Útflutningur á landi í orðsins fyllstu merkingu hefur verið einhver áratugum saman en er að taka á sig nýja og stærri mynd. Erlent fyrirtæki hyggst flytja út á næstu árum 75 milljónir rúmmetra af móbergi frá Þorlákshöfn í þeim tilgangi að skapa þar störf og draga úr mengun í heiminum. Til að skilja umfang þessarar landssölu leit ég til fæðingarstaðar míns sunnan Péturseyjar í Mýrdal. Pétursey er 275 metra hár móbergsstapi. Bergkjarni hans er um 1 km að lengd og um 750 metrar á breidd. Jafnaðarhæð hans er um 200 metrar. Rúmmál bergsins gæti því verið um 150 milljón rúmmetrar. Fyrirhugaður landútflutningur frá Þorlákshöfn samsvarar hálfu svona fjalli.
Pétursey tilheyrir bæjunum sunnan hennar og hafa þeir rétt til nýtingar á henni svo sem til beitar og til fýla- og eggjatöku. En hvað þýðir slíkur „réttur“? Gætu eigendurnir til dæmis samið við erlent fyrirtæki um að brjóta fjallið niður og flytja það út? Ég þykist vita að slíkt hvarflar ekki að sveitungum mínum. Hið sama má einnig spyrja um fjöll á Reykjanesskaga, vikur á Mýrdalssandi eða við Heklurætur eða jarðefni annars staðar á landinu eða á landgrunninu. Geta einstaklingar eða sveitarfélög ráðskast að eigin vild með náttúru landsins og selt hana í hendur annarra?
Regluverk umhverfis- og auðlindamála er að mestu takmarkað við náttúruvernd og mengun umhverfis. Helstu álitamálin eru utan gildissviðs þessara laga og verksviðs þeirra stofnana sem fylgja þeim eftir. Spurningum um eignarhald og nýtingarrétt á náttúru landsins og auðlindum hennar er ósvarað hvort sem litið er til stjórnarskrár eða laga. Þau mál eru í reynd háð geðþótta stjórnvalda á hverjum tíma. Máttleysi gildandi reglna er bersýnilegt hvort sem litið er til umhverfisáhrifa eða framsals á auðlindanýtingu og auðlindarentu. Það sýnilegasta er ef til vill fjallshlíðin þar sem Ingólfur Arnarson kann að hafa haft vetursetu á leið sinni til Reykjavíkur. Hún hefur þá verið gróðri vaxin eins og orð þræla hans vitna um: „Til ills forum vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.“
Svöðusár blasir nú við í hlíðum Ingólfsfjalls. Sama andvaraleysi gagnvart almannarétti kemur fram í því hvernig og hverjum hefur verið veittur aðgangur að orkuauðlindum landsins, fiskimiðum, fjörðum þess og jarðnæði.
Fyrirtækin sem vilja flytja landið út sem grjót, sand eða vikur eru vafalaust að tísku stórfyrirtækja og að eigin sögn umhverfismeðvituð. Eitt þeirra kennir sig við borgina Heidelberg í Baden-Württemberg í Þýskalandi. Í hlíð fjallsins, sem borgin tekur nafn af, eru gamlar hallarrústir sem eru nú varðveittar sem menningar- og söguminjar. Myndi fyrirtækinu detta í hug að brjóta fjallið og höllina niður ef með því mætti breyta grjóti í gull? Myndi almenningur í Heidelberg og Þýskalandi sætta sig við það? Án þess að jafna Litla Sandfelli eða Ingólfsfjalli við Heidelberg má fullyrða að það sé ekki hlutverk erlendra stórfyrirtækja og umboðsmanna þeirra að ákveða forlög og nýtingu náttúrufyrirbæra á Íslandi.
Almannahagsmunir og sérhagsmunir
Mál sem þessi snúast um almannarétt og almannahagsmuni og skilin milli þeirra og sérhagsmuna. Hallað hefur á almannarétt í þeim málum. Einkaeignarréttur hefur verið blásinn upp af sérhagsmunaöflum en sameignarrétti þjóðarinnar verið ýtt til hliðar. Norski fræðimaðurinn Gro Steinsland lýsir í grein frá árinu 2022 réttarþróun í Noregi í þessum efnum. Niðurstaða hennar er að frá því á miðöldum hafi almannaréttur verið skertur með valdbeitingu kirkju og kónga. Eftir tilkomu lýðræðis hefur sú þróun haldið áfram vegna sterkrar pólitískrar stöðu sérhagsmunaafla. Þetta á einnig við um Ísland. Endursögn á grein Steinsland „Sameign í þúsund ár“ má finna á heimasíðu minni.
„Neikvæð áhrif steinsteypu á loftgæði hafa lengi verið þekkt en nú er látið sem fundist hafi töfralausn í milljóna ára gömlu móbergi sem verið hefur fyrir augum okkar frá landnámi og talið sjálfgefið að fjöll af því séu föl til útflutnings“
Eignarhaldsfélagið sem hafa vill milligöngu um landsöluna til Heidelberg hefur kynnt verkefnið með lítt rökstuddum fullyrðingum um tæknileg atriði, loftlagsáhrif og meintan ávinning sveitarfélagsins. Ekkert er fjallað um þjóðhagsleg og samfélagsleg áhrif af ráðstöfun náttúruauðlinda til erlendra aðila eða fórnarkostnað af stórfelldum inngripum í náttúru landsins og auðlindir þess. Meintur ávinningur sveitarfélagsins er blásinn upp en í engu getið kostnaðar af því að fórna landi og veita starfseminni og auknum íbúafjölda þjónustu. Þau rök sem færð eru fyrir hag nærsamfélagsins eru dæmi um það hvernig sterkir hagsmunaaðilar reyna að ginna forsvarsmenn þess til fylgilags með gylliboðum. Látið er líta svo út að einungis sé verið að þjóna göfugum markmiðum og efla nærsamfélagið. Í engu er getið ávinnings framkvæmdaaðilanna þannig að ætla mætti að þeir fórni sér fyrir þessi markmið án hagnaðarvonar. Það er blekking. Ekki er vafi á því að verkefnið er fyrst og fremst tilraun til að tryggja erlendu félagi aðgang að náttúruauðlind til margra áratuga og skapa því og hinum innlendu samstarfsaðilum einokunaraðstöðu og hagnað.
Loftgæði og atvinnusköpun eða gróði og rentusókn
Markmið landssölunnar eru sögð atvinnusköpun og loftlagsvernd en erfitt er að sjá hvernig þessum markmiðum verði náð. Nokkrar almennar glærur með staðhæfingum um jákvæð loftslagsáhrif eru ekki sannfærandi. Neikvæð áhrif steinsteypu á loftgæði hafa lengi verið þekkt en nú er látið sem fundist hafi töfralausn í milljóna ára gömlu móbergi sem verið hefur fyrir augum okkar frá landnámi og talið sjálfgefið að fjöll af því séu föl til útflutnings.
Efnahagsleg rök fyrir verkefninu eru byggð á veikum grunni. Fjárfesting í nýrri atvinnustarfsemi er ekki hagkvæm nema aðrir framleiðsluþættir í landinu, einkum vinnuafl, séu ekki fullnýttir. Sé ekki svo verða efnahagsáhrif af fjárfestingunni lítil sem engin eða jafnvel neikvæð. Ekkert viðvarandi atvinnuleysi hefur verið í landinu áratugum saman og á síðari árum hefur verið nauðsynlegt að flytja inn mannafla í stórum stíl til starfa. Við þær aðstæður hefur ný starfsemi ekki í för með sér fjölgun starfa nema með innflutningi erlends vinnuafls annars ryður hún burt annarri starfsemi. Jákvæð efnahagsleg áhrif geta þó orðið en hin nýju störf eru betur launuð en þau sem hverfa eins og að er látið liggja sem er þó fremur ólíklegt þar sem fyrst og fremst er um að ræða grjótnám, grjótmölun og flutninga. Svæðisbundin áhrif á atvinnu kynnu að verða einhver.
Þjóðhagslegur ávinningur af innfluttu vinnuafli er óviss. Efnahagslegt framlag atvinnustarfsemi kemur fram í þeim tekjum sem hún skapar; vinnulaunum, fjármagnstekjum (hagnaði, arði og greiddum vöxtum) og auðlindarentu. Séu eigendur rekstrarins og fjármögnunaraðilar erlendir hirða þeir hagnaðinn, fjármagnstekjur og rentu sé hún ekki varin. Launin standa þá eftir sem framlag til þjóðarframleiðslu. Sú nálgun sem birtist í rökum fyrir verkefnum stefnir að því að gera landið og auðlindir þess að einhvers konar verstöð fyrir rentusókn erlendra stórfyrirtækja í stað þess að reka atvinnustefnu sem byggir á fullnýtingu á framleiðsluþáttum þjóðarinnar og réttinum til að hagnýta auðlindir landsins í þágu þjóðarinnar.
Málatilbúnaður í kynningunni þjónar þeim tilgangi einum að selja málið á heimavettvangi en fela megintilgang þess, hagnaðarvon þeirra sem að því standa. Slíkt markmið er ekki óeðlilegt í markaðshagkerfi að því gefnu að í því ríki samkeppni og virtur sé réttur annarra. Hvorugt er hér til staðar. Þessi aðferðafræði er í samræmi við stefnu í auðlindamálum á síðustu áratugum þar sem erlendum og innlendum fjármálaöflum hafa verið afhent umráð og allur arður af auðlindunum og lagalegt starfsumhverfi mótað að þörfum þeirra en almannahagur borinn fyrir borð og réttur þjóðarinnar einskis virtur. Minnir það óneitanlega á stöðu auðlindamála í mörgum þróunarríkjum þar sem slíku fyrirkomulagi var þvingað upp á þau af fyrrum nýlenduherrum en hér á landi eru innlend stjórnvöld að verki.
Í kynningunni er ekki minnst á hvernig félagalegu skipulagi starfseminnar og réttindamálum verður háttað. Aðeins sagt frá eignarhaldsfélagi sem stendur fyrir kynningu málsins. Þess er ekki getið hver muni standa fyrir rekstrinum, hver hafi nýtingarrétt á efnisnámunum og hvernig hann sé fenginn. Þessi atriði skipta miklu máli og ráða því í reynd hvort arður af framleiðslunni lendir hér á landi eða hverfur að fullu í vasa erlendra aðila og agenta þeirra.
Útsala á náttúruauðlindum eða auðlindastefna
Grjótnám í Litla Sandfelli og fyrirhuguð grjótmölun í Þorlákshöfn er ekki aðalatriði þessa máls heldur er það tekið sem dæmi vegna þess hve vel það sýnir þá vankanta sem eru á öllu regluverki um nýtingu náttúruauðlinda hér á landi og afhjúpar þær aðferðir sem rentusækin fjármálaöfl beita til að ná þeim í sínar hendur. Með ónýtum lagaramma um náttúruauðlindir hefur verið skapað kjörlendi fyrir fjármálabrask og spákaupmennsku með þær. Eignarhaldi á landi og/eða nýtingu á því verður auðfengin bráð klókra fjáraflamanna í viðskiptum við lítt reynda Frónbúa og ginkeypta stjórnmálamenn þeirra.
Sama skeytingarleysi um almannahag færði fáeinum fjölskyldum í landinu fiskveiðiheimildirnar að mestu leyti og setti fiskeldi í fjörðum landsins í hendur norskra stórfyrirtækja. Einnig því að selja hluta orkuframleiðslunnar í hendur erlendra fjármálamanna og í sama stefnir með vindorku þar sem erlendir fjármálagammar hafa tyllt sér á rokvæna fjallatoppa og bíða átekta. Sala jarðefna úr landi í stórum stíl til erlendra stórfyrirtækja og sala á jörðum til erlendra auðmanna fer einnig fram í andvaraleysi af hálfu stjórnvalda.
Stjórnmálaflokkar landsins hafa aldrei lagt það á sig að móta og bera fram auðlindastefnu sem byggð er á eignarrétti þjóðarinnar á náttúru landsins og auðlindum hennar, skyldum hennar til að varðveita þær, rétti hennar til að ákveða nýtingu þeirra og njóta þeirra verðmæta sem þær skapa. Almenna stefnu sem tæki jafnt til allra náttúruauðlinda sem nýttar eru í hagnaðarskyni. Er ekki kominn tími til þess?
Á árum áður þótti það góð búbót fyrir bónda ef hann gat selt gróinn múla í ofaníburð til Vegagerðarinnar. Það hefur ekkert breyst síðan nema malarvegum hefur fækkað mikið. Það er ekkert sem bannar landeiganda að stunda efnistöku inn að jarðarmiðju hafi hann til þess tæki og tól.