Í síðustu viku fylgdist ég með réttarhöldum fyrir dómstól í London þar sem mál Samherja gegn listamanninum Oddi Eysteini Friðrikssyni var tekið fyrir. Stefndi fyrirtækið Oddi Eysteini, sem gengur undir listamannsnafninu Odee, fyrir að skopstæla fyrirtækið þegar hann birti falska afsökunarbeiðni í nafni þess á vefsíðunni samherji.co.uk.
Í réttarsalnum leitaðist Odee við að sýna fram á að um réttmætan listgjörning væri að ræða sem hefði verið ætlað að vekja umræðu um meintar mútugreiðslur Samherja í Namibíu. Lögmenn Samherja freistuðu þess hins vegar að færa rök fyrir því að verknaðurinn teldist ekki list heldur misnotkun á vörumerki fyrirtækisins.
Þegar ég steig út úr réttarsalnum, eftir að dómarinn kvaðst ætla að fresta því að kveða upp dóm, tók ég símann minn upp úr vasanum. Það fyrsta sem blasti við mér voru fréttir þess efnis að embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra hefði fellt niður rannsókn máls þar sem sex blaðamenn höfðu réttarstöðu sakbornings. Áttu blaðamennirnir það sameiginlegt að hafa unnið fréttir upp úr gögnum um hina svo kölluðu „skæruliðadeild Samherja“.
„Myndin sem blasti við í símanum mínum stangaðist rækilega á við þá mynd sem lögmenn Samherja höfðu málað af fyrirtækinu í réttarsalnum stundarkorni fyrr“
„Ég, og kollegar mínir, fengum þessa réttarstöðu vegna þess að hluti okkar skrifaði fréttir um það hvernig hópur fólks, með vitund og vilja stjórnenda eins stærsta fyrirtækis landsins, vann skipulega að því að reyna að hafa æruna, heilsuna og lífsviðurværið af blaðamönnum sem fjölluðu um fyrirtækið,“ ritaði Þórður Snær Júlíusson, fyrrverandi ritstjóri Heimildarinnar og einn sexmenninganna, á Facebook. Hann sagði framgöngu bæði lögreglunnar á Norðurlandi eystra og skæruliðadeildar Samherja einstaka í Íslandssögunni og lýðræðinu stórhættulega.
Myndin sem blasti við í símanum mínum stangaðist rækilega á við þá mynd sem lögmenn Samherja höfðu málað af fyrirtækinu í réttarsalnum stundarkorni fyrr.
Jonathan Hill, lögmaður Samherja, vísaði alfarið á bug fullyrðingu Odee um að málið snerist um tjáningarfrelsið og rétt fólks til að fjalla um mútuhneykslið í Namibíu. „Blaðamönnum er heimilt að skrifa það sem þeir vilja um Samherjaskjölin,“ sagði Hill. Hann sagði listamanninn hins vegar ekki kæra sig um staðreyndir heldur kvað hann stunda skrumskælingu. „Skjólstæðingur okkar hefur ekki nokkurn áhuga á að koma í veg fyrir að blaðamenn skrifi um hneykslið.“
Ótti við málsókn
Í kjölfar niðurfellingar lögreglurannsóknarinnar á Norðurlandi eystra sagði formaður Blaðamannafélags Íslands, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, málatilbúnað lögreglunnar hafa verið tilhæfulausan frá upphafi. Hún sagði málið hafa hvílt þungt á blaðamönnunum og fjölskyldum þeirra og nokkrir þeirra hefðu ákveðið að yfirgefa fagið. Hún kvað slíka lögreglurannsókn ekki aðeins hafa „kælingaráhrif“ á umrædda blaðamenn „heldur alla stéttina“.
Fyrir utan réttarsalinn náði ég tali af Odee. Þrátt fyrir fullyrðingar lögmanns Samherja um að fyrirtækið væri hliðhollt tjáningarfrelsinu kvaðst hann sannfærður um að málsókninni væri ætlað að kæfa opinbera umræðu. Hann sagði málið snúast um annað og meira en listaverk hans sjálfs. Taldi hann líkur á að málsókn Samherja leiddi til „kælingaráhrifa“ en hún hræddi aðra frá því að tjá sig um fyrirtækið af ótta við að vera stefnt fyrir dómstól.
Orðum aukið
Dómari í London sker nú úr um hvort Odee sé listamaður. Þórður Snær Júlíusson er ekki lengur blaðamaður.
Gögn, sem leiddu til þess að sex blaðamenn sættu lögreglurannsókn, sýna að skæruliðadeild Samherja réðst markvisst gegn nafngreindum blaðamönnum sem höfðu fjallað um meintar mútugreiðslur Samherja í Namibíu. Það hlýtur því að teljast orðum aukið að Samherji hafi „ekki nokkurn áhuga á að koma í veg fyrir að blaðamenn skrifi um hneykslið“.
Fyrir breskum dómstól saka lögmenn Samherja Odd Eystein Friðriksson um að leggja fyrirtækinu orð í munn með verki sínu „We’re Sorry“ og villa þannig á sér heimildir. En hvar mun Samherji þurfa að svara fyrir að villa á sér heimildir sem sérlegur unnandi tjáningarfrelsisins fyrir sama dómstól?
Athugasemdir (2)