Bjarni Benediktsson ætlar að leggja til við Höllu Tómasdóttur forseta að í starfstjórninni sem mun starfa fram að kosningum þann 30. nóvember taki formenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins við þeim ráðuneytum sem Vinstri græn stýrðu áður.
Bjarni, sem þegar er forsætisráðherra, mun auk þess stýra félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og matvælaráðuneytinu. Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mun taka við stjórn innviðaráðuneytisins. Hann hefur reynslu af því ráðuneyti, en hann var ráðherra málaflokksins þangað til fyrr á þessu ári.
Ríkisráðsfundur vonandi á morgun
Bjarni segir ágætis sátt um þetta meðal þeirra flokka sem áfram sitja í starfstjórninni. Hann segist hafa lagt til á fundinum að farið væri fram á ríkisráðsfund. „Þá væri hægt á þeim fundi að staðfesta lausn þeirra ráðherra sem að láta af störfum.“ Hann segir að vonast væri eftir að slíkur fundur gæti farið fram á morgun.
Hvernig var stemningin á þessum fundi?
„Hún var bara svona eftir atvikum ágæt, þannig séð,“ segir Bjarni. „Við fórum yfir þingrofið og lausn ráðherra og þessa skiptingu.“ Starfsstjórnin hyggist halda fundi til að undirbúa tillögu fyrir þingið, sérstaklega vegna fjárlaganna.
Spurður af hverju formennirnir séu þeir sem taki við ráðuneytunum frá Vinstri grænum segir Bjarni að það sé vegna þess að þetta sé bráðabirgðaráðstöfun sem vonast sé til að vari ekki lengi. Fordæmi séu fyrir því að ráðherrar taki yfir ráðuneyti við slíkar aðstæður.
Aðspurður segir Bjarni telja það vel raunhæft að það takist að koma fjárlögum í gegnum þingið, þrátt fyrir að enginn starfandi meirihluti sé í þinginu lengur. „Þingið getur vel risið undir því hlutverki. Ég vil að það verði klárað og þá á svipuðum nótum og eins það liggur fyrir þinginu,“ segir hann.
Hafnar því að VG sýni ábyrgðarleysi
Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir ákveðinn trúnaðarbrest hafa orðið og því hafi verið mikilvægt að stíga það skref að taka ekki þátt í starfstjórninni. Trúnaðarbresturinn hafi orðið á milli hennar sjálfrar og forsætisráðherra, hennar flokks og forystu ríkisstjórnarinnar.
„Ég held að það sé nú dálítið út úr kú að tala um það að við í VG séum eitthvað ábyrgðarlaus“
Hún vísar því á bug að ráðherrar VG séu að hlaupast undan ábyrgð með þessari ákvörðun. „Ég held að það sé nú dálítið út úr kú að tala um það að við í VG séum eitthvað ábyrgðarlaus. Við höfum setið í ríkisstjórn í sjö ár og áður í fjögur ár í samstarfi við Samfylkinguna. Ábyrgð hefur alltaf verið okkar hugsun númer eitt, tvö og þrjú,“ segir Svandís.
„Þetta eru þáttaskil. Sjö ár er mjög langur tími í lífi, hvort sem er í pólítísku lífi eða í lífi manneskju,“ segir Svandís, spurð hvernig upplifun það sé að ganga út af sínum síðasta ríkisstjórnarfundi. Hún segist hafa lært margt og kynnst mörgum á sínum tíma í stjórninni.
Spurð hvort hún telji að sú atburðarás sem leiddi til þess að ríkisstjórnin féll hefði byrjað þegar Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi formaður VG og forsætisráðherra, hafi hætt í ríkisstjórninni í vor, svarar Svandís því neitandi.
„Nei, pólitískt á þetta miklu lengri aðdraganda. Þetta var strax ákveðin pólitísk nýsköpun 2017 og það er í raun og veru alveg fordæmalaust að samsteypustjórn þriggja flokka haldi svona lengi út. Það höfum við aldrei séð áður. Það er ekkert skrítið að það hafi reynt á samstarfið, og hafi oft gert það.“
Hún myndi ekki setja þáttaskilin nákvæmlega við þá breytingu að Katrín hvarf frá. „Það var ýmis konar togstreita sem var að safnast upp, getum við sagt.“
Fréttin hefur verið uppfærð.
Athugasemdir