Popplagið „Things can only get better“ var kosningalag breska Verkamannaflokksins í þingkosningum 1997, sem lauk með stórsigri Tony Blair. „Hlutirnir eiga bara eftir að versna,“ voru hins vegar skilaboð augnlæknisins míns sem rekur stofu skammt frá þar sem Blair bjó áður en hann flutti inn í Downing-stræti og tók við embætti forsætisráðherra.
Venjan er að við færum okkur nær til að sjá hlutina skýrar. Mánuðum saman hafði ég hins vegar þurft að færa mig fjær vildi ég sjá það sem var beint fyrir framan mig. Læknirinn skrifaði upp á lesgleraugu.
Sundrung og heift
Hvort sem litið er til forsetakosninganna í Bandaríkjunum eða hérlendra alþingiskosninga sést að kosningar draga sjaldnast fram það besta í mannkyninu. Á síðum blaðanna blasa við ásakanir og andúð, tortryggni og hatur. Sundrung virðist helsta söluvara margra frambjóðenda og heift hreyfiafl stuðningsmanna þeirra.
Með nýju lesgleraugun á nefinu færði ég mig aftur nær til að sjá hlutina skýrar. Svo kann þó að vera að sama hversu vel við sjáum þurfum við stundum að færa okkur fjær til að sjá það sem er beint fyrir framan okkur.
Fölblár depill
Á Valentínusardag árið 1990 nálgaðist geimfar NASA, Geimferðastofnunar Bandaríkjanna, jaðar sólkerfisins. Voyager 1 hafði lokið því hlutverki sínu að rannsaka Júpíter og Satúrnus. Nú átti að slökkva á myndavélum farsins til að spara orku svo að Voyager 1 mætti sigla sem lengst út úr sólkerfinu. En skyndilega kváðu við mótbárur. Carl Sagan, einn vísindamannanna að baki leiðangrinum, hafði árum saman grátbeðið yfirmenn sína um að beina myndavélunum að jörðinni og smella af. Þeir létu loks undan. Á myndinni birtist jörðin okkur sem agnarsmár, fölblár depill, baðaður í veikum sólargeisla, umkringdur svartnætti víðfeðms himingeimsins.
„Sjáið þennan depil,“ sagði Sagan um eina frægustu ljósmynd stjörnufræðinnar. „Þetta er hér. Þetta er heimili okkar. Þetta erum við. Allir sem þú elskar, allir sem þú hefur nokkurn tímann kynnst, allir sem þú hefur heyrt um, hver einasta manneskja sem hefur lifað, lifði daga sína á þessum depli. Hér er að finna samansafn af gleði okkar og þjáningum, þúsundum trúarbragða, hugmyndafræði og hagfræðikenninga; hér lifðu allir veiðimenn og safnarar, hetjur og heiglar, fólkið sem reisti samfélög og fólkið sem tortímdi þeim, hver einasti kóngur og kotbóndi, elskhugar, hver móðir, hver faðir, hvert barn með vonir og þrár ... hver einasti spillti stjórnmálamaður, dægurstjarna og æðstiprestur, hver einn og einasti dýrlingur og syndaselur sögunnar – á rykögn svífandi um í sólargeisla.“
Carl Sagan var eðlisfræðingur að mennt en hann varð kynslóðum innblástur er hann miðlaði uppgötvunum og aðferðum vísindanna á skiljanlegan hátt í sjónvarpi og bókum. Einn þeirra sem varð fyrir áhrifum Sagan var hljómborðsleikari hljómsveitarinnar D:Ream sem flutti lagið „Things can only get better“ en tónlistarmaðurinn er nú betur þekktur sem eðlisfræðingurinn Brian Cox og kynnir heimildarþátta um himingeiminn sem sýndir hafa verið á RÚV.
Cox sagðist í nýlegu viðtali þeirrar skoðunar að „skjóta ætti öllu stjórnmálafólki út í geim“. Ástæðan var þó ekki sú að hann vildi losna við það.
Sagt er að geimfarar fyllist óttablandinni lotningu og yfirþyrmandi samkennd þegar þeir horfa til jarðar úr fjarlægð. Eru viðbrögðin kölluð „yfirlitsáhrifin“ (e. overview effect). Geimheimspekingurinn Frank White, sem bjó hugtakið til, segir sjónarhornið sem geimferðir veita breyta því hvernig einstaklingurinn sér sjálfan sig, jörðina og framtíðina. „Það eru engin landamæri eða skil á jörðinni önnur en þau sem við búum til í huganum og með hegðun okkar. Allt það sem skilur okkur að niðri á jörðinni byrjar að hverfa þegar sjónarhornið er sporbaugur jarðar eða tunglið. Heimsmyndin og sjálfsmyndin umturnast á augnabliki.“
Í dag er Carl Sagan-dagurinn haldinn hátíðlegur. Sagan hefði orðið níræður en hann lést úr sjaldgæfum beinmergssjúkdómi árið 1996, 62 ára að aldri. Fyrir Sagan undirstrikaði ljósmyndin af fölbláa deplinum í biksvörtum alheimi skyldu okkar til að fara vel með litlu rykögnina og vera betri hvert við annað. Nú þegar kosningar valda því að erfitt er að sjá annað en það sem skilur okkur að er ekki úr vegi, í tilefni dagsins, að horfa á málin úr fjarlægð – jafnvel alla leið utan úr geimnum.
Athugasemdir (4)