Loftárásir Ísraelshers á yfirráðasvæði Hezbollah í Líbanon hafa haldið áfram í dag en ríflega hundrað eldflaugum var áður skotið í átt að íbúabyggð í Norður-Ísrael.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segir að Ísraelar muni grípa til hverra þeirra aðgerða sem nauðsynlegar þykja til að tryggja öryggi borgara sinna og að þeir sem búa við landamæri Ísrael og Líbanon, í Norður-Ísrael, geti snúið aftur heim til sín.
Netanyahu gaf fyrr í dag út yfirlýsingu í myndbandi á samfélagsmiðlinum X þar sem hann sagði að Hezbollah, stutt af yfirvöldum í Íran, hafi linnulaust ráðist á Ísrael síðan 6. október, að engin þjóð geti sætt sig við slíkt og það geri Ísraelar sannarlega ekki.
Liðsmenn Hezbollah báru í gær til grafar einn æðasta liðsmann sinn sem var drepinn í árásum Ísraela, Ibrahim Aqil. Hann var sérstakt skotmark Ísraela þegar loftárásir voru gerðar á fjölbýlishús í úthverfi Beirút á föstudag. Aqil hafði lengi verið eftirlýstur í Bandaríkjunum vegna aðkomu að árás á sendiráð Bandaríkjanna í Beirút árið 1983, sem og sprengjuárás á bandaríska landgönguliða í Beirút sama ár.
Spennan á landamærunum eykst stöðugt en það var á miðvikudag sem fregnir bárust af því að hundruðir símboða og talstöðva liðsmanna Hezbollah hafi sprungið með þeim afleiðingum að minnst níu létust og á þriðja þúsund særðust. Hezbollah segir Ísraelsher hafa staðið á bak við árásina en því hefur staðfastlega verið neitað.
Aqil særðist þegar símboðarnir sprungu og hafði verið útskrifaður af sjúkrahúsi þegar hann var drepinn af Ísraelum á föstudag. Meðlimir Hezbollah hafa lýst honum sem einum helsta leiðtoga heilags stríðs.
Athugasemdir