Fólk sem var að kaupa í matinn í Skeifunni í vikunni sammæltist um að hækkanir á matvöruverði hefði áhrif á heimilisreksturinn. Misjafnt var hvort fólk hefði þurft að breyta lífsstílnum vegna þess og hversu mikil áhrif matvöruverð hefði á valið í komandi kosningum til Alþingis.
Hækkandi verð hefur áhrif á lífsstílinn
Olga Helgadóttir var að versla í matinn. Hún segist hafa fundið fyrir hækkuðu verði á matvöru síðustu misseri. Spurð hvað hún telji að hún eyði mikið meira í mat í dag, miðað við fyrir ári síðan, segir hún: „Mér finnst eins og hver innkaup séu alveg búin að hækka um þrjú þúsund. Þá meina ég fyrir svona lítil innkaup, ef þú ert bara rétt að fara að skjótast og grípa nokkra hluti. Á viku myndi það örugglega fara upp í fimm til sex þúsund krónur plús, myndi ég halda án þess að vera með það hundrað prósent.“
Hefur þú þurft að breyta þínum lífsstíl vegna hækkaðs verðlags?
„Já, alveg eitthvað.“
Hvað finnst þér að stjórnvöld eigi að gera í þessum málaflokki?
„Það þarf náttúrlega að reyna að koma til móts við fólk og reyna einhvern veginn að lækka verð matvörunnar.“
Olga segist þó ekki vita nákvæmlega hvernig ætti að fara að því. „Af einhverjum ástæðum eru sumar verslanir með mun hærra verð en aðrar. Ég get ekki svarað því hvað þarf að gera, en það þarf að reyna að finna leið til að hafa kannski jafnara vöruverð. Líka þannig að fólk úti á landi þurfi ekki alltaf að versla allt á uppsprengdu verði.“
Heldur þú að hækkað matvöruverð og verðlag muni spila inn í ákvörðun þína í komandi þingkosningum?
„Ég hef bara ekkert spáð í komandi þingkosningar eins og staðan er akkúrat núna. Þannig að ég get ekki svarað því. Þetta gerðist náttúrlega mjög snöggt.“
Verðhækkun í hvert sinn sem farið er í verslun
Skúli Fjeldsted Baldursson hefur fundið „verulega“ fyrir hækkun á matvöru síðastliðin misseri. „Það er alltaf að hækka, bara í hvert skipti sem maður fer í verslun, liggur við.“
Hann þorir ekki að fara með það hvað hann eyði miklu meira í mat núna en hann gerði fyrir ári síðan, en ímyndar sér að hækkunin hlaupi á tugum prósenta.
Hefur þú þurft að breyta þínum lífsstíl eitthvað vegna hækkaðs verðlags?
„Nei, ég hef nú ekki gert það enn þá. En það kemur nú að því að maður verður að gera það.“
Spurður hvað hann telji að stjórnvöld eigi að gera í málaflokknum segir Skúli að stjórnvöld skipti sér ekkert af honum. „Það er bara ASÍ sem er með verðlagseftirlit. Þetta er bara frjáls markaður og almenningi verður bara að blæða.“
Heldur þú að hækkað matvöruverð muni spila inn í ákvörðun þína í komandi þingkosningum?
„Já, ég get ímyndað mér að það hefði einhver áhrif. Þeir stjórnmálaflokkar sem berjast fyrir hag almennings fá frekar mitt atkvæði en hitt.“
Næsta stjórn þurfi að ná niður verðbólgu
„Ég geri mér ekki grein fyrir hversu mikið en það er held ég augljóst að það hefur hækkað,“ segir Ólafur Héðinsson, þegar hann er spurður hvort hann hafi fundið fyrir hækkun matvöruverðs. Hann segist þó ekki hafa þurft að breyta lífsstíl sínum vegna þessa.
Hvað finnst þér að stjórnvöld eigi að gera í þessum málaflokki?
„Stjórnvöld eru náttúrlega búin að stimpla sig út. Við verðum að bíða eftir næstu stjórn. Hvað hún gerir.“
Hvað finnst þér að hún ætti að gera?
„Fyrst og fremst að ná niður verðbólgu og vöxtum. Það er mál númer eitt í því máli, held ég.“
Ólafur heldur ekki að hækkað matvöruverð muni eitt og sér spila inn í val hans á stjórnmálaflokki í komandi alþingiskosningum. „Það er fjölmargt annað sem skiptir máli.“
Eins og hvað?
„Í rauninni allt.“
Athugasemdir