„Við í Samfylkingunni viljum kosningar sem fyrst og styðjum það að þing verði rofið. En það skiptir máli líka hvernig hlutirnir eru gerðir, við þurfum að flýta okkur hægt í þessari stöðu,“ sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingar, eftir fund sinn með forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur.
Halla tók í morgun á móti Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, á Bessastöðum sem kom til hennar með þá formlegu beiðni um að rjúfa þing. Því næst hófust fundir Höllu með formönnum annarra flokka á þingi, og fyrsti fundurinn var með Kristrúnu. Þeir fundir fóru fram á skrifstofum embættisins á Sóleyjargötu.
Starfsstjórn enn á umræðustigi
Í samtali við blaðamenn benti Kristrún á að forsætisráðherra hafi enn ekki beðist lausnar fyrir ríkisstjórnina „og það þarf að ræða þann möguleika hvort eðlilegra sé að setja á starfsstjórn í þessari stöðu, en þetta er eitthvað sem ennþá til umræðu á þessum tímapunkti og ekkert meira um það að segja núna.“ Kristrún sagðist hafa gert forseta grein fyrir þessari skoðun sinni. „Þetta er ennþá allt til umræðu. Þetta eru mikil tækifæri núna fyrir þjóðina að fylkja sér á bak við stórhuga stjórnmál og jákvæð stjórnmál, við viljum þingrof en næstu dagar skipta máli, formið skiptir máli og ég gerði forseta grein fyrir því.“
Bjarni gagnrýndi Kristrúnu nýverið, sagði að hún vildi hærri skatta, stærra ríki og millifærslur. Spurð um þetta sagði hún við blaðamenn: „Við munum koma fram með okkar áherslur sem fyrst, fólk veit alveg hvar Samfylkingin stendur með ábyrga efnahagsstjórn og sterka velferð, en auðvitað öfluga verðmætasköpun líka, við munum án efa takast á, á næstu vikum, en ég hlakka bara til þess,“ segir Kristrún og vísar þar til væntanlegra átaka við núverandi forsætisráðherra.
Hissa á miklum ágreiningi
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, kom næst formanna á fund forseta. Hún ræddi við blaðamenn áður en hún hitti Höllu.
Þorgerður sagði að hennar skilaboð til forseta væru að það þyrfti að kjósa sem fyrst, og að ekkert óeðlilegt sé að ríkisstjórnin starfi fram að kosningum - slíkt hafi gerst áður. „En það er skrýtið að sjá hvað það er mikill ágreiningur, þeirra er ábyrgðin og þeir verða að axla sína ábyrgð en ekki vera með ólund í garð hvers annars, sem síðan bitnar á þjóðinni,“ sagði hún.
Athugasemdir