Ekkert verður af því að ríkisstjórnin sitji saman fram að kosningum í krafti þingmeirihlutans. Bjarni Benediktsson ætlar að biðjast lausnar sem forsætisráðherra. Það felur í sér að starfsstjórn verði látin sitja fram að þingkosningum. Hvað það þýðir í raun virðast formenn flokkanna á þingi ekki allir sammála um.
Þetta kom fram í beinni útsendingu Silfursins á RÚV, þar sem formenn allra flokka á Alþingi ræða saman. Bjarni tilkynnti þar að hann myndi biðjast lausnar frá embætti, þar sem ekki væri vilji á meðal samstarfsfólks að halda meirihlutasamstarfinu fram að kosningum.
Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna og innviðaráðherra, sagði jafnframt að þingflokkur sinn hefði tekið ákvörðun um að vinna ekki í ríkisstjórn þar sem Bjarni væri forsætisráðherra. Óljóst er hvort það þýði að ráðherrar flokksins vilji ekki sitja í starfsstjórn en Svandís velti því upp í dag að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og fjármálaráðherra, tæki við sem forsætisráðherra vikurnar fram að kosningum.
Athugasemdir