Kanadíski höfundurinn Margaret Atwood gaf árið 1985 út skáldsöguna The Handmaid's Tale, framtíðar-dystópíu sem lesendur tóku andköf yfir og síðar áhorfendur. Bókin var kvikmynduð árið 1990 og síðar voru gerðir frægir sjónvarpsþættir eftir bókinni. Sagan gerist í Bandaríkjum framtíðarinnar; konur hafa misst öll völd í alræðisríkinu Gilead – og þá jafnframt yfir líkama sínum. Þær eru flokkaðar eftir notagildi og notaðar til undaneldis.
Atwood byrjaði að skrifa söguna árið 1984 þegar hún bjó í Vestur-Berlín. Í skugga múrsins og ómi herflugvéla Austur-Þýskalands – tími með Orwell-ískum ávæningi. Staðurinn hafði áhrif á hana að ýmsu leyti. Ætlun hennar var að hinn skáldaði heimur yrði raunsæislegur og hún skrifaði með það fyrir augum að allt sem gerðist í sögunni styddist við raunveruleikann, þannig gæti hún skapað heim sem gæti einn daginn orðið að veruleika.
„1984 eftir Orwell var líka: Ekki fara þangað-bók.“
Úr jarðvegi sagnfræðinnar
Þegar Trump varð forseti í fyrsta skipti fannst sumum sem skáldsagan hefði raungerst. Sjálf kveðst hún ekki vera spámaður. Þvert á móti spretti skáldsaga hennar úr jarðvegi sagnfræðinnar.
Við það fólk sem stimplar bókina antí-ameríska segir hún bókina á sinn hátt frekar vera í þágu Ameríku því í henni felst: „Þú ert betri en þetta. Ekki fara þangað! Ef ég hefði afskrifað Ameríku væri ég ekki að ómaka mig – er það nokkuð? Þetta er ein af þessum bókum sem þú skrifar ef þú álítur að það sé hola á leiðinni fram undan. Ef þú vilt að fólk detti ofan í holuna á leiðinni, þá segirðu ekkert. Ef þú vilt ekki að það falli ofan í hana, þá segirðu: Það er risastór hola á leiðinni þarna. Ekki detta ofan í hana!“
Þessi orð hennar má finna í greininni: Margaret Atwood's prophecy: How fiction merged with fact in the time of Trump – á síðunni The UNSW Centre for Ideas. Þar er einnig vitnað í þessi orð hennar: „1984 eftir Orwell var líka: Ekki fara þangað-bók.“
Von andspænis gleymsku
Þær eru ófáar dystópíurnar sem hafa verið skrifaðar en einhvern veginn virðist raunveruleikinn ævinlega vera skrefi á undan skáldskapnum – eða hvað?
Trump er aftur orðinn forseti Bandaríkjanna, voldugri en nokkru sinni áður. Eftir allt sem á hefur gengið. Þá er það staðreyndin.
Við erum farin þangað.
En hvert?
Og hvað bíður barna okkar ef gefið er eftir í baráttunni gegn loftslagsvá af mannavöldum? Hvað bíður barnanna í Palestínu – ef það getur orðið meira helvíti? Eða Úkraínu? Hvað bíður Bandaríkjamanna? Heimsins?
Stundum virðist skáldskapur ekki neins mega sín. Og stundum virðist skáldskapurinn hafa að geyma einu vonina: Hugsun, þrá eftir að setja óreiðuna í sögu og fylgja innsæi því sem byggir á sameiginlegu minni okkar mannfólksins. Skáldskapurinn berst gegn gleymskunni. Og hann virkjar samkennd okkar en fær okkur jafnframt til að sjá leiðirnar sem við eigum ekki að fara.
Athugasemdir