Donald Trump vann forsetakosningarnar þrátt fyrir að meirihluta kjósenda líkaði ekki sérlega vel við persónu hans, háttarlag og talsmáta – samkvæmt könnunum. Raunar líkaði fleiri kjósendum vel við Kamölu Harris en Trump. Samt vann hann öruggan sigur. Hann hlýtur því að hafa gert eitthvað rétt.
Kjósendum fannst samfélagið á rangri leið
Kannanir Gallup í Bandaríkjunum höfðu sýnt að um 72% kjósenda hafa verið óánægðir með hvert landið hefur verið að stefna í seinni tíð. Það er óvenju hátt. Fyrst svo var hlaut róðurinn að verða þungur fyrir sitjandi stjórn Demókrata og fyrir Kamölu Harris frambjóðanda þeirra, jafnvel þó hún stæði sig vel í baráttunni.
Og hvað var það helsta sem olli óánægju kjósenda?
Jú, þar var efst á baugi efnahagurinn og afkoman, ekki síst hjá þeim tekjulægri. Annað sem mikil óánægja var með var mikill straumur ólöglegra innfytjenda í seinni tíð, sem verkafólk lítur á sem keppinauta um störf og kjör á vinnumarkaði og jafnvel sem ógn við samfélagslegan stöðugleika.
Í sveifluríkjunum Pennsylvaníu, Michigan og Wisconsin, sem áður voru hjarta bandaríska iðnríkisins, var verka- og iðnaðarfólk sérstaklega óánægt með mikla hnignun og samdrátt iðnaðarframleiðslu á síðustu áratugum. Svo mikið var um lokanir verksmiðja þar að þessi svæði fengu á sig hið niðrandi heiti „ryðbeltið“.
Verkafólk og iðnaðarmenn þar höfðu lengi verið traustir kjósendur Demókrata, en margir þeirra líta nú svo á að flokkurinn hafi átt mikinn þátt í brotthvarfi verksmiðjanna með alþjóðavæðingarstefnu sinni og fríverslunarsamningum Clintons. Þar með hafi flokkurinn snúið baki við hagsmunum verka- og iðnaðarfólksins. Margir misstu vel launuð störf og þurftu að þola atvinnueysi eða taka lakari störf á verri kjörum. Það risti djúpt.
Tal Demókrata um lýðræði eða ímyndapólitík, um kvenfrelsi og kynhneigðarpólitík, féll auðveldlega í skuggann af áhyggjum af erfiðri afkomu á heimilum fólks í lægri og milli tekjuhópum. Buddan vóg þyngst. Hið fræga slagorð James Carvilles, kosningaráðgjafa Bill Clintons („It‘s the economy – stupid“), átti því við einsog oft áður. Merkilegt er að Hillary og Kamala og þeirra fólk skyldu ekki hafa áttað sig á því. Það vantaði kröftugri kjarapólitík fyrir launafólk hjá þeim, bæði 2016 og nú.
Demókratar höfðu misst áttirnar
Flokkur Demókrata hafði áður verið helsti flokkur alþýðufólks í Bandaríkjunum, eins og krataflokkar almennt voru á Vesturlöndum á 20. öldinni. Í seinni tíð hafa þeir í meiri mæli breyst í flokka þar sem háskólafólk hefur verið mest ráðandi og tengslin við verkalýðsstéttina rofnuðu víðast í vaxandi mæli, ekki síst í Bandaríkjunum. Ég fjalla ítarlega um þessa þróun á Vesturlöndum og tengsl hennar við alþjóðavæðinguna í bók minni „Baráttan um bjargirnar“, sem kom út hjá Háskólaútgáfunni árið 2022.
Verkalýðsstéttin fór því víða á vergang í heimi stjórnmálanna og dreifði sér á aðra flokka sem virtust svara betur hagsmunum verkafólks og millihópa launafólks. Oft voru það flokkar sem börðust gegn helstu afleiðingum alþjóðavæðingarinnar (hningun iðnaðar á Vesturlöndum, versnandi afkomu verkafólks og auknum fjölda innflytjenda, svo dæmi séu nefnd). Stundum voru það lýðhyggjuflokkar (popúlistar) sem tjölduðu gylliboðum í velferðarmálum í bland við andstöðu gegn innflytjendum.
Demókrataflokkurinn í Bandaríkjunum hafði tekið alþjóðavæðingu frjálsra markaðshátta og viðskipta mjög upp á sína arma og minna gætt að hagsmunum verkafólks í þeim umskiptum sem alþjóðavæðingunni fylgdu. Þess sáust merki í kosningabaráttu þeirra í forsetakosningunum 2016, þegar þeir töpuðu fyrir Trump í fyrra skiptið – og svo einnig nú.
Demókratar lögðu mesta áherslu á kvenfrelsi og lýðræði í baráttunni núna en virtust leggja minni áherslu á að bæta hag og afkomu verkafólks, sem hefur það slæmt víða í Bandaríkjunum. Helst töluðu þau um að bæta afkomu millistéttarinnar, hækka barnabætur, og bæta stöðu hennar í „landi tækifæranna“ („opportunity economy“). Það hefði því ekki átt að koma á óvart að Demókratar misstu enn meira fylgi meðal verkafólks nú en þeir höfðu haft í forsetakosningunum 2020, þegar Joe Biden náði betur til verkafólks en Hillary Clinton hafði gert 2016.
Trump talaði til verkafólks og iðnaðarmanna
Trump lagði sig hins vegar sérstaklega eftir því að tala til hagsmuna verkafólks og iðnaðarmanna, bæði 2016 og núna og lofaði að bæta hag þeirra, með því að endurheimta þúsundir verksmiðja með vel launuð störf og bægja innflytjendum frá og jafnvel reka mikinn fjölda þeirra úr landi. Þannig sagðist hann ætla að gera Bandaríkin "frábær á ný" ("Maka America Great Again" - MAGA).
Þetta talaði vel til verkafólks og iðnaðarmanna og skilaði því að Repúblikanaflokkurinn, sem lengst af hafði verið flokkur fyrirtækja og auðmanna, er nú orðinn meiri verkalýðsflokkur en Demókrataflokkurinn meðal hvítra kjósenda (sem eru um 70% íbúa landsins). Það eru mikil umskipti.
Það er vissulega mótsagnarkennt að verkafólk skuli hafa snúið sér að auðmanninum Donald Trump og Repúblikanaflokknum. En verkafólkið hafði beinlínis reynt það á eigin skinni að Demókrataflokkurinn hafði yfirgefið þau. Þangað virtist því lítið að sækja, nema fyrir konur.
Málflutningur Trumps fékk þannig hljómgrunn hjá verkafólki og iðnaðarmönnum (mest hjá hvítum körlum í lægri stéttum). Lykillinn að þeim árangri fólst í því að kjarninn í stefnu Trumps tók á sumum af göllum alþjóðavæðingarinnar. Það gerði málstað hans trúverðugri.
Pólitík Trumps tekur á sumum göllum alþjóðavæðingarinnar
Hvert er helsta inntak alþjóðavæðingarinnar, sem hefur ágerst á síðustu áratugum?
Jú, það er áherslan á opnari landamæli, aukið viðskiptafrelsi, minna vægi þjóðríkisins og aukið hlutverk alþjóðlegra samninga, ekki síst viðskiptasaminga. Allt er þetta grundvallað á meintum kostum óheftari markaðshátta, sem þorri hagfræðinga á Vesturlöndum styður við og segir til hagsbóta fyrir almenning.
Reynslan hefur þó sýnt að alþjóðavæðingunni fylgja ýmsir alvarlegir gallar. Sem dæmi má nefna hnignun iðnaðar í vestrænum ríkjum (og efling iðnaðar í Kína og þróunarlöndum), minna hlutverk þjóðríkja gagnvart heimsmarkaði og alþjóðasamningum, aukinn ójöfnuður (ávinningur hagvaxtar hefur runnið í meiri mæli en áður til eigenda fyrirtækja og fjármagns) og rýrnun réttinda og kjara launafólks. Samhliða þessu hefur víða grafist undan lýðræði og mörgum finnst þjóðríki þeirra og menningu meira ógnað en áður var.
Í stjórnmálastefnu sinni hefur Trump snúist gegn nokkrum af þessum göllum alþjóðavæðingarinnar. Þar hefur áherslan á hertari landamæravörslu og minni fjölgun innflytjenda farið hátt, og einnig fráhvarf frá auknu viðskiptafrelsi með höfnun alþjóðlegra viðskiptasamninga (t.d. NAFTA samningnum), sem og með umtalsverðri beitingu verndartolla gegn innflutningi frá Kína og fleiri löndum, til að vernda innlenda atvinnustarfsemi í Bandaríkjunum.
Hér áður fyrr hefði verið nærtækara að vinstri stjórnmálaflokkar beittu slíkum verndartollum til að verja hagsmuni innlendrar framleiðslu og störf verkafólks og heimamanna almennt. En flokkar sósíaldemókrata hafa víða sokkið of djúpt í markaðshyggju og alþjóðavæðingu hennar, rétt eins og Demókratar í Bandaríkjunum.
Verkafólk kaus gegn alþjóðavæðingu
Lokun landamæra og vernd iðnaðarframleiðslu gegn erlendri samkeppni hugnast verka- og iðnaðarfólki í Bandaríkjunum, sem leið til að vinda ofanaf göllum alþjóðavæðingarinnar og styrkja innlenda vinnumarkaði – og þar með stuðla að betri kjörum verkafólks (hvort sem það skilar sér þannig á endanum eða ekki). Þetta talaði líka til þjóðerniskenndar og mikilvægis þess að setja heimalandið í forgang (sbr. slagorðið "America First"!). Sömu tóna má heyra víða á Vesturlöndum.
Þessar viðskiptahömlur Trumps ganga flestar gegn ríkjandi viðhorfum hagfræðinga og má því segja að Trump hafi sýnt mikið hugrekki að grípa til þeirra. En velvilja verka- og iðnaðarfólks hefur hann uppskorið með þessu – og sennilega hefur sá stuðningur riðið baggamuninn í að tryggja honum forsetaembættið í bæði skiptin.
Trump hefur þó ekki snúist gegn öllum afleiðingum alþjóðavæðingarinnar, t.d. ójöfnuði tekna og eigna og hnignun lýðræðis í einstökum þjóðríkjum. Hann hefur þvert á móti lækkað skatta sérstaklega á eigendur fjármagns og fyrirtækja (en sagt verkafólki að það muni færa þeim fleiri betur launuð störf – sem vissulega má þó efast um).
Þá hefur hann ítrekað lýst hrifningu sinni af erlendum einræðisherrum og sýnt tilburði til að verða gjaldgengur í slíkum félagsskap. Í því samhengi hefur honum að einhverju leyti tekist að afla sér trúverðugleika sem „sterkur leiðtogi“, sem líklegur sé til að breyta samfélaginu til betri áttar, laga það sem aflaga hefur farið (sbr. slagorðin „Trump will fix it!“ og "Make America Great Again").
Niðurlag
Það er þannig samhengi í pólitík Trumps sem talar til ákveðinna þjóðfélagshópa og vandamála sem þeir glíma við. Að sumu leyti er pólitík hans viðbragð við göllum alþjóðavæðingarinnar, sem hafa aukist í seinni tíð.
Það væri því mikil einfeldni að slá því fram að Trump byggi mál sitt eingöngu á blekkingum lýðskrumarans og einfeldni fjöldans. Hann fer að vísu mjög frjálslega með staðreyndir en hann er þó að einhverju leyti að svara ákalli um breytingar fyrir nógu marga kjósendur í Bandaríkjunum til að tryggja honum sigur. Þá hefur Trump einnig talað fyrir því að enda þátttöku Bandaríkjamanna í stríðum erlendis, sem er vel fallið til vinsælda heima fyrir.
Demókratar horfðust ekki í augu við það að mikill meirihluti kjósenda taldi landið á rangri leið – sennilega vegna þess að þeir höfðu ekki ræktað tengslin við verkafólk og iðnaðarmenn nógu vel til lengri tíma. Það fólk er margt mjög óánægt með kjör sín. Þvi fór sem fór. Það er raunar lexía sem sósíaldemókratar og jafnaðarmenn víða á Vesturlöndum ættu einnig að taka til sín – að tapa ekki tengslunum við verkalýðsstéttina.
Þá verða til menningarstríð sem valdagráðugir einstaklingar og hagsmuna aðilar geta nýtt sér og ýtt undir. Gott dæmi um þetta er anti Woke sem er að mínu mati fyrirbæri sem var pumpað upp af aðilum sem sambærilegt verkfæri og stríðið gegn eiturlyfjum, hugmynd sem er hægt að selja ef þú stjórnar upplýsinga rýminu og umræðunni.
Þetta alltsaman er gengið lengra í USA en annars staðar en mörg Evrópulönd fylgja hratt á eftir.
Með mörgum veruleikum og nógu mikilli upplýsingaóreiðu þá missir fólk viljann til að reyna að skilja eitthvað, því tilhvers að reyna að skilja eitthvað ef þú getur aldrei vitað hvort það er satt, og þá fer hugmyndin um að rústa bara öllu og fá "sterkan mann" til að fara með Einræði kannski ekki að hljóma illa.
Svona deyr lýðræðið sem hugmynd.