Á því tímabili sem ég er á í mínu lífi er ég nokkuð viss um að það besta í heimi er að fara snemma upp í rúm, með ógurlega þykkt lag af varasalva og bók.
Allt er nefnilega tímabil. Núna er til dæmis tímabil þar sem ég djamma ekki, sofna snemma og vakna snemma. Ég drekk ekkert sterkara en kaffi og hef meira að segja hlotið ákúrur fyrir að drekka mjólk með mat, svona eins og barn. (Svo það sé fært til bókar þá er nýmjólk og taco til dæmis bara mjög gott saman.) Ég skutlast ekki lengur á milli útgáfuboða, frumsýninga og sperrtra rithöfundapartía, heldur þeytist frá leikskóla, skóla, frístund, niður í KR og út í matarbúð, nokkurn veginn á endurtekinni stillingu. Ég hitti Bubba Morthens til dæmis í Krónunni um daginn. Við töluðum meðal annars um hvernig það er að vera pabbi, hvernig það er að vera unglingsstúlka, verndandi arfgerð gegn riðu í sauðfé og ljóðabókina hans, Föðurráð, sem kom út á dögunum og fjallar einmitt um þetta allt nema það síðastnefnda.
Tíunda bók Dags
Í Krónuferðinni var ég meðal annars að kaupa inn eitt og annað fyrir afmælispartí dóttur minnar. Fyrir nokkrum árum síðan eignaðist ég nefnilega litla stúlku en um hálftíma fyrr, í þarnæstu stofu á fæðingardeildinni, hafði Dagur Hjartarson líka eignast litla stúlku. Þessu komumst við að þegar við hittumst einu sinni fyrir tilviljun með þessar líka prýðilegu dætur í krakkadeildinni á bókasafninu. Tíunda bók Dags, Sporðdrekar, kom í heiminn laust eftir afmælisvikuna. Ég er ansi spennt að verða mér úti um hana.
„Ég hitti Bubba Morthens til dæmis í Krónunni um daginn
Samhljómur í ljóðabókakápum
Í mannekluástandi í leikskóla sonar míns áttum við óvæntan frítíma saman í vikunni sem við nýttum í langa bókabúðarferð. Ég er sérlega ánægð með ákveðinn samhljóm þegar litið er yfir ljóðabókakáp þessi misserin þar sem einlitum er oftar en ekki leyft að ráða för. Þetta á við um Heimkynni Þórðar Snæs Jónssonar og Svefnhof Svövu Þorsteinsdóttur hjá bókaútgáfunni Skriðu og í sama vandræðalausa stíl eru venju samkvæmt nýjar bækur í Pastel ritröðinni, Vögguvísuatómapar Þorbjargar Þóroddsdóttur og Hohner mér vel eftir Egil Loga Jónasson. Við mæðginin urðum hins vegar yfirspennt þegar við áttuðum okkur á nýrri bók um okkar góðu vini, litla skrímslið og stóra skrímslið – Skrímslaveisla. Í þessum bókaflokki er sannleikurinn endurtekið fangaður og uppeldislega gildið í þessum sögum á ekki síður erindi við fullorðna en börn.
„Við mæðginin urðum hins vegar yfirspennt þegar við áttuðum okkur á nýrri bók um okkar góðu vini, litla skrímslið og stóra skrímslið – Skrímslaveisla
Vinkona mín kynnti mig fyrir Claire Keegan fyrir löngu. Einhvern veginn og ávallt sitja sögurnar hennar lengi með mér eftir að eiginlegum lestri lýkur. Sagan Foster leit fyrst dagsins ljós í New York Times árið 2010 en var endurútgefin í kjölfar mikillar velgengni Small Things Like These, sem vel að merkja er nú einnig orðin að kvikmynd. Fóstur er nú komin út í afar góðri þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur þar sem írski talandinn smýgur áreynslulaust og ljúflega í gegnum íslenskuna. Stíllinn er sem fyrr knappur og ljúfsár og fyrir einlæga áhugamanneskju um írska menningu, flækjustigið sem henni fylgir og almenna mennsku er þessi bók ekkert minna en fjársjóður sem óhætt er að mæla með.
Athugasemdir