í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, var kannski að reyna að selja olíu með vinstri hendinni en hann var að framleiða endurnýjanlega orku með hægri og talaði með þeim hætti að endurnýjanlega orkan myndi taka við.
Ilham Aliyev, hæstráðandi hér í Aserbaídjan, virðist ekki ætla að horfast í augu við þær áskoranir sem hann stendur frami fyrir heldur horfa til baka, á olíupumpurnar og segir við sjálfan sig. Ég á þetta, ég má þetta.
„Sá texti sem er samþykktur hér er í rauninni lægsti samnefnarinn en samningurinn byggir á að öll aðildarríkin séu sammála“
En þá er gott að minna sig á að sá texti sem er samþykktur hér er í rauninni lægsti samnefnarinn en samningurinn byggir á að öll aðildarríkin séu sammála. Það er því ekkert sem stendur í vegi fyrir því að við gerum betur og göngum lengra. Alveg sama hvað samþykkt er hér.
Bretar hafa til dæmis skilað nýjum markmiðum en öll ríkin eiga að skila nýjum markmiðum fyrir COP30 á næsta ári. Bretar skila snemma ásamt Brasilíu og UAE. Bretar ætla að draga úr losun um 81% fyrir árið 2035 og setja þannig fordæmi fyrir þau ríki sem á eftir koma. Ísland getur beitt sér á þennan hátt. Ísland getur svo vel orðið fyrirmynd í loftslagsmálum. Ég vonast til þess að þeir flokkar sem kjörnir verða í næstu kosningum sjái tækifærin sem í því felast.
Kynnið ykkur stefnur flokkanna og mætið á viðburð Landverndar, Ungra umhverfissinna og fleiri náttúruverndarsamtaka þann 23. nóvember klukkan 14 í húsnæði Íslenskrar Erfðagreiningar þar sem fulltrúar allra flokkana mæta og ræða um umhverfis- og loftslagsmál og taka við einkunn sinni frá Ungum umhverfissinnum undir verkefni sólarinnar.
Athugasemdir