Ferðamannaátak og hótel í Kristjaníu

Dönsk stjórn­völd ætla á næstu ár­um að verja miklu fé til að kynna Dan­mörku er­lend­is í því skyni að fá fleiri ferða­menn til lands­ins. Þrír ráð­herr­ar kynntu áætl­un­ina. Hug­mynd­ir eru uppi um að opna hót­el í Pus­her Street í Kristjan­íu.

Ferðamannaátak og hótel í Kristjaníu
Kristjanía Íbúar Kristjaníu ruddu upp múrsteinum Pusher götu í apríl síðastliðnum þegar götunni var lokað. Þó nokkrir tóku stein með sér heim til minningar. Mynd: AFP/Ricardo Ramírez

Í mörgum löndum skipa ferðamenn æ stærri sess varðandi tekjur og störf. Kórónuveiran setti verulegt strik í þann reikning á árunum 2020 til 22 en síðan sá óboðni gestur hvarf að mestu á braut hefur ferðaþjónustan náð sér á strik á ný. Ferðamálayfirvöld víða um lönd leggja mikla áherslu á kynningarstarf og verja verulegu fé í því skyni að krækja í skerf af „ferðamannakökunni“.

Í Danmörku, líkt og mörgum öðrum löndum, hefur ferðamönnum fjölgað jafnt og þétt á síðustu áratugum. Það á jafnt við um heimamenn og erlenda ríkisborgara. Þjóðverjar, Svíar, Norðmenn og Hollendingar hafa lengi verið fjölmennastir í hópi þeirra sem sækja Danmörku heim. Landfræðilegar ástæður skipta þar miklu, margir íbúar áðurnefndra landa koma til Danmerkur á eigin bílum, oft svonefndum húsbílum, eða með hjólhýsi í eftirdragi eða tjaldvagn. Margir leigja líka sumarhús, einkum á Jótlandi, sem um árabil hefur verið eftirlætissvæði Þjóðverja í þessum efnum.

Ekki fyrsta átakið

Kynningarátakið, sem ráðherrarnir þrír kynntu fyrir nokkrum dögum, er ekki það fyrsta sem dönsk stjórnvöld hafa ráðist í. Árið 2016 kynnti Troels Lund Poulsen, sem þá var ráðherra atvinnumála, áætlun sem ætlað var að ná til ársins 2025, „Danmark i vækst -Den nationale strategi for dansk turisme“. Við það tækifæri sagði ráðherrann að ferðaþjónustan hefði orðið fyrir þungu höggi í kjölfar bankakreppunnar en væri nú að ná sér á strik, slíkt tæki ætíð einhver ár. Árið 2019 var metár í danskri ferðaþjónustu og öflugt kynningarstarf að skila sér. En þá kom annað högg, kórónuveiran. Þótt ferðaþjónustan hafi náð sér vel á strik á nýjan leik í Danmörku eins og víðast hvar er öflugt kynningarstarf nauðsynlegt, því samkeppnin um ferðamenn er mikil og margar þjóðir verja miklu fé til kynninga og auglýsinga.

Jafngildi 4 milljarða íslenskra á næstu fjórum árum

Á kynningarfundi vegna ferðamannaátaksins kom fram að á næstu fjórum árum verði 200 milljónum danskra króna (fjórum milljörðum íslenskra króna) varið til þessa verkefnis. Þetta er til viðbótar við önnur framlög, sem þegar eru til staðar, til þessa málaflokks, en verkefnið nefnist „Veje til bæredygtig turismevækst“ eða upp á íslenskuna, leiðir til sjálfbærs vaxtar í ferðaþjónustu. Stór hluti fjárveitingarinnar er eyrnamerktur kynningum á Danmörku erlendis, sérstök áhersla verður lögð á að kynna Danmörku sem heilsársferðamannaland eins og einn ráðherranna á kynningarfundinum komst að orði. Og að Danmörk sé fleira en Kaupmannahöfn. Mikilvægt sé að kynna þá mörgu möguleika sem ferðamönnum bjóðast, ekki síst á Jótlandi og Fjóni þar sem er að finna langar sandstrendur, ásamt miklu og fjölbreyttu fuglalífi.

Í Danmörku eru 98 sveitarfélög og í fimmtungi þessara sveitarfélaga skiptir ferðamannabransinn miklu máli hvað varðar atvinnu og tekjur. Mörg önnur sveitarfélög hafa upp á margt að bjóða en skortir fjármagn, og kannski kunnáttu, til að kynna þá möguleika.

Vilja líka kynna Dönum eigið land 

Í könnun sem gerð var á síðasta ári kom í ljós að margir Danir þekkja lítt til eigin lands og vita ekki um fjölmarga áhugaverða staði sem þeir hafa jafnvel aldrei heyrt nefnda. Hluti fjárveitinganna sem ráðherrarnir tilkynntu um á fundinum verður eyrnamerktur kynningum ætlaðar Dönum. Á síðasta ári voru gistinætur í Danmörku um 63 milljónir, það er 46 prósenta aukning frá árinu 2013. Þegar vaxtarverkefnið var kynnt kom fram að stefnt skuli að því að árið 2030 verði gistinæturnar 72 milljónir og árleg velta í ferðamannaþjónustunni nái þá 200 milljörðum danskra króna, sem jafngildir um fjögur þúsund milljörðum íslenskra króna. 

Lokuðu Pusher Street

Í apríl síðastliðnum var endir bundinn á skipulagða sölu á hassi í Pusher Street í Kristjaníu. Slíkt hafði árangurslaust verið reynt nokkrum sinnum áður en í þetta sinn var gengið mun skipulegar til verks og allir sölubásar fjarlægðir. Salan á „grasi“, eins og hampurinn er iðulega kallaður, átti sér langa sögu, sögu sem framan af var friðsamleg en á allmörgum undanförnum árum varð þar breyting á. Skipulögð glæpasamtök ýttu „smákaupmönnunum“ út og tókust á um markaðinn. Aukin harka fylgdi í kjölfarið, með hótunum, líkamsmeiðingum og morðum. Loks var Kristjanittunum nóg boðið og þeir ákváðu, í samvinnu við lögregluna, að bola glæpasamtökunum burt, með því að stöðva sölustarfsemina í Pusher Street. En samtímis því að „grassölumennirnir“ gufuðu upp hvarf líka fleira: heimamenn sem voru vanir því að geta gengið að „grasinu“ í Pusher Street hættu að koma og það veldur Kristjanittunum áhyggjum. Erlendir ferðamenn koma eftir sem áður, og þeir eru mikilvægir en það er ekki nóg. Í Kristjaníu er margs konar starfsemi, veitingastaðir, barir og verslanir af ýmsu tagi. Botninn er að hluta dottinn úr þessum viðskiptum að sögn íbúanna. Vegna þess hve stutt er síðan breytingin í Pusher Street átti sér stað er ekki komin mikil reynsla á áhrifin, einungis eitt (rigningar)sumar, en Kristjanittarnir eru uggandi.

Hvað er til ráða?

Íbúar Kristjaníu eru á einu máli um að hverfið eigi sér framtíð, verkefnið fram undan sé að aðlaga sig breytingunum og finna fjölina, eins og einn íbúanna komst að orði í viðtali. Nú hefur verið settur á laggirnar vinnuhópur (Projektkontoret Pusher Street) sem er ætlað að koma með tillögur sem gætu orðið eins konar leiðarljós. Í viðtali við dagblaðið Politiken sögðu Mikkel Chr. Knudsen Holst og Risenga Manghezi, sem stjórna vinnuhópnum, að mikil vinna færi í hönd. Þessi vinna er nýfarin af stað en Kristjanía er þekkt „vörumerki“ eins og Risenga Manghezi orðaði það, en hann hefur um árabil verið í forystuhópi íbúanna.

Skautasvell, veitingastaðir, loftbelgir og hótel

Fyrir ári síðan var efnt til hugmyndasamkeppni, meðal íbúa Kristjaníu, um starfsemi sem fengi íbúa Danmerkur, sérstaklega Kaupmannahafnar, til að koma í Kristjaníu. Og það skorti ekki hugmyndir: veitingastaðir og kaffihús, skautasvell, leiktækjasvæði, kajaksiglingar um svæðið, gönguferðir með leiðsögn (með áherslu á fjölbreyttan byggingarstíl og sögu svæðisins), sparkvellir og fleira og fleira var nefnt. Sérstaka athygli vakti hugmynd um að koma upp loftbelgjaferðum yfir svæðið og nágrenni þess og síðast en ekki síst hugmyndin um að koma upp hóteli í eða við Pusher Street. Að sögn íbúa hefur í gegnum árin verið mikið spurt um gistiaðstöðu í Kristjaníu en slíkt hefur ekki verið til staðar. Vinnuhópurinn, Projektorkontoret, hefur nú þessar hugmyndir til skoðunar en á að skila tillögum sínum innan árs.

Við höfum háleitar hugmyndir um framtíð Kristjaníu,“ sögðu forvarsmenn vinnuhópsins, sem kváðust bjartsýnir á framtíð svæðisins.

Kjósa
9
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Jóhann Þór Magnússon skrifaði
    Það er forvitnilegt að lesa fréttir frá frændþjóðinni Danmörku. Tengslin við Danmörku eru sterk og því áhugavert er því að bera saman blómlega ferðaþjónustu í Danmörku við Ísland.
    Danmörk er öflugt ferðamannaland en kemst þó ekki í hálfkvist við Ísland. Ferðaþjónustan er um 8% af landsframleiðslu (GDP) á Íslandi en einungis um þriðjungur af því í Danmörku. Starfsfólk í ferðaþjónustu á Íslandi erum 35 þúsund, eða um 9% af íbúafjölda en í Danmörku er hlutfallið um 3%.
    OF HRAÐUR VÖXTUR. En það sem er í raun aðal áhyggjuefnið hérlendis er ekki fyrst og fremst stærð ferðaiðnaðarins þó hún hljóti að eiga sér takmörk. Mjög hraður og stjórnlaus vöxtur ferðaþjónustunnar á Íslandi er stóra vandamálið. Hraður vöxtur kallar einnig á mikla fjölgun starfsfólks og þar með fjölgun íbúa og veldur óheyrilegu álagi á marga helstu innviði landsins, álagi sem alls ekki hefur tekist að bregðast við með viðeigandi hætti.
    Í greininni í Heimildinn er vaxandi fjöldi gistinátta nefndur til sögunnar. Á árunum fram að Covid, t.d. frá 2011 til 2019 var góður vöxtur í ferðaþjónustu í Danmörku, 29% fjölgun gistinátta. En á sama tímabili var 204% vöxtur í ferðaþjónustu á Íslandi, um 7 sinnum hraðari vöxtur en í Danmörku.
    Danir hafa sett sér stefnu um fjölgun gistinátta um 9 milljónir frá 2013 til 2030. Þetta samsvarar fjölgun um 1,5 gistinótt per íbúa. Ef höfð er hliðsjón af farþegaspá ISAVIA samkvæmt umhverfismatsskýrslu um stækkun Keflavíkurflugvallar frá júní 2022, þá má lauslega áætla að fjölgun gistinátta frá 2023 til 2030 verði um 11 gistinótt per íbúa eða um 7 sinnum hraðari fjölgun gistinátta en í Danmörku. Þetta er auðvitað alveg galið og með öllu óviðráðanlegt fyrir marga innviði landsins. En jafnvel þrátt fyrir þessa mjög svo varfærnu stefnu Dana í ferðaiðnaðinum, þá heyrast þar áhyggjur af áhrifum ferðaiðnaðarins þar á fasteignamarkaðinn.
    VARFÆRIN STEFNA DANA. Það er líka áhugavert að Danir hafa markað sér stefnu um varfærin vöxt ferðaiðnaðarins. En í samanburði þá er vöxturinn á Íslandi stjórnlaus og gríðarlegur. Hér er engin stefna um varfærin vöxt, einungis er rætt um óljósar spár. Einskonar forlagatrú. Við skulum bara bíða og sjá hvað það birtast margir ferðamenn á næsta ári? Þegar eftirspurnin er mikil í ferðaþjónustu, eins og reyndin hefur verið, þá er fjölda ferðamanna að mestu stjórnað af magni gistirýmis og afkastagetu Keflavíkurflugvallar auk skatta og gjaldtöku af ýmsu tagi. Það er nú alveg komin tími á að stjórnvöld fatti þetta og taki að stjórna fjölda ferðamanna föstum tökum líkt og aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við. En við höfum líka séð að hagsmunaaðilar berjast með kjafti og klóm gegn öllum tilraunum til að afnema afslátt af VSK af greininni og gegn flestum öðrum tilraunum til að hafa einhverja stjórn á vexti ferðaþjónustunnar. Er það kannski þannig að hagsmunaaðilar fara í raun með landstjórnina en ekki ríkisstjórnin?
    INNVIÐIR Á HLIÐINA. Afleiðingar af þessum öra vexti ferðaþjónustunnar á flesta innviði hafa verið hrikalegar, t.d. fasteignamarkað, byggingariðnað, vegakerfi, skólakerfi og heilbrigðiskerfi o.fl.
    Ferðaþjónusta hefur vaxið mikið. Aðflutningur vinnuafls í ferðaþjónustu og tengdum greinum, t.d. við byggingu hótela og gistirýmis og margfeldisáhrif þar af, hefur verið stærstur þáttur í um 1000 íbúafjölgun á mánuði mörg undanfarin ár. Íslenskir ríkisborgarar eru bara um tíundi hluti þessarar fjölgunar. Þetta setur spennu á húsnæðismarkaðinn. Og það heldur uppi eftirspurn á fasteignum sem svo heldur uppi verðbólgu í landinu. Og ruðningsáhrif á aðra starfsemi og nýsköpun eru mikil. Ferðaþjónustan dregur til sín vinnuafl, m.a. háskólanema sem eiga erfitt með að framfleyta sér á rýrum námslánum.
    Byggingariðnaðurinn ræður ekki við fólksfjölgunina og erlent láglauna vinnuaflið mun seint ráða við húsnæðiskostnað á Íslandi. Margir erlendir starfsmenn ferðaþjónustu búa því við ömurlegar aðstæður. Börnum þeirra gengur oft mjög illa í skóla, vegna ónægs stuðnings er hlutfallslega mun meira brottfall meðal barna nýbúanna en meðal Íslendinga.
    Vegaumferð á áratug hefur vaxið um 15% í Danmörku en meir en þrefalt meir á Íslandi. Víða er staðan enn verri, t.d. á þjóðveginum á Suðurlandi þar sem umferðin hefur vaxið um 400% á árattug, nær alfarið vegna fjölgunar ferðamanna. Vegurinn ber alls ekki þennan umferðaþunga. Það mun taka áratugi að byggja upp og viðhalda vegakerfinu á Íslandi svo það ráði við þessa umferðaraukningu með viðunandi hætti.
    ATGERVISFLÓTTI. Mjög hár húsnæðiskostnaður veldur því að ungt fólk, sem ekki á efnaða foreldra, á mjög erfitt með að koma þaki yfir höfuðið. Ungt fólk í í framhaldsnámi erlendis á einnig erfitt með að flytja heim að námi loknu, jafnvel hámenntað fólk með góð laun. Ungt fátækt fólk frestar því barneignum og fæðingartíðni snarlækkar, nema auðvitað hjá ungu fólki sem á efnaða foreldra. Áhrif húsnæðiskreppunnar sjást einnig á því að Íslendingum búsettum í Danmörku hefur fjölgað um 24% s.l. áratug á meðan íslenskum ríkisborgurum búsettum á Íslandi hefur einungis fjölgað um 7% á sama tíma. Fjölgun Íslendinga í Danmörku þrefalt meiri en hér heima. Atgervisflótti menntafólks er því mikill. Þetta á m.a. þátt í læknaskorti og löngum biðlistum í heilbrigðiskerfinu.
    JÁKVÆÐAR HLIÐAR FERÐAÞJÓNUSTU. En auðvitað eru líka margar jákvæðar hliðar á ferðaþjónustunni. Ríkissjóður hefur miklar tekjur og gjaldeyri af greininni. Mannlíf hefur auðgast með fjölda veitingastaða og mörgu fleiru. Víða úti á landi, væru enn fleiri túristar kærkomnir til að skjóta fleiri stoðum undir byggð í sveitum.
    EKKI VIÐ STARFSFÓLK FERÐAÞJÓNUSTU AÐ SAKAST ÞÓ INNVIÐIR LÍÐI FYRIR HRAÐAN VÖXT. Þar er við stjórnvöld að sakast sem hafa vanrækt að setja vexti ferðaþjónustunnar varfærna stefnu og fylgja henni eftir. En alvarlegast er þó að ekki hefur verið gætt að því að efla innviði til að þeir gætu tekið við þessum mikla fjölda ferðamanna og íbúafjölgunar sem leiðir af örum vexti greinarinnar. Í reynd þýðir líka þessi mikli vöxtur ferðaþjónustunnar að óeðlilega mikil áhersla er lögð á þessa láglauna atvinnugrein. Afleiðingin til lengri tíma er óhjákvæmilega hærri skattar á almenning og hnignandi velferðarþjóðfélagsins.
    2
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mataræði er vanræktur þáttur í svefnvanda
2
Viðtal

Mataræði er van­rækt­ur þátt­ur í svefn­vanda

Góð­ur svefn er seint of­met­inn en vanda­mál tengd svefni eru al­geng á Vest­ur­lönd­um. Tal­ið er að um 30 pró­sent Ís­lend­inga sofi of lít­ið og fái ekki end­ur­nær­andi svefn. Ónóg­ur svefn hef­ur áhrif á dag­legt líf fólks og lífs­gæði. Svefn er flók­ið fyr­ir­bæri og margt sem get­ur haft áhrif á gæði hans, má þar nefna lík­am­lega og and­lega sjúk­dóma, breyt­inga­skeið, álag, kvíða, skort á hreyf­ingu og áhrif sam­fé­lags­miðla á svefn­gæði. Áhrif nær­ing­ar og neyslu ákveð­inna fæðu­teg­unda á svefn hafa hins veg­ar ekki vak­ið at­hygli þar til ný­lega.
„Við mætum í vinnuna til þess að sigra“
5
Á vettvangi

„Við mæt­um í vinn­una til þess að sigra“

Kona sem sit­ur á bið­stofu með fleira fólki er að grein­ast með heila­æxli og það þarf að til­kynna henni það. En það er eng­inn stað­ur sem hægt er að fara með hana á, til að ræða við hana í næði. Í ann­an stað er rætt við að­stand­end­ur frammi, fyr­ir fram­an sjálfsal­ann en þá fer neyð­ar­bjall­an af stað og hama­gang­ur­inn er mik­ill þeg­ar starfs­fólk­ið hleyp­ur af stað. Í fjóra mán­uði hef­ur blaða­mað­ur ver­ið á vett­vangi bráða­mót­tök­unn­ar á Land­spít­al­an­um og fylgst með starf­inu þar.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Hann sagðist ekki geta meir“
1
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Síðasta tilraun Ingu Sæland
3
ViðtalFormannaviðtöl

Síð­asta til­raun Ingu Sæ­land

Flokk­ur fólks­ins var stofn­að­ur til að út­rýma fá­tækt á Ís­landi, sem Inga Sæ­land, formað­ur flokks­ins, þekk­ir af eig­in raun. Hún boð­ar nýtt hús­næð­is­kerfi með fyr­ir­sjá­an­leika og nið­ur­skurð í öllu því sem heita að­gerð­ir gegn lofts­lags­breyt­ing­um. Græn­asta land í heimi eigi að nota pen­ing­ana í heil­brigðis­kerfi og aðra inn­viði sem standi á brauð­fót­um.
Svanhildur Hólm með áberandi minnsta reynslu af utanríkismálum
6
Fréttir

Svan­hild­ur Hólm með áber­andi minnsta reynslu af ut­an­rík­is­mál­um

Ljóst er að Svan­hild­ur Hólm, sendi­herra í Banda­ríkj­un­um, sker sig úr hópi koll­ega sinna frá Norð­ur­lönd­un­um hvað varð­ar tak­mark­aða reynslu á vett­vangi ut­an­rík­is­mála. Stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd bíð­ur enn svara frá ut­an­rík­is­ráðu­neyt­inu um vinnu­brögð ráð­herra við skip­un á sendi­herr­um í Banda­ríkj­un­um og Ítal­íu.

Mest lesið í mánuðinum

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
1
Afhjúpun

Leyniupp­taka lýs­ir vin­ar­greiða og hrossa­kaup­um Bjarna og Jóns

Son­ur og við­skipta­fé­lagi Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns full­yrð­ir í upp­tök­um sem tekn­ar voru af manni sem sagð­ist vera fjár­fest­ir að Jón hafi sam­þykkt beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kom­ist í að­stöðu til veita veiði­leyfi til Hvals hf. Það verði arf­leifð Jóns að tryggja Kristjáni Lofts­syni nán­um vini sín­um leyf­ið. Það sé hins veg­ar eitt­hvað sem eigi að fara leynt.
„Hann sagðist ekki geta meir“
3
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Grunaði að það ætti að reka hana
4
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár