Það sem ég hef lært í lífinu fram að þessu er að það er alltaf hægt að læra meira. Hæfnin til sköpunar og þekkingarþorstinn minnkar ekki með árunum. Ég hef alltaf haft unun af að lesa og að sökkva sér ofan í góða bók kemur alltaf til með að skila þér einhverjum ávinningi.
Eitt af því er hæfileikinn til að setja sig í spor annarra, finna til samlíðunar og löngunar til að hjálpa öðrum. Vel sköpuð, margbrotin sögupersóna verður í huga lesandans svo raunveruleg að áður en hann veit er hann farinn að tala við hana, skamma fyrir rangar ákvarðanir, peppa upp þegar illa gengur, hugga í sorgum og iðulega er beinlínis sárt að geta ekki rétt hjálparhönd. Það getur verið óskaplega erfitt að stilla skap sitt þegar höfundur fer illa með uppáhaldspersónuna þína og ég hef orðið að skella aftur bók og klára hana seinna þegar ósvífinn höfundur drap manneskju sem alls ekki átti slík örlög skilið.
Minni samlíðan
Í íslensku samfélagi er skortur á samkennd. Samkvæmt samnorrænni rannsókn sýndu íslensk börn og ungmenni minni samlíðan með öðrum en jafnaldrar þeirra á öðrum Norðurlöndum. Þetta þurfum við að bæta. Það er á ábyrgð foreldranna, engra annarra. Hugsanlega hafa margir þá trú að maðurinn sé góður í eðli sínu og öll börn fæðist með innbyggðan siðferðislegan áttavita en þannig er það ekki. Eða í það minnsta ef svo er þarf að stilla þann kompás reglulega og skýra fyrir börnum að þeirra réttur nær ekki lengra en að garði nágrannans. Fyrstu árin eru börn krefjandi og sjálflæg, enda þurfa þau að vera það til að lifa af, krefjast af öllum kröftum að þörfum þeirra sé mætt en það þarf að aga þann kraft frá fyrstu stundu.
Ég hef lært að siðferði, umburðarlyndi og velvild kemur ekki af sjálfu sér. Ég hef líka lært að dómgreind er ekki meðfædd og til þess að skapa gott samfélag þarf að manna það góðu fólki. Ég og mín kynslóð lásum, Bláskjá, Óliver Twist, David Copperfield, Hildu á Hóli, Pollýönnu og Önnu í Grænuhlíð. Allt bækur um börn á vergangi. Þau þurftu stuðning og að einhver góður sýndi skilning og breytti hlutskipti þeirra. Við getum gert það bæði sem þjóð og einstaklingar.
Góðir menn snúast gegn illsku
Edmund Burke sagði að það eina sem þyrfti til að illskan fengi að ráða væri að góðir menn gerðu ekkert. Ég er þess fullviss að það er rétt. En grundvöllurinn undir þá speki er að til séu góðir menn. Þess vegna þurfum við að rækta mennskuna, alls staðar. Það verður einungis gert með því að hjálpa börnum frá unga aldri að sjá hlutina frá sjónarhóli annarra, skynja sársauka annarra og hamra inn í þau að enginn hafi rétt til að troða á tilfinningum annarrar manneskju eða níðast á henni á annan hátt. Við þurfum að gefa börnunum okkar þá gjöf að þau geti lesið í fas annars fólks, skynjað ef því líður illa og bera virðingu fyrir öllum.
„Samt dáðist ég enn meir að hinu, hve hjörtum manna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu,“ segir í Ljóði um unga konu frá Súdan, eftir Tómas Guðmundsson og þannig er það. Í grunninn hafa allir menn sömu þörf fyrir öryggi, ástúð og tengsl og það er á ábyrgð allra þeirra sem byggja samfélag að veita þetta. Hefja sig yfir mismunandi klæðaburð, lífsviðhorf, menntun og efnahagsstöðu og sýna skilning. Ég hef lært að það er hægt og að þakklæti er djúpstæð og einlæg tilfinning sem skapar sátt.
Flestir hafa líklega einhvern tíma komist í hann krappan og sloppið naumlega. Léttirinn og gleðin sem streymir um þá eftir slík atvik er hreint þakklæti. Að þessu leyti er þakklæti meðfædd tilfinning og sameiginleg öllum. Í daglegu lífi þegar engin hætta steðjar að eða vandi sem tekst að leysa farsællega er þakklætið hins vegar fjarri huga flestra. En einmitt þar má bæta um betur og halda í heita þakklætistilfinningu með því að leggja sig eftir því að finna hluti til að vera þakklátur yfir.
Sælla er að gefa en þiggja
Rannsóknir vísindamanna hafa sýnt að þeir sem eru þakklátir eru almennt hamingjusamari og heilsubetri en aðrir. Þeir eru einnig lausir við hroka og eiga í betri samskiptum við aðra. En þakklæti þarf að þjálfa. Foreldrar þurfa að kenna börnum sínum að vera þakklát fyrir þær gjafir sem lífið gefur þeim. Ef börnin fá allt fyrirhafnarlaust finna þau aldrei til þakklætis. Ef þeim er ekki kennt að það sé ekki sjálfsagt að búa við allsnægtir og öryggi skynja þau ekki neyð annarra þegar þeir eru sviptir slíkum kjörum. Þakklæti er auðmjúk tilfinning, innileg og hlý.
„Það er á okkar valdi að breyta okkur sjálfum og með því umhverfi okkar“
Ég hef líka lært að sælla er að gefa en þiggja. Að gefa öðrum af allsnægtum sínum, tíma sínum og gefa honum hlutdeild í sínum heimi er mun notalegri tilfinning en að hrifsa til sín allt sem maður getur mögulega rakað að sér og laumast síðan með það út á aflandseyjar til að tryggja að ekki þurfi að skipta kökunni með öðrum. Þess vegna þurfum við að kenna börnum örlæti og skilning á að peningar og eignir skapa aldrei varanlega lífshamingu. Lesum þess vegna fyrir þau Jólasögu Dickens, leyfum þeim að kynnast kjörum annarra barna í gegnum SOS-barnaþorpin, ABC eða annað hjálparstarf. Bendum þeim á að það er hægt að rétta fram hjálparhönd á marga vegu.
Ísland er mikið breytt frá því ég var barn. Einmitt í dag eru flestir hér á landi svolítið skeknir. Sjö manns hafa verið myrt á þessu ári, sjö einstaklingar sem munar um á litlu landi. Þar af eru þrjú börn, eitt þeirra drepið af barni. Náttúruhamfarir hafa neytt heilt bæjarfélag til að leggja á flótta og flytja börnin sín í nýtt umhverfi. Skyldi verða vel tekið á móti þeim þar? Skyldi samlíðan íslenskra barna og unglinga nægja til þess þótt hún sé minni en á Norðurlöndunum? Það á eftir að koma í ljós en ég hef lært að það er á okkar valdi að breyta okkur sjálfum og með því umhverfi okkar.
Athugasemdir