Rúm 45 prósent landsmanna eru hlynnt aðild Íslands að Evrópusambandinu, samkvæmt nýrri könnun sem Maskína gerði fyrir Evrópuhreyfinguna. Hlutfall þeirra sem segjast hlynnt aðild hefur aldrei mælst hærra, frá því að Maskína og áður MMR hófu að spyrja þessarar spurningar reglulega árið 2011.
Könnunin var framkvæmd dagana 16. til 24. september og voru svarendur 1.067 talsins, en um er að ræða netkönnun sem lögð var fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur sem dreginn er af handahófi úr Þjóðskrá.
Jafn mörg mjög hlynnt og mjög andvíg
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru 45,3 prósent hlynnt aðild, 35,7 prósent andvíg og 19 prósent svarenda sögðust hvorki hlynnt né andvíg. Alls bárust 892 gild svör, sem þetta niðurbrot byggir á. 22,7 prósent sögðust mjög hlynnt aðild en 22,8 eru mjög andvíg aðild.
Að auki svöruðu 175 manns því til, eða rúm 16 prósent allra svarenda að þau ýmist vissu ekki hvað þeim þætti um aðild Íslands að ESB, eða vildu ekki svara spurningunni.
Miklar sviptingar hafa orðið á afstöðu landsmanna til aðildar að Evrópusambandinu á undanförnum misserum, en í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu árið 2022 er líkt og landsmenn hafi, af einhverjum orsökum, orðið hallari undir aðild Íslands að sambandinu.
Jón Steindór Valdimarsson, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar og formaður Evrópuhreyfingarinnar, segir í samtali við Heimildina að erfitt sé að átta sig á því sem fólk er að hugsa, en að einhverskonar viðhorfsbreyting virðist hafa átt sér stað eftir innrás Rússa í Úkraínu. Fólk hafi í auknum mæli farið að hugsa um „staðsetningu Íslands í samfélagi þjóðanna“
„Ég held að það sé höfuðskýringin. Síðan held ég líka að hluta til að þetta séu efnahagsmálin hérna hjá okkur; vaxandi verðbólga, hækkandi vextir og erfiðari greiðslubyrði fyrir margt fólk. Það er þekkt staðreynd að í málum sem þessum hefur efnahagsástand áhrif,“ segir Jón Steindór.
Skýrir flokkadrættir
Þegar könnunin er brotin niður eftir stuðningi við stjórnmálaflokka sjást skýrar flokkalínur. Stuðningsfólk Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata er langsamlega hallast undir aðild, en þau sem segjast hafa í hyggju að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, Miðflokkinn og Framsókn eru andvígust aðild að sambandinu.
Spurður út í þessa flokkadrætti segir Jón Steindór að afstaða fólks virðist litast af því hvað forystufólk flokkanna segir um málið á hverjum tíma.
„Það eru ekkert rosalega mörg ár, eins og með Sjálfstæðisflokkinn, þar sem þetta var 50/50 mál í þeim flokki. En síðan þá hefur flokkurinn bæði minnkað og orðræða forystunnar breyst,“ segir Jón Steindór og nefnir einnig að stuðningsfólk bæði Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins séu jákvæðari í garð aðildar Íslands að ESB en halda mætti, sé horft til áherslna sem komið hafi frá forystu þessara flokka.
Athugasemdir