Hinni ótrúlegu atburðarás gærkvöldsins — þegar lögreglumenn mættu á sjúkrahús til þess að vísa úr landi 11 gömlum fötluðum og veikum dreng og fluttu hann með valdi suður á Keflavíkurflugvöll — henni lauk sem betur fer með því að hætt var við allt saman.
Maður getur haft ýmsar skoðanir á málefnum útlendinga og hælisleitenda en brottvísun Yasans litla — og þessar aðfarir sérstaklega — voru svo handan við allt velsæmi og siðferðiskennd að við sem samfélag hefðum mátt skammast okkar alla okkar daga héðan í frá ef þetta hefði gengið eftir.
Nú sé ég á samfélagsmiðlum að VG þakkar sér að hafa stöðvað brottvísun Yasans á síðustu, bókstaflega síðustu stundu. Á Facebook sagði einhver ánægður að VG hefði „sigrað Sjálfstæðisflokkinn“.
Kannski — og vonandi — er það rétt, tæknilega séð. En beri einhverjum þakkir, þá er það samt ekki sá stjórnmálaflokkur sem hefur setið við ríkisstjórnarborðið með dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins í sjö ár og leyft þeim að hafa sína hentisemi, og til dæmis sýna æ betur klærnar eftir því sem samkeppnin við Miðflokkinn verður harðari.
Nei, þakkir á auðvitað aðeins skilið það fólk sem hefur vakandi sem sofandi reynt að gæta mannréttinda Yasans undanfarnar vikur eftir að ljóst varð í hvað stefndi.
Og um leið reynt að gæta þeirrar snotru siðferðisvitundar sem við viljum trúa að sé á bak við og rótin að samfélagi okkar.
En er því miður ansi djúpt á hjá sumum.
Og ætli VG að sitja áfram í ríkisstjórn með Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra sem sendi lögregluna af stað rétt undir miðnætti til að vísa 11 ára gömlum veikum strák úr landi, þá gef ég ekki mikið fyrir „sigur“ flokksins — þann „sigur“ að hafa einfaldlega látið undan þeirri ofboðslegu reiði sem greip um sig í gærkvöld þegar fréttist hvað væri að gerast, og hvernig.
Sannleikurinn er sá að í þessu hörmulega máli sigraði enginn, nema í hæsta lagi aktífistarnir sem stóðu vaktina.
Ekki einu Yasan litli sigraði. Ég ætla nú að vísu rétt að vona að hann fái að búa hér áfram ásamt fjölskyldu sinni og að honum muni líða hér vel, en hann mun þó alltaf vita það upp frá þessu að Ísland er land þar sem lögreglan getur birst á nóttunni að sparka okkar minnstu bræður og systur úr landi.
Nema við snúum rækilega við blaðinu.
Athugasemdir (3)