Árni Finnsson, framkvæmdastjóri Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir könnun sem Gallup gerði nýverið um skoðun landsmanna á aukinni orkuframleiðslu skaða trúverðugleika Gallup sem og Samtaka atvinnulífsins sem könnunin var gerð fyrir. Að auki skaði hún trúverðugleika Landsvirkjunar.
Í bréfi sem Árni sendi félögum í Náttúruverndarsamtökunum ber hann saman kannanir Gallup og Maskínu um svipað efni. Gallup spurði „Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aukinni grænni orkuframleiðslu á Íslandi?“ Niðurstaðan var sú að 83 prósent aðspurðra sögðust því hlynnt. „Þetta er eins og að spyrja: Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aukinni lestrarkennslu í skólum?“ skrifar Árni.
Maskína spurði hins vegar: „Finnst þér skipta miklu, litlu eða engu máli að afla aukinnar orku á Íslandi?“
Könnun Maskínu sýndi að 65% aðspurðra finnist skipta miklu máli að afla aukinnar orku á Íslandi. Það er 16 prósentustigum minna en hjá Gallup sem orðaði spurninguna öðruvísi.
Í könnun Maskínu kemur einnig fram að eignarhald nýrra virkjana skipti máli þegar kemur að afstöðu til aukinnar orkuöflunar.
Þegar Maskína spyr um einn ákveðinn virkjanakost (Búrfellslund), þá fækkar í hópi þeirra sem eru hlynntir/hlynntar niður í 50%. Þar munar 15 prósentustigum, bendir Árni á.
En þegar spurt er: „Finnst þér skipta miklu, litlu eða engu máli að vindorkuframleiðsla sé í höndum opinberra aðila?“ telja 76% aðspurðra að miklu máli skipti að vindorkuframleiðsla sé í höndum opinberra aðila, 16% segja það í meðallagi mikilvægt og 8% segja eignarhald skipta litlu eða engu máli.
„Könnun Gallup er einfaldlega mjög hliðholl orkuiðnaðinum,“ skrifar Árni. „Landsvirkjun hlýtur að harma að hafa ekki spurt með faglegri hætti, líkt og Maskína gerði. Í lengdina eru kannanir eins og Gallup gerði skaðlegar fyrir trúverðugleika, Samtök atvinnulífsins, Landsvirkjun og Gallup.
Ætla má að orkufyrirtæki í opinberri eigu fagni þessari niðurstöðu en erlendir fjárfestar ekki.“
Athugasemdir (3)