Þessi grein birtist fyrir rúmlega 6 mánuðum.

Vopnahlé slegið af borðinu og innrás í uppsiglingu

Átök­in á landa­mær­um Ísra­els og Líb­anon hafa stig­magn­ast ört á skömm­um tíma og óljóst er hvort vopna­hlé sé í sjón­máli. 600 manns hafa ver­ið drepn­ir í sprengju­árás­um Ísra­els­hers frá því á mánu­dag og 90.000 líb­anskra borg­ara hafa hrak­ist frá heim­il­um sín­um.

Vopnahlé slegið af borðinu og innrás í uppsiglingu
Stigvaxandi átök Ísraelsher varpaði sprengjum á 75 skotmörk í Líbanon síðastliðinn fimmtudag. Á myndinni má sjá íbúa í þorpi sem varð fyrir árásinni rannsaka húsarústir sem sprengdar voru um nóttina. Mynd: /AFP

Hernaðarátökin á landamærum Ísraels og Líbanon halda áfram að stigmagnast og svo gæti farið að Ísraelsher ráðist inn í Líbanon. Ástandið á svæðinu hefur ekki verið verra í rúm þrjátíu ár. Hátt í 600 manns hafa látist eða særst í sprengjuárásum Ísraelshers í Líbanon. Níutíu þúsund Líbanir hafa misst heimili sín í árásunum undanfarna viku. Um það bil 60 þúsund ísraelskra ríkisborgara hafa flúið heimili sín í norðurhluta landsins vegna átakanna. 

Árásir Ísraels hafa að mestu beinst að suðurhluta Líbanon og að Beqaa-dalnum fyrir miðju landsins þar sem Hezbollah-samtökin eru talin reka höfuðstöðvar. 

Í síðustu viku voru margir forystumenn í Hezbollah ráðnir af dögum í sérstökum aðgerðum sem stýrt var af leyniþjónustu Ísraels og Ísraelsher. Fólust aðgerðirnar meðal annars í því að símboðar og talstöðvar sprungu víðs vegar í Líbanon þar sem að minnsta kosti 37 létu lífið og þúsundir særðust.    

Stigvaxandi árásir

Aðfaranótt fimmtudags réðst ísraelski flugherinn á 75 skotmörk í suðurhluta Líbanon þar sem 20 manns létust. Í tilkynningu frá hernum sagði að árásin hafi beinst að vopnageymslum, herstöðvum og öðrum innviðum í eigu Hezbollah-samtakanna. Fréttaveitur í Líbanon hafa sagt að sprengjum hafi verið varpað á íbúahverfi í Beirút.        

Stjórnvöld í Ísrael hafa sagt að markmið árásanna sé að brjóta Hezbollah-samtökin á bak aftur fyrir fullt og allt. Leiðtogar Hezbollah segja hins vegar að tilgangurinn að baki loftárásum þeirra sé að styðja við bandamenn sína í Gaza og þrýsta á stjórnvöld í Ísrael til þess að láta af umsátri sínu og semja um vopnahlé við Hamas.   

Reiðubúnir að ráðast inn í Líbanon

Blikur eru á lofti um að Ísrael muni brátt hefja allsherjarinnrás inn í Líbanon en yfirmaður herafla Ísraels, Herzi Halevi, hefur sagt að undirbúningur fyrir innrásina sé hafinn. Ísrael gerði síðast innrás inn í suðurhluta Líbanon árið 1982 með það markmið að útrýma Hezbollah-samtökunum. 

Hernámið stóð yfir í 18 ár. Haft er eftir einum álitsgjafa á fréttaveitu BBC að mörgum Ísraelsmönnum hugnist ekki að endurtaka leikinn. Á sama tíma hafa tillögur um vopnahlé mælst illa fyrir meðal íbúa í norðurhluta Ísraels sem hafa búið við árásir frá Hezbollah síðan í október í fyrra.     

Vopnahlé ekki í höfn

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, tilkynnti í gær að vopnahlé milli Ísraels og Hezbollah væri ekki í höfn. Þvert á móti sagði forsætisráðherrann að hann hefði skipað hernum að halda áfram að berjast af fullum mætti. Fjármálaráðherra og utanríkisráðherra Ísraels sendu sömuleiðis frá sér svipaðar yfirlýsingar þar sem áréttað var að ísraelsk stjórnvöld hefðu ekki samþykkt tillögur um vopnahlé. 

Bandaríkin og Frakkland hafa undanfarið unnið að því að koma á vopnahléi milli Ísraels og Hezbollah og koma í veg fyrir frekari stigmögnun á stríðinu fyrir botni Miðjarðarhafs. Lögð var fram tillaga um þriggja vikna langt vopnahlé til þess að skapa svigrúm fyrir friðsamlegar úrlausnir og gefa óbreyttum borgurum beggja vegna landamæranna tækifæri til þess að koma sér í öruggt skjól.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í viðtali á miðvikudaginn að ekki sé hægt að útiloka að allsherjarstríð breiðist út yfir Mið-Austurlönd. Hann hvatti aðildarríki Sameinuðu þjóðanna til þess að vinna saman að því að koma í veg fyrir áframhaldandi stigmögnun á svæðinu. Bandaríkjaforseti hefur þó verið gagnrýndur fyrir að hafa ekki beitt sér nægilega fyrir friðsamlegri úrlausn mála.        

Hezbollah hefur enn ekki brugðist við tillögunni um að hlé verði gert á átökunum. Forsætisráðherra Líbanons, Najib Mikati, hefur sagt að hann sé hlynntur tillögunni en ríkisstjórn hans hefur litla sem enga stjórn á ákvörðunum Hezbollah.

Hezbollah hefur lýst því yfir að þau munu ekki hætta árásum sínum fyrr en samið verður um vopnahlé á Gaza. Þær viðræður hafa ekki skilað árangri þrátt fyrir margra mánaða samningaviðræður undir forystu Bandaríkjanna, Egyptalands og Katar. Samkvæmt heilbrigðisráðuneyti Gaza hafa um 40.000 Palestínumenn týnt lífinu í árásum Ísraelshers.  

Netanjahú ávarpar alþjóðasamfélagið í dag

Benjamín Netanjahú mun mæta á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York þar sem hann mun ávarpa þingheim á fundi sem fer fram í dag. Þar mun hann líklega, eins og svo oft áður, verja lögmæti stefnu og aðgerðir ríkisstjórnar hans í átökunum í Gaza sem hafa staðið yfir í tæpt ár. Ofan á það bætast hernaðaraðgerðir og stigmögnunin sem hefur átt sér stað á landamærum Ísraels og Líbanon undanfarna daga og vikur. 

Netanjahú hefur margsinnis flutt ræður í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem valda úlfúð. Samkvæmt skýringu sem birt var á fréttaveitunni AP kemur fram að forsætisráðherranum hafi oft tekist vel að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og verja ákvarðanir sínar. Þá hafi ræður hans ekki síst aukið vinsældir hans heima fyrir. 

Hins vegar þykir óvíst hvort Netanjahú takist að ná svipuðum árangri þegar hann mætir í pontu í fundarsal Sameinuðu þjóðanna í dag. Pólitísk staða hans heima fyrir hefur farið ört hrakandi og ríkisstjórn hans hefur verið harðlega gagrýnd af mörgum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna.  

Kjósa
5
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • SIB
    Sigurður I Björnsson skrifaði
    Þetta er allt svo mikill hryllingur að það er ekki hægt að finna orð sem fanga það.
    2
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Sælukot hagnast um tugi milljóna en starfsfólk og foreldrar lýsa skorti
4
Rannsókn

Sælu­kot hagn­ast um tugi millj­óna en starfs­fólk og for­eldr­ar lýsa skorti

Einka­rekni leik­skól­inn Sælu­kot, sem hef­ur feng­ið millj­arð króna í op­in­ber fram­lög síð­asta ára­tug, hef­ur hagn­ast vel og nýtt pen­ing­ana til að kaupa fast­eign­ir fyr­ir stjórn­ar­for­mann­inn. Stjórn­end­ur leik­skól­ans segja mark­mið­ið vera að ávaxta rekstr­araf­gang, en fyrr­ver­andi starfs­menn og for­eldr­ar nem­enda kvarta und­an langvar­andi skorti. Skól­an­um var ný­lega lok­að tíma­bund­ið vegna óþrifn­að­ar og mein­dýra.
Hollt mataræði lykilatriði að góðri heilsu
6
Fréttir

Hollt mataræði lyk­il­at­riði að góðri heilsu

Ax­el F. Sig­urðs­son, sér­fræð­ing­ur í hjarta­lækn­ing­um, hef­ur skoð­að tengsl fæðu og lífs­stíls við sjúk­dóma, einkum hjarta- og æða­sjúk­dóma. Tal­að hef­ur ver­ið um að lífs­stíls­sjúk­dóm­ar séu stærsta ógn­in við heilsu fólks og heil­brigðis­kerfi til næstu ára­tuga. Ax­el seg­ir að fólk geti breytt miklu með hollu mataræði og hreyf­ingu. Fé­lags­leg tengsl séu líka mik­il­væg. Hann ráð­legg­ur hreina fæðu til að sporna við kvill­um.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár