Það er til fólk sem nýtur þess að vera miðpunktur athyglinnar og sækist eftir því. Aðrir forðast sviðsljósið eins og hægt er. Báðar manngerðirnar geta verið skapandi og orðið listamenn en sjálfskynning, sem er óumflýjanlegur raunveruleiki hinna skapandi stétta, hentar ekki öllum. Hvor ætli nyti sín betur í sófanum hjá Gísla Marteini, Gyrðir Elíasson eða Almar í kassanum? Er hægt að staðhæfa að annar sé betri listamaður en hinn?
Frægð og fjármögnun
Í Kastljósi 9. október var innslag um árlegt HönnunarÞing Hraðið, miðstöðvar nýsköpunar á Húsavík. Þemað í ár var hönnun og tónlist og flutti Snæbjörn Ragnarsson, stofnmeðlimur þjóðlaga- og víkingaþungarokks hljómsveitarinnar Skálmaldar, þar fyrirlestur. Í viðtali við Kastljós svaraði hann spurningunni um þátt hönnunar í tónlist og var hressilega heiðarlegur. Tónlistarmenn græða ekkert á að gefa út tónlist.
Skálmöld fór í tónleikaferð um Evrópu og Ástralíu fyrr á þessu ári en miðasala á tónleikum skilar nánast engu í kassann. Hljómsveitin er heimsfræg í þungarokksheiminum, ekki bara á Íslandi. Hljómsveitarmeðlimir hafa tekið upp plötu með Sinfóníuhljómsveit Íslands en tónlistin gefur ekkert af sér. Þeir lifa á að hanna og selja boli sem aðdáendur og aðrir kaupa og ganga í.
„Tónlistarmenn græða ekkert á að gefa út tónlist
Aldrei komist nær kulnun
Þetta er ein útgáfa sjálfsauglýsingar sem allir listamenn þurfa að stunda til að framfleyta sér og koma list sinni á framfæri. Skálmöld klæðir aðdáendur sína, og aðdáendur fallegrar þungarokkshönnunar, í boli og græðir, að sögn Snæbjarnar „miklu, miklu meira“ á því en á tónlistinni.
Annar listamaður sem ég talaði við um daginn sagði að hann hefði aldrei komist nær kulnun sem listamaður en þegar hann hefði sjálfur þurft að koma verkefnum sínum á framfæri. Hann er söngvari, leikari, leikskáld, leikstjóri, dansari og söngkennari, en eftir niðurdrepandi tímabil sjálfsauglýsinga er hann búinn að gleyma af hverju hann er að þessu. Hann gleymir fyrir hverju hann hefur ástríðu. Að skapa getur verið erfitt ferli en að auglýsa afraksturinn dag og nótt er margfalt erfiðara. Sömu sögu sagði mér leikari sem leikur aðalhlutverkið í nýrri íslenskri bíómynd. Myndin var eingöngu fjármögnuð af þeim sem stóðu að gerð hennar og án styrkja og baklands stórra framleiðslufyrirtækja voru engir peningar fyrir hendi til að kosta auglýsingar. Leikarar og önnur sem komu að myndinni eru upptekin við að setja inn færslur á samfélagsmiðla til að auglýsa myndina og hvetja vini sína og fylgjendur til að koma á sýningar hennar. Þau vona að gamlar frænkur og skólafélagar úr grunnskóla freistist til að kaupa miða. Leikaranum finnst þetta sjálfshól vandræðalegt og hann á gífurlega erfitt með að upphefja sjálfan sig á þennan hátt; að þykjast vera fullur sjálfstrausts, sannfærður um eigin snilld og myndarinnar og hvika hvergi.
„Leikaranum finnst þetta sjálfshól vandræðalegt
Frægðin fyrst
En þetta er orðið hlutskipti listamanna. Þetta er það sem listamenn verða að gera. Vinkona mín sem lærði ritlist í Bretlandi sagði mér að sum forlög setji það í samninga að höfundar auglýsi sig á sínum persónulegu samfélagsmiðlum. Hún heyrði í náminu að höfundar fengju jafnvel ekki útgáfusamninga nema vera með ákveðið marga fylgjendur á Instagram.
Íslenskur útgefandi tók í sama streng þegar hann var að ræða jólabókaflóðið. Forlagið hans auglýsir allar bækurnar sem koma út um jólin en treystir á að höfundarnir séu virkir á eigin samfélagsmiðlum, setji inn færslur daglega, sýni hvernig manneskja er á bak við bókarkápuna og vinni auðvitað hug og hjarta almennings til að bókin seljist. Rithöfundar og skáld á Íslandi vita að eftir að þau hafa unnið að bókum sínum mánuðum eða árum saman þurfa þau að gyrða sig í brók og auglýsa sjálfir bókina linnulaust. Þau þurfa að vera hnyttin, áhugaverð, spennandi og finna leiðir til að vekja athygli. En þetta er mannskemmandi skrípaleikur. Markaðsfræði er mastersnám í HÍ og HR og í HA og á Bifröst er hægt að taka BS gráðu í viðskipafræði með áherslu á markaðsfræði. Það er ástæða fyrir því að þetta er háskólamenntun. Það er gríðarlega erfitt að greina markaðinn, að vita hvað virkar og hvað ekki. Fólk með próf í þessu veit ekki einu sinni alltaf hvað það er að gera.
Það er nóg til inni
Hvernig er hægt að réttlæta mismunun listamanna á grunni getu þeirra til að berja sér á brjóst og sýna stélfjaðrirnar? Að leggja að jöfnu listræna hæfileika og auglýsingafærni er fáránlegt. Í samfélagi þar sem ekki er langt síðan bestu húsmæðurnar afsökuðu viðgjörninginn og lítilræðið ef ekki voru 17 sortir á borðum er listamönnum gert að auglýsa sig eins og leikskólabörn á sundlaugarbakka. Sjáðu mig! Sjáðu mig! kalla þau áður en þau henda sér í laugina. Getum við sem vel stætt vestrænt samfélag ekki gert eitthvað í að redda þeim kútum? Gætum við lært af miðöldum og gert það samfélagslega eftirsóknarvert fyrir eignafólk að styrkja listamenn? Væri hægt að leggja „menningarskatt“ á tekjuhæsta 1% þjóðarinnar? Væri mögulegt að námunda árstekjur þeirra við næstu milljón og leyfa listamönnum þjóðarinnar að eiga afganginn?
Athugasemdir