Mikið er rætt um stórar framkvæmdir á Íslandi í þágu loftslagsins en oftar en ekki endað á því að bæta við að beita þurfi vistkerfisnálgun. Eins og það sé eitthvað sem eðlilegt er að huga bara að í lokin, aftast í forgangsröðuninni.
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum minnist varla einu orði á samninginn um líffræðilega fjölbreytni og það sem var samþykkt þar. Stefna og aðgerðaáætlun um það hvernig ná eigi markmiðum um líffræðilega fjölbreytni hefur ekki litið dagsins ljós og fyrir því virðist ekki vera mikill áhugi í umhverfisráðuneytinu.
Málefni loftslags og lífríkis, föllum við milli skips og bryggju?
145 vísindamenn sendu bréf á málefnaskrifstofur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegra fjölbreytni og loftslagsbreytingar og bentu á að með því að aðskilja viðfangsefnin sé hætta á að:
-
Lausnir úr sitthvorri áttinni ráðist ekki að rót vandans
-
Lausnir við öðru geti haft neikvæð áhrif á hitt
Landvernd tekur undir þetta í áherslubréfi sínu í aðdraganda funda aðildarríkjanna, annars vegar COP16 í Cali, Kólumbíu, og hins vegar COP29 í Baku, Aserbaíjan.
Loftslagið og náttúran eru samtvinnuð í umhverfi okkar og því ómögulegt að gæta aðeins annars þeirra. Í raun eru samningarnir þrír, að viðbættum samningi um eyðimerkurmyndun. Þessi svið mikilvægra umhverfismála, sem hefðu ef til vill átt að vera eitt og sama sviðið, urðu til í Ríó árið 1992. Sannkallað Ríó Tríó, en það er einmitt það sem það er kallað á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. En það eru fleiri samningar varðandi umhverfið; samningur um fartegundir, samningur um genamengi náttúrunnar og örugglega mörg fleiri. Ísland er ekki aðili að öllum samningunum en er aðili að tríóinu frá Ríó.
Skynja áhugaleysi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis
Ég er stödd á ráðstefnu samnings um líffræðilegan fjölbreytileika sem er haldin í Kólumbíu dagana 21. október til 1. nóvember. Hér er mikið rætt um samvinnu, samþættingu og hreinlega sameiningu markmiða samninganna.
Ísland hefur skilað framlagi sínu til loftslagssáttmálans (NDC) og er í samfloti með Evrópusambandinu og Noregi en hefur ekki skilað stefnu og aðgerðaáætlun um líffræðilegan fjölbreytileika (NBSAP). Það er þó verið að vinna að stefnu í umhverfisráðuneytinu en fulltrúar á COP eru einungis frá Náttúrufræðistofnun, utanríkis- og matvælaráðuneytinu.
Ég skynja áhugaleysi frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og ég hvet stjórnmálafólk í aðdraganda kosninganna að láta sig þetta mál varða. Loftslagsmálin verða ekki leyst með því að ganga á líffræðilegan fjölbreytileika eins og hann sé óþrjótandi. Samþætta verður aðgerðaáætlun fyrir loftslag og lífríki.
Athugasemdir