Ég bjó á Ásbraut 13 í Kópavogi fyrir tæpum 50 árum í tvö ár eða svo. Á ferðalagi mínu um hverfið komst ég að því að enginn var maður með mönnum nema hann héldi með Breiðabliki. Gerði ég umsvifalaust kröfu á ömmu mína, sem ég bjó hjá, um að hún myndi verða mér úti um búning liðsins sem ég var þarna farinn að styðja af lífi og sál. Varð hún við þessari bón minni og gaf mér heilgalla í litum félagsins. Þótti mér vænt um þennan galla og gekk mikið í honum næstu mánuði. Það var svo um hálfu ári eftir að ég gerðist Bliki í búning að ég hitti nokkra stráka sem ég þekkti ekki. Þeir spurðu:
„Með hvaða liði heldurðu?“
„Auðvitað Blikum.“
„Hvaða búningur er þetta?“
„Breiðablik.“
„Nauts, við erum í Blikabúning – þú ert ekki í svoleiðis.“
Þeir voru grænir. Ég var í dökkbláum búningi með einni stórri gulri rönd á ermum og skálmum.
Pabbi sendi mér Jakob ærlegan í sveitina þegar ég var 11 eða 12 ára. Ég las þessa bók og var miður mín yfir örlögum móður Jakobs en það bókstaflega kviknaði í henni vegna þess hve lengi hún hafði marinerast í áfengi. Aumingja Jakob, hugsaði ég. Pabbi sagði mér síðan að þetta hefði verið bókin sem Jónas Hallgrímsson las á meðan hann sötraði te og hlustaði á fuglasöng þar sem hann lá banaleguna eftir að hafa dottið og fótbrotið sig í stiganum heima hjá sér á Sankt Peder Stræde númer 120 (í dag númer 20).
Það var ekki fyrr en ég las í bók Óttars Guðmundssonar að ég áttaði mig á því hvernig raunverulega var í pottinn búið þessa síðustu klukkutíma í lífi þjóðskáldsins. Sjúkraskýrslurnar frá spítalanum opinberuðu nær ónýta lifur vegna drykkju, hann var með delerium tremens, drep í fæti, lífhimnubólgu og með óráði. Það voru engir þrestir sjáanlegir, hann las enga bók um mömmu sem brann og tedrykkja ekki stunduð nema í besta falli meðal starfsfólks eða heimsóknargesta.
Þetta eru aðeins tvö dæmi af u.þ.b. 19.674 (jafnmargir mínum dögum hér á jörðu) þar sem hlutirnir voru ekki eins og þeir sýndust í fyrstu. Fólk fegrar hitt og þetta eða gerir eitthvað vegna þess að það er ekki hægt að gera eitthvað annað við ákveðnar aðstæður. Amma mín keypti líklega þennan galla handa mér af því hann var miklu ódýrari en græni búningurinn og hún hafði ekki efni á öðru. Hún vildi samt gleðja mig og vissi líka að ég myndi ekkert pæla í þessu. Gleðja strákinn en líka eiga fyrir því. Í tilfelli Jónasar snerist þetta um að búa til goðsögn. Þjóðin var fátæk og þurfti á góðum fyrirmyndum að halda og þrátt fyrir drykkju, drep í fæti og sorglegan endi er hann svo sannarlega einn af okkar bestu sonum. Óþarfi að draga fram bresti hans, sem bitnuðu mest á honum sjálfum, bara til þess eins að eyðileggja mikilmennið sem hann svo sannarlega var.
Sjálfur litaði ég líf mitt fullmikið og allt of lengi með fordómum þegar ég tók afstöðu til lífsins og þess sem það hafði upp á að bjóða. Þegar tónlistin náði tökum á mér, þegar ég var í kringum fimm ára, þá hlustaði ég á það sem mér þótti skemmtilegt. Það voru engir filterar komnir eða regluverðir um hvað mér ætti að þykja gott og hvað ég mætti hlusta á. Þegar ég var níu ára ætlaði ég þannig að setja upp söngleik með Tolla vini mínum úr tónlistinni úr Cabaret (Liza Minnelli). Sorgarmars Chopin heltók mig – sérstaklega þegar ritararnir í Moskvu týndu tölunni og lúðrasveit lék þá.
Tolli fór í annan skóla í 4. bekk og Cabaret var settur á hilluna. Fljótlega tóku ritskoðuðu árin við. Ekki hlusta á 10cc, Duran Duran er drasl, Genesis eru ömurlegir og þú skalt ekki segja neinum frá því að þú hreinlega elskir Home by the sea. Réttar og rangar skoðanir voru tuggðar ofan í mig: Þú ert á móti þessu en með þessu. Mogginn er vondur en Þjóðviljinn góður. Geir Hallgrímsson er afleitur en Ólafur Ragnar frábær. Þú heldur með Esso því íhaldið á Skel. Þér finnst bara gaman í bíó á kvikmyndahátíðum og það er leiðinlegt í dönsku.
Auðvitað blandast meðvirkni inn í þetta allt saman. Það gerist auðvitað margt í lífinu sem hefur áhrif og mörg mistök eru gerð. En lífið er líka frábært tækifæri til að læra og gera betur. Mótbyr getur vissulega verið ósanngjarn og andstyggilegur og jaðarsetning fólks er meinsemd í okkar samfélagi. Það þarf samt ekki að þýða að ekki sé hægt að losna undan oki fyrirframgefinna hugmynda um hitt og þetta. Við erum með þrjá heila: heilann, hjartað og iðrin. Lífið hefur kennt mér að hlusta minna á heilann, og þann fróðleik sem lobbíistar þess sem mér á að finnast gott og rétt halda að mér, en þeim mun meira á hjartað og iðrin.
„Tilgangur lífsins í mínu tilfelli er ekki að láta teyma mig hingað og þangað“
Hjartað er gott þegar málefnið er góð bassalína, fallegt fólk, réttlæti og tilgangur lífsins. Bassalína Johns Taylor í Rio er algjörlega frábær og Duran Duran gott band. Ég elska dönsku og tala í dag eins og innfæddur. Skel á Esso og Esso Skel í dag. Tilgangur lífsins í mínu tilfelli er ekki að láta teyma mig hingað og þangað. Réttlæti er mikilvægt en ég get valið mína „bardaga“ og þarf ekki að láta fólk velja þá fyrir mig. Iðrin eru samt mikilvægasti heilinn. Þau hafa sagt mannfólkinu og reyndar dýrunum líka hvað sé best að gera í árþúsundir. Að komast í tengsl við iðrin er það mikilvægasta sem lífið hefur kennt mér. Þegar ég þarf að taka erfiða ákvörðun þá getur heilinn með alla sína lobbíista komist að kolrangri niðurstöðu um það sem er best fyrir mig að gera. Iðrin hafa hins vegar alltaf rétt fyrir sér. Alltaf.
Breiðabliksbúningurinn minn var flottur og hann var gefinn af ást. Jónas Hallgrímsson var mikilmenni þótt hann hafi ekki lesið Jakob ærlega á banalegunni.
Athugasemdir