Þau hafa fylgt okkur í árþúsundir. Þau eru flest unnin úr náttúrunni og taka á sig mismunandi myndir eftir tegund, staðsetningu í heiminum og verkunaraðferð. Þau eiga það sameiginlegt að hafa áhrif á huga okkar – breyta honum og víkka – til góðs eða ills. Að auki eiga þau það sameiginlegt að vera mörg hver bönnuð með hinum ýmsu afleiðingum fyrir einstaklinga og samfélög.
Talið er að fyrsta bannstefnan gegn vímuefnum hafi verið sett á eftir að Konstantín keisari komst til valda á fjórðu öld og innleiddi kristni í rómverska heimsveldinu sáluga. Síðan þá hafa ýmsar útfærslur bannstefnu verið innleiddar í samfélögum og löndum sem hafa leitt til næstum algildrar lagasetningar í dag þar sem ákveðin vímuefni eru með öllu bönnuð. Verandi hluti af marítafræðslukynslóðinni varði ég meirhluta ævinnar þakklát fyrir slík boð og bönn gegn strámanninum ógurlega.
Þegar ég steig inn í frelsið sem fylgir því að skoða mál frá nýrri hlið sá ég hvað óttinn við vímuefni hafði stýrt skoðunum mínum á þeim. Kemur bannstefna nútímans til vegna þess sama ótta? Eru aðrar og ómannúðlegri ástæður fyrir þessari stefnu?
Saga bannstefnunnar á 20. öldinni fléttast við miður mannúðleg gildi sem óneitanlega hafa ekkert með efnin sjálf að gera. Yfirráðastefna hvíta kynstofnsins í Bandaríkjunum ásamt óttanum við hið óþekkta dreif valdamenn áfram í baráttu sem varð að lokum að stríði við sjálf vímuefnin í byrjun 8. áratugarins. Stríði sem flest lönd heimsins tóku upp eitt af öðru og viðhalda til dagsins í dag. Ísland flykktist endanlega á vagninn árið 1974 þegar lög um ávana- og fíkniefni voru sett.
Gagnlegt getur verið að skoða fortíðina til að skapa framtíðina. Þegar tekist er á um lagasetningu vímuefna í dag vona ég að ráðafólk leyfi ekki óttanum gagnvart því óþekkta að ráða för líkt og starfssystkini þess í Bandaríkjunum gerðu á síðustu öld.
Gæti lausnin leynst þar einhvers staðar á bak við?
Athugasemdir