Það var ekki burðugt upplitið á mér einn gráan vinnudag í október. Ég renndi yfir niðurstöður umfangsmikillar íslenskrar rannsóknar þar sem fram kom að 40 prósent kvenna hérlendis hafa orðið fyrir líkamlegu og/eða kynferðisofbeldi á lífsleiðinni. Hins vegar veit ég að á Íslandi þurfa fæstir þeirra sem naugða konum að sitja í fangelsi. Á meðan gerendameðvirknin blómstar er vegið að nær öllum konum sem voga sér að minnast á sársauka sinn, og sér í lagi verður grimmd landans þegar kona velur lagalegu leiðina að réttlæti gagnvart „mektarmönnunum okkar“. Samfélagsmiðlar loga og andfélagslegir í athugasemdum upplifa gósentíð. „Ekki var maður alltaf að kæra þótt einhver káfaði á manni á böllunum í denn,“ skrifar geðill kona undir frétt og setur á sig snúð. Feðraveldið er nefnilega pest sem líka leggst á konur. Froðufellandi æpa lyklaborðsriddararnir „Hún lýgur!“ og „Hún er bara á eftir peningunum!“ líkt og við séum í sjónvörpuðu amerísku skaðabótamáli einhverrar stjórstjörnunnar. Enginn verður ríkur af því að kæra kynferðisbrot hérlendis. Þú tapar hins vegar alltaf sálarheill.
Dónakallar
Þennan dag voru kvenfjandsamlegu dónakallar Miðflokksins áberandi á samfélagsmiðlum. Þeir voru að krefjast endurkomu sem virðist ætla að vera auðfengið hjá minnisskertri þjóð. „Þarna loksins kom skrokkur sem typpið á mér dugði í“ og „þú getur riðið henni, skilurðu,“ sagði Bergþór Ólason framboðs-, Klausturs- og dónakall um Lilju Alferðsdóttur ráðherra. Stuttu seinna kórónaði hann kvenfyrirlitningu sína þegar hann kaus gegn auknum rétti kvenna til þungunarrofs á Íslandi. „Trumpisminn er nær en okkur grunar,“ hugsaði ég og hrollur fór um mig.
Þennan ömurlega vinnudag las ég líka um mál hinnar frönsku Gisele Pelicot. Henni var byrlað ólyfjan oft og mörgum sinnum af eiginmanni sínum til áratuga og svo bauð hann 50 mönnum að koma á heimili þeirra og nauðga henni. Hann tók þetta síðan allt upp á myndbönd og geymdi. Hún valdi að hafa réttarhöldin opinber til að skila skömminni. Mennirnir á myndböndunum hafa flestir mótmælt þessum opnu réttarhöldum og margir þeirra telja að sér vegið með því að sýna eigi myndböndin í réttarsalnum. Ég hristi hausinn, tók þungt andvarp og var mikið niðri fyrir og óglatt eftir lesturinn. Ég óð inn á kaffistofu í mannýgum ham og mætti þar sterkum aðgerðarsinna sem sagði mér að aktívista-þreytan væri sönn en alltaf tímabundin. Hún ráðlagði mér að láta þreytuna líða úr mér svo ég hélt heim á leið en endaði einhvern veginn ein í IKEA, grá á litinn og gleðisnauð.
Súkkulaði og smákaka
Ég gekk inn í IKEA og vildi vera látin í friði. Fela mig í marglituðum sængurverum og láta mig dreyma um nýju MALM kommóðuna sem var nýkomin í einhvers konar diskólituðu silfri. Ég vildi að sú hugsun væri hámark vandkvæða minna þetta eftirmiðdegið en ekki óréttlæti og ógeðskallar. Ég arkaði brúnaþung að rúllustiganum og hélt innreið mína á aðra hæð. Stuttu inn í búð mættu mér tvö ungmenni í einni af eldhúsuppstillingunum. Það var augljóslega gaman hjá þeim en gleði þeirra angraði mig svo ég setti enn þyngra í brýrnar og ætlaði að skunda hratt fram hjá. „Má ekki bjóða þér upp á heitt súkkulaði og smáköku?“ sagði ungi maðurinn í uppstillingareldhúsinu og horfði vinalega á mig. Stúlkan við hliðina á honum brosti líka til mín á meðan hún hrærði í pottinum. Gleði þeirra var einlæg og það var eins og þau vildu mér gott. Kannski sást utan á mér hvað ég var buguð. „Jú, andskotinn hafi það, ég þarf sykur,“ hugsaði ég og gekk til þeirra þungum skrefum, brosandi aumingjalega út í annað og enn þá frekar fýld út í hitt. „Njóttu dagsins,“ sagði stúlkan og brosti. „Eitruð jákvæðni,“ hugsaði geðilla ég. Mér er ekki viðbjargandi.
Jólasörur og gamalt fólk
Diskólitaða MALM kommóðan var of dýr fyrir mig þannig að ég datt enn dýpra ofan í volæðið og notaði það sem fítónskraft til að sjá heiminn enn svartari augum. „Helvítis verðbólgan,“ hugsaði ég, líkt og það væri ástæðan fyrir því að ég gæti ekki bruðlað, fremur en skammsýni mín í fjármálum. Ég hélt áleiðis inn í matsalinn og náði mér í kjötbollur og svo sá ég að jólasörurnar voru komnar. Það brá fyrir gleði í hjarta mínu en hún var skammvinn þar sem ég minnti mig á að jólasaran settist örugglega bara á rassgatið á mér og yrði fljótt að fitu sem færi síðan í verkfall. Ég settist samt við át og lék við allar heimsins grunsemdir í garð sem flestra en þá heyrðist sagt blíðlega: „Verði þér að góðu, vinan.“ Ég leit upp og gömul falleg kona með göngugrind á næsta borði brosti til mín. Silfurgrátt hár, sólbjört og sál í stíl. Þessi fallega, gamla kona sem var lítillega bogin í baki afvopnaði mig aðeins. Ég lét skjöldinn síga en þó bara rétt fyrir neðan höku.
Sigurður sómakall
Ég hélt á tveimur pokum út á bílastæðið og hugði á viðburðarlitla heimför úr Garðabænum. Þegar ég nálgaðist bílinn mætti mér síðasta hálmstráið. Loftlaust var á aftari dekkinu vinstra megin. Ég missti pokana í jörðina og andvarpaði eymdarlega. Svona andvarp eins og heyrist helst í miðaldra konum þegar þær plokka fyrsta hárið á hökunni. Mér var allri lokið. Ég gafst upp og hringsnérist um sjálfa mig. Ég opnaði skottið til að finna varadekkið og var á sama tíma að reyna að ná í manninn minn til þess eins að fá útrás fyrir ósanngirni heimsins. „Heyrðu, vina, það er sprungið hjá þér.“ Ég sá út undan mér eldri mann í iðnaðarbíl sem var að veita vandræðum mínum athygli. Ég hringsnérist enn hraðar í kringum mig og mátti engan veginn við svona athugasemdum. Það næsta sem ég veit er að maðurinn stendur fyrir aftan mig. „Er þetta 2012 árgerð og ertu á 14 tommu dekkjum?“ Við hvorugri spurningunni vissi ég svarið og hreytti því hálf ónærgætilega: „Ég hef ekki hugmynd um það!“ á meðan ég leitaði að varadekkinu. Áður en ég vissi af stendur maðurinn við hliðina á mér og gerir sig líklegan til að ganga til verka. „Ætlar þú að hjálpa mér?“ sagði ég hissa við kallinn, enda önugur femínisti sem farið er að slá í. Maðurinn brosti breitt og sagði: „Já, að sjálfsögðu.“ Hann minnti mig á pabba minn heitinn. Iðnaðarkall af gamla skólanum sem reykti sígarettur. Ekkert rafrusl hér á ferð. Mér finnst alltaf meiri reisn yfir fólki sem reykir alvöru sígarettur. Hann sagðist heita Sigurður og vera úr Njarðvíkunum, eins og fólk gjarnan segir þegar það er þaðan. Við töluðum um hitt og þetta. Hann sagði dekkin mín vera ónýt, sparkaði í þau eins og fagmenn gera og sagðist síðan eiga dekk fyrir mig. „Og hvað kostar það?“ sagði ég og setti ögn í brýrnar. „Ekkert,“ sagði Sigurður sómakall sem sagðist vera að stofna bifreiðaverkstæði með félaga sínum. Ég tók það að sjálfsögðu ekki í mál og heimtaði að greiða fyrir dekkin: „Ja, þú um það, vinan,“ sagði hann þá enn með sígarettuna í munnvikinu um leið og hann var búinn að koma varadekkinu fyrir á methraða. Við kvöddumst síðan með þann ásetning um að hittast síðar í vikunni upp á dekkjaskiptin. Ég sagði við hann í lokin að ég væri ómetanlega þakklát fyrir hjálpina hans því ég væri búin að eiga ömurlegan dag. Þá brosti hann bara og sagði: „Þá er ég búinn að laga hann,“ og rauk svo á brott með sígarettuna enn lafandi í kjaftinum. Hann var að verða of seinn að sækja konuna sem var að versla gardínur í IKEA.
Ég settist upp í bíl og langaði að skæla. Eftir ömurlegan vinnudag þar sem óréttlætið var yfirþyrmandi og heimsmálin svört fann ég margþætta manngæsku landans umfaðma mig í IKEA. Innan um tárin tók ég gleði mína á ný. Samhygð ókunnugra hafði dimmum degi í dagsljós breytt fyrir fúllynda femínistann. Það er von fyrir okkur enn.
Athugasemdir