Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, hefur síðustu daga átt samtöl við Bjarna Benediktsson forsætisráðherra sem í morgun skilaði til hennar tillögu um þingrof og almennar kosningar til Alþingis í lok nóvember. Hún ræddi jafnframt við formenn hinna ríkisstjórnarflokkanna í gærkvöldi og ætlar sér að gefa sér tíma til þess að ræða við formenn allra flokka sem eiga sæti á Alþingi.
Eftir þá fundi ætlar hún sér að „leggja mat á stöðu mála“ áður en hún tekur afstöðu til tillögu Bjarna um þingrof sem hún ætlar sér að tilkynna um síðar í vikunni.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Höllu sem segir að ríkisstjórnin muni sitja fram til kosninga.
„Fallist ég á tillögu forsætisráðherra um þingrof skal samkvæmt 24. greinar stjórnarskrár boða til kosninga áður en 45 dagar eru liðnir frá því tilkynnt er um þingrofið.“
Halla hefur jafnframt látið fjölmiðla vita af því að hún muni ekki svara spurningum þeirra í dag. „Enda hef ég engu við þetta að bæta að sinni.“
Athugasemdir