Bæjarstjórn Bolungarvíkur lýsir miklum áhyggjum yfir stöðu öryggis í samgöngumálum á Vestfjörðum í kjölfar hættuástands sem varð vegna bruna í langferðabíl rétt utan við gangamunna Vestfjarðaganga um miðjan september. „Staðan í jarðgangamálum á Vestfjörðum er óboðleg og lýsir bæjarstjórn Bolungarvíkur yfir þeirri afstöðu sinni að hraða þurfi uppbyggingu jarðganga á Vestfjörðum, þ.m.t. tvöföldun Vestfjarðaganga sem allra fyrst,“ segir í bókun sem samþykkt var einu hljóði á fundi bæjarstjórnar Bolungarvíkur í vikunni.
Samkvæmt samgönguáætlun sem lögð var fram á Alþingi síðasta vor en ekki náðist að afgreiða, eru mörg göng á undan breikkun Vestfjarðaganga í forgangsröðinni. Til stendur að breikka Breiðadalslegg ganganna, um 4,1 kílómetra kafla, og er kostnaðurinn talinn geta numið um 13,5 milljörðum króna. Lagt er til að breikkunin verði gerð á árunum 2038 og 2039.
Vel á sjötta hundrað hafa skrifað nafn sitt á undirskriftalista þar sem þess er krafist að ríki og sveitarfélög taki því alvarlega hversu mikil „dauðagildra“ Vestfjarðagöngin séu. „Bæði vegna þess að þau eru einbreið í tveimur afleggjurum og vegna klæðningar sem þar er,“ segir í áskoruninni. „Ef eldur læsir sig í þessar klæðningar þá er voðinn vís. Við tryggjum ekki eftir á. Skrifum undir listann til að láta í okkur heyra varðandi öryggi okkar allra, áður en það verður um seinan.“
Athugasemdir